Við fjölskyldan höfum átt yndislega daga undanfarið í sólinni suður á Flórída. Fríinu er sem betur fer ekki lokið enn og ég sit í þessum skrifuðu orðum og horfi yfir sundlaugarbakka, sé nokkur pálmatré og bláan himinn. Þetta er eins og í draumi. Ég mátti hins vegar til að líta örstutt hingað inn, ég sakna þess dálítið að setja ekki inn uppskriftir í svona langan tíma. Ég hef frétt af einhverjum hálfgerðu leiðindaveðri heima svo mér þykir alveg upplagt að gefa ykkur uppskrift að gómsætu brauði sem fyllir heimilið af dásamlegum ilmi og hlýju. Þessi uppskrift birtist í Gestgjafanum fyrir nokkrum vikum og hefur sannarlega slegið í gegn hjá þeim sem hana hafa prófað. Það tekur fimm mínútur að hræra í deigið og það er ómótstæðilega gott nýbakað með smjöri og enn betra að dreypa örliltu góðu hunangi yfir bráðið smjörið. Já ég veit. Uppskriftina fann ég upphaflega í amerísku matreiðslublaði fyrir nokkrum árum, hún hefur þó breyst aðeins og þróast.
3 bollar fínmalað spelt
100 gr gróft saxaðar valhnetur
1 msk vínsteinslyftiduft
1 1/2 tsk sjávarsalt
3 msk hunang
1 flaska bjór (330ml)
3 msk brætt smjör
Aðferð: Hitið ofninn í 160 gráður með blæstri, annars 180. Blandið saman í stórri skál, spelti, lyftidufti, salti og valhnetum. Bætið bjórnum og hunanginu saman við og hrærið þar til rétt komið saman. Setjið deigið í smurt brauðform og hellið bræddu smjörinu yfir. Bakið í 50-60 mínútur. Leyfið brauðinu að kólna í 30 mínútur áður en það er skorið. Það er einstaklega gott að smyrja brauðið með smjöri og örlitlu af góðu hunangi.
Berglind Heiða
Takk fyrir að senda okkur smá sól, hafið það gott og njótið síðustu daganna 🙂 brauðið lúkkar vel, næstum því jafn vel og sundlaug og pálmatré… mmmm…