Eftir að hafa haft aðeins of mikið að gera, já eins og ég talaði um síðast og já, ég ætla að tala um það aftur, fannst mér kominn tími til að elda eitthvað almennilegt. Sonur minn er enn einu sinni að hafa áhrif á það hvað er eldað á heimilinu. Hverjum hefði dottið í hug að fjögurra ára barni hefði dottið þessi réttur í hug? Nei allt í lagi, kannski ekki alveg í smáatriðum en engu að síður stakk þetta litla ljós upp á því við úfna móður sína í búðinni seinnipartinn þennan föstudag. ”Mamma eldum bara kjúklingabringur” Og það varð auðvitað úr. Alltaf hægt að gera eitthvað stórkostlega gott og skemmtilegt við það hráefni. Samt alveg merkilegt hvað það var mikill mánudagsfílingur í mér þennan föstudaginn.. sem sennilega er vegna þessara blessuðu kærkomnu frídaga í miðri viku. Skemmtilegur ruglingur á rútínu sem svoleiðis frídagar gefa manni.
Þessir réttur er virkilega bragðmikill og góður. Sveppir og beikon passa alltaf svo vel saman og bragðið af timían og sítrónu smellur alltaf. Klassísk samsetning. Virkilega gaman að bera réttinn fram á fallegu fati með stökku beikoninu stráðu yfir og saxaðri ferskri steinselju.
Timían kjúklingur með beikoni og sveppum (fyrir 4):
- 4 kjúklingabringur
- 2 bakkar Flúðasveppir
- 1 bréf beikon (lítið)
- 2 dl hvítvín (má sleppa og nota meira kjúklingasoð)
- Safi úr 1/2 – 1 sítrónu (fer eftir stærð, ég notaði bara 1/2)
- 3 dl kjúklingasoð (vatn+kjúklingakraftur)
- 3 msk rjómi
- Salt, pipar og þurrkað eða ferskt timían
- Smávegis af ferskri steinselju
Aðferð: Byrjið á að kljúfa kjúklingabringurnar í tvennt eftir endilöngu á þykktina og berjið þær svo með kjöthamri eða botni á potti þannig að þær þynnist aðeins. Kryddið með salti, pipar og timían. Skerið beikonið í litla bita og sveppina í frekar stóra bita. Hitið pönnu við háan hita og steikið beikonið þar til það verður stökkt. Takið það af pönnunni og færið á eldhúspappír. Steikið því næst kjúklinginn þar til hann er nánast alveg fulleldaður. Takið hann þá af pönnunni og geymið á diski. Hækkið hitann, setjið smá smjör eða olíu á pönnuna og steikið sveppina þar til þeir hafa brúnast vel. Kryddið með salti, pipar og timían. Þegar sveppirnir hafa brúnast vel. Hellið þá hvítvíni á pönnuna og leyfið því að sjóða aðeins niður, tekur ca. 1-2 mínútur. Bætið þá kjúklingasoðinu og sítrónusafanum á pönnuna ásamt rjómanum. Leyfið þessu að sjóða aðeins niður og smakkið til með salti og pipar. Leggið því næst kjúklinginn á pönnuna og látið hann hitna í gegn í sveppasósunni. Þegar kjúklingabringurnar eru heitar í gegn raðið þeim þá á fat og hellið sveppasósunni yfir. Stráið því næst stökku beikoninu og steinseljunni yfir og berið fram t.d með einföldu salati.
Jokka Páls
Þetta tókst ótrúlega vel hjá mér. Takk kærlega fyrir frábæra kokkamennsku 🙂
helenagunnarsd
Frábært Jókka! Gaman að vita og verði þér að góðu 🙂
Erla Steingríms
Frábær réttur, annað skipti sem ég elda hann, algjört æði 🙂