Ég var alveg búin að ákveða hvað þetta salat ætti að heita áður en ég byrjað að elda það og eiginlega áður en ég vissi hvernig það ætti að vera. Stökkur kjúklingur, sesamfræ, engifer, sweet chilli, teryaki sósa, cashew hnetur.. þessi samsetning hljómaði einstaklega vel í mínum huga svo úr varð salat. Ég myndi seint kalla þetta fjölskylduvænan rétt þar sem kjúklingurinn rífur svolítið í, allavega ekki fyrir mjög ung börn. Litli maðurinn á þessu heimili var ekki sérstaklega hrifinn en við foreldrarnir vorum alsæl með þennan rétt. Þá var nú gott að eiga afgang af hrísgrjónum og kjúkling í ískápnum. Já, við borðum oft kjúkling.
Það er best að byrja á því að elda kjúklinginn til fulls og leyfa hitanum að rjúka úr honum meðan restin í salatið er undirbúin.
Uppskrift (fyrir 4):
- 1 lítill poki brotnar cashew hnetur (má sleppa)
- 3 kjúklingabringur
- 1 tsk rifið engifer
- 3 msk teryaki sósa
- 3 msk sweet chillisósa
- 3 msk sesamfræ
- 1 poki blandað salat
- 1/2 gúrka, skorin í teninga
- 4 vorlaukar, skornir í þunnar sneiðar
- 1/2 askja litlir tómatar, skornir í tvennt
- 2-3 msk salat feti (þessi í vatninu, vatnið sigtað frá)
- 1/2 lítill ferskur chilli pipar, skorinn í þunnar sneiðar til að skreyta salatið (má sleppa)
Aðferð:
Cashew hnetur ristaðar á þurri pönnu og settar í skál. Kjúklingurinn skorinn í frekar litla teninga og brúnaður á pönnu, kryddaður með salti, pipar og ferskum rifnum engifer. (Ég notaði sömu pönnu og ég ristaði hneturnar á). Þegar kjúklingurinn hefur brúnast aðeins er sweet chilli sósu, teryaki sósu og sesamfræum bætt út á pönnuna. Látið malla við meðalháan-háan hita þar til sósan er orðin þykk og þekur kjúklinginn, ca. 10 mínútur. Slökkvið undir og undirbúið restina sem fer í salatið. Ég raðaði salatinu svona: Neðst setti ég salatblönduna, svo gúrkubita og helminginn af vorlauknum. Kjúklinginn þar ofan á, svo tómatana, restina af vorlauknum, fetaost, hneturnar og svo smá chillisneiðar.
Virkilega gott salat! Verði ykkur að góðu 🙂
Skildu eftir svar