Á stuttum og annasömum dögum eins og núna síðustu dagana fyrir jól gefst lítill tími til eldamennsku. Það er þó þannig að þegar það er mikið að gera og allir frekar uppteknir er svo notalegt að setjast niður og borða kvöldmat, sem þarf bara alls ekki að vera svo flókið. Ég hef sótt mikið í léttar og bragðmiklar uppskriftir undanfarið. Eldaði til dæmis þessa tælensku kjúklingasúpu í gær og maður minn, hvað hún var góð. Einmitt það sem við þurftum á þessu dimma mánudagskvöldi. Um helgina eldaði ég svo þennan létta og bragðgóða mangó chutney kjúklingarétt. Ég mæli með að nota gott mangó chutney í réttinn. Geeta´s premium Mango chutney er í sérstöku uppáhaldi hjá mér og fæst t.d í Hagkaup. Það er vel kryddað og ekki of sætt. Ég hef einnig rekist á svipað chutney í öðrum verslunum, svo um að gera að prófa sig áfram.
Léttur mangó chutney kjúklingur með möndluflögum og sætum kartöflum (fyrir 3-4):
- 4 kjúklingabringur
- 1/2-1 sæt kartafla (fer eftir stærð)
- 1 pressað hvítlauksrif
- 1 tsk rifið engifer
- 4-5 vænar msk mangó chutney (eða meira eftir smekk)
- 1,5 dl vatn
- 1 tsk kjúklingakraftur eða 1/2 mulinn kjúklingateningur
- Handfylli af möndluflögum
Aðferð: Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Skerið sætu kartöfluna í þunnar sneiðar og leggið í botninn á eldföstu móti. Leggið kjúklingabringurnar ofan á. Hrærið saman hvítlauk, engifer, mangó chutney, vatni og kjúklingakrafti og hellið yfir kjúklinginn. Bakið í 25 mínútur. Takið þá út og dreifið möndluflögunum yfir og bakið áfram í 5 mínútur. Berið fram með fersku salati og brosi á vör!
Valdís vilhjálmsdóttir
Girnilegt þarf að prófa þetta.
Magnea Arnar
Hvaða hita ertu með á þessu? Ég er að elda þetta núna en giskaði bara 🙂
helenagunnarsd
Sæl Magnea og takk fyrir ábendinguna 🙂
Ég er oftast með minn ofn stilltan á 170 gráður með blæstri þegar ég baka svona kjúklingarétti. Ef þú notar ekki blástur er fínt að stilla á 180-190 gráður.
Kær kveðja, Helena
magneaarnar
Hvaða hita ertu með á þessu? er að elda þetta núna en giskaði bara