Mikið var nú gott að komast í eldhúsið aftur í rólegheitum, elda góðan mat og taka myndir. Ég verð hálf eirðarlaus ef það líður langur tími á milli svoleiðis dúllerís viðburða en tíminn hefur ekki verið mikill til slíks dundurs undanfarið. Ég var alsæl með útkomuna á þessari ljúffengu súpu. Súpan er (miðað við það sem ég hef lesið á öðrum bloggsíðum) upprunalega frá veitingastaðnum Olive Garden – ítalskri veitingastaðakeðju sem rekur nokkur hundruð veitingastaði víða um Bandaríkin. Hversu ítölsk veitingastaða keðjan er má nú deila um þar sem þar gætir vissulega bandarískra áhrifa. Veitingastaðirnir eru þó afar vinsælir og þessi súpa hefur um árabil verið einn af vinsælli réttum staðarins. Þessi útgáfa er þó aðeins breytt og aðlöguð að íslenskum aðstæðum þar sem eitt af aðal hráefnunum í upprunalegu uppskriftinni er ítölsk pylsa eða ”sausage”.. svoleiðis fíneri fékkst ekki hér síðast þegar ég gáði svo ég notaði einstaklega bragðgóðar grískar pylsur frá Kjarnafæði í staðinn sem kom vel út. Ég mæli með að þið skoðið úrvalið á pylsum í matvörubúð og prófið einhverjar nýjar og spennandi í þessa súpu. Eins er alltaf gaman að heimsækja Pylsumeistarann á Hrísateigi og prófa einhverja af gæðapylsunum þaðan. Þó ég leggi það nú ekki í vana minn að elda pylsur eða unnar kjötvörur reglulega má nú alveg gera einstaka undantekningar á því, það gerir regluna líka bara skemmtilegri. Þetta er algjör sparisúpa kæru vinir, og kannski ekki súpa sem maður myndi elda einu sinni í viku. En ég get næstum lofað að hún mun vekja lukku þar sem hún er borin á borð.
- 150 gr beikon, smátt skorið
- 1 laukur, smátt saxaður
- 4 hvítlauksrif, smátt söxuð
- 350-400 gr góðar pylsur, t.d. grískar pylsur frá Kjarnafæði eða aðrar bragðmiklar pylsur, smátt skornar (tilvalið að kíkja t.d í Pylsumeistarann)
- 500 gr kartöflur, skornar í tvennt og svo í sneiðar
- 1 askja (ca. 15-18 stk) kirsjuberjatómatar, skornir í tvennt
- 1 líter kjúklingasoð
- 3 dl rjómi
- 3-4 góðar lúkur af fersku spínati
- Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar
- Smávegis af fersku basil til að strá yfir að lokum
Aðferð: Byrjið á að hita stóran pott við meðalhita. Steikið beikonið þar til það er vel stökkt og færið þá upp á eldhúspappír. Steikið laukinn og hvítlaukinn í beikonfitunni (ef ykkur þykir of mikil fita af beikoninu hellið þá aðeins af henni). Bætið pylsunum út í og steikið þar til þær brúnast aðeins. Bætið þá kartöflusneiðunum og tómötunum út á og steikið aðeins áfram. Hellið soðinu og rjómanum yfir og hleypið suðunni upp. Smakkið til með salti og pipar og e.t.v kjúklingakrafti ef ykkur finnst þurfa. Sjóðið í um 10 mínútur eða þar til kartöflurnar hafa eldast í gegn. Bætið þá spínatinu út í og látið það sjóða með í um 2-3 mínútur. Berið fram strax með fersku basil og stráið stökku beikoninu yfir hverja skál.….Það meiddust engar risaeðlur við gerð þessarar súpu – þær voru bara staddar alveg óvart þarna í horninu.. 🙂
Nanna Gunnarsdóttir
Vá hvað hún er hrikalega girnileg, þessi verður á matseðli haustsins, þegar súputiðin hefst…