Mér finnst alveg ómögulegt hvað það er langt síðan ég setti inn nýja uppskrift. Tíminn hefur liðið óþarflega hratt undanfarið og ýmislegt skemmtilegt verið í gangi. Í síðustu viku kom út nýr Gestgjafi þar sem má finna tvær glænýjar uppskriftir frá Eldhúsperlum, ég mæli auðvitað óhikað með að þið nælið ykkur í eintak og prófið. Uppskriftirnar eru báðar af brauði og ég er ekki frá því að þau myndu bara smellpassa sem meðlæti með uppskrift dagsins. Svo hafa Eldhúsperlur líka fengið andlitslyftingu og svona ægilega fínt nýtt útlit, alveg kominn tími til.
Ég hef verið með hálfgert súpu æði núna á nýja árinu og þykir fátt betra en sjóðandi heit og góð súpa. Þessi súpa er virkilega ljúffeng og auðvelt að búa hana til. Það er alveg upplagt að taka til í grænmetisskúffunni og nota það grænmeti sem til er. Ég mæli þó með því að nota bæði gulrætur og púrrulauk þar sem það grænmeti gefur súpunni afskaplega gott bragð. Prófið þessa hollu og góðu súpu.
Ítölsk grænmetissúpa (fyrir 4)
- 1 stór púrrulaukur, skorinn í tvennt eftir endilöngu og svo þunnar sneiðar
- 3-4 hvítlauksrif, smátt söxuð eða í þunnar sneiðar
- 1 kúrbítur, skorinn í þunnar ræmur
- 2 stórar gulrætur, skornar í tvennt eftir endilöngu og svo í þunnar sneiðar
- 2 tsk ítölsk kryddblanda, t.d timian, oregano og basil
- 1,5 l grænmetissoð (grænmetiskraftur og vatn)
- 2 bollar pastaslaufur
- 1 dós baunir, t.d canellini eða kjúklingabaunir
- Fersk basilika og steinselja, smátt söxuð (má sleppa)
- Ólífuolía, salt og pipar
Aðferð: Hitið olíu í potti við meðalháan hita og steikið grænmetið þar til það mýkist aðeins. Kryddið með ítölsku kryddunum, salti og pipar.Bætið grænmetissoðinu út í. hleypið suðunni upp og setjið pastað saman við. Látið sjóða í 10-15 mínútur. Skolið baunirnar í sigti og bætið þeim svo út í. Sjóðið aðeins áfram og smakkið til með salti og pipar. Þegar súpan er eins og þið vijlið hafa hana stráið yfir ferskum kryddjurtum og blandið saman við. Berið fram rjúkandi heita.
Skildu eftir svar