• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

Archives for janúar 2014

Rómantísk frönsk lauksúpa..

janúar 22, 2014 by helenagunnarsd 4 Comments

min_IMG_4377Hvernig ég gat gleymt að deila með ykkur yndislegu innbökuðu frönsku lauksúpunni sem ég eldaði fyrir Vikuna í haust, skil ég ekki. Ég hef eitthvað óvenju lítið verið í eldhúsinu undanfarna daga svo ég gladdist innilega þegar ég rakst á myndir af þessari dásemd á dögunum og er ákaflega glöð að geta nú, í uppskrifta skorti, sett inn þessa fínu uppskrift. Það eru til ótal útgáfur og tegundir af lauksúpum og nei, ég er sannarlega enginn sérfræðingur í sögu lauksúpunnar eða hversu frönsk eða upprunaleg þessi uppskrift er. Ég hef prófað mig áfram oftar en ég hef tölu á þar sem lauksúpa er eitt af því besta sem við á heimilinu borðum. Ég man líka eins og það hafi gerst í gær þegar ég smakkaði franska innbakaða lauksúpu hjá mömmu í fyrsta skiptið og þá var ekki aftur snúið. Eftir margar tilraunir og lestur hefðbundinna sem og óhefðbundinna uppskrifta að franskri lauksúpu er ég komin niður á útgáfu sem ég er bara ansi ánægð með þó ég segi sjálf frá.

min_IMG_4376Galdurinn að baki góðri lauksúpu er í fyrsta lagi að hafa næga þolinmæði til að láta laukinn malla hægt og rólega þannig að hann verði sætur, mjúkur og gullinbrúnn. Hljómar vel ekki satt? Eftirleikurinn er svo tiltölulega einfaldur og um að gera að smakka sig áfram þar til súpan er akkúrat eins og þið viljið hafa hana. Þannig verður matur auðvitað bestur. Súpan er svo borin fram rjúkandi heit með góðu rauðvínsglasi við kertaljós. Bullandi rómantík! Ég myndi ekki hika við að gera þessa á bóndadaginn..

min_IMG_4390Frönsk lauksúpa

  • 1 kg laukur, skorinn í tvennt og svo í þunnar sneiðar
  • 2 lárviðarlauf
  • 2-3 greinar ferskt timian eða 2 tsk þurrkað timian
  • 50 gr smjör
  • 2 msk hveiti
  • 1 glas hvítvín
  • 1,5 – 2 l kjötsoð (t.d vatn og nautakraftur, fer svolítið eftir því hversu þykka eða þunna þið viljið hafa súpuna)
  • Salt og pipar
  • 2-3 msk koníak (má sleppa en er virkilega gott.. og sparilegt)
  • Brauð, t.d baguette skorið í frekar stóra teninga, gott að nota dagsgamalt eða frekar þurrt brauð.
  • Rifinn Ísbúi eða annar bragðmikill ostur

Aðferð: Byrjið á að skera laukinn í sneiðar og bræða smjörið í stórum potti við meðalhita. Steikið laukinn í smjörinu og bætið timian og lárviðarlaufum út í. Kryddið með smá salti og pipar. Steikið þetta við lágan-meðalhita í u.þ.b 40 mínútur eða þar til laukurinn hefur minnkað um helming og er orðinn fallega brúnn og karamelliseraður. Bætið þá 2 msk af hveiti saman við og steikið í um 5 mínútur. Hellið þá hvítvíninu og soðinu saman við og hrærið vel í á meðan suðan er að koma upp.

Leyfið að malla í a.m.k 30 mínútur og smakkið til með salti og pipar og ef til vill örlitlu koníaki. Takið lárviðarlaufin upp úr. Hitið grillið í ofninum á hæsta styrk. Setjið súpuna í skálar og dreifið brauðteningunum yfir og vel af rifnum osti. Bakið undir grillinu þar til osturinn er bráðnaður og aðeins farinn að dökkna. Það má líka elda súpuna í eldföstum potti, dreifa brauðinu og ostinum beint yfir súpuna í pottinum og setja hann svo undir grillið. min_IMG_4386p.s. – minni á leikinn í færslunni hér fyrir neðan….

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Frönsk innbökuð lauksúpa, Frönsk lauksúpa, Góð súpa, Gratineruð lauksúpa, Innbökuð lauksúpa, Lauksúpa uppskrift, Uppskrift að lauksúpu

Jónsdóttir & Co – Gjafaleikur

janúar 20, 2014 by helenagunnarsd Leave a Comment

EldhúsperlurHvernig væri nú að skella í gjafaleik svona bara af því að það er mánudagur og þá á maður alltaf að gera eitthvað skemmtilegt! Eruð þið ekki til..? Ég er tiltölulega ný búin að kynnast dásemdar versluninni Jónsdóttir & Co. logoTil að byrja með féll ég algjörlega fyrir litlu ofursætu og mjúku ungbarna samfellunum þeirra sem hægt er að sérpanta með texta og mynd fyrir hvern og einn.1491616_722152894461912_1218887871_n

– Hversu sætt?

Jónsdóttir & co er lítið krúttfyrirtæki. Ungbarnavörur úr lífrænni yndismjúkri bómull með sætum texta og fígúrum er aðalsmerki Jónsdóttur & co og eru vörur með Stubb sennilega þekktastar. Persónuleg koddaver þar sem þú velur textann á bættust síðan við í fyrra en öll verin eru bæði saumuð og prentuð hér heima. Samhliða þessari vöru flytur Jónsdóttir & co einnig inn dásamlega fallega írska gjafavöru frá AVOCA, kerti, ilmandi sápur, matreiðsulubækur og annað skemmtilegt. En það eru einmitt spennandi vörur frá AVOCA sem eru í gjafaleiknum. Annað slagið sameinar Jónsdóttir & co krafta sína ásamt Íslenzka Pappírsfélaginu með Pop Up verzlun sem ber heitið LJÚFLINGSVERZLUN en sú næsta verður einmitt haldin með pomp og prakt helgina 1.02-02.02 að Álfheimum 2-4. 1454947_703488146328387_1776967522_n

Einstaklega skemmtileg verslun með allskonar yndislega fallega hluti. Ég mæli með því að þið kíkið á síðuna og skoðið dýrðina. Svo eru þau auðvitað líka með þessa fínu Facebook síðu. Haldiði ekki bara að Jónsdóttir & Co hafi verið svo elskuleg að vilja vera með Eldhúsperlum í gjafaleik og útbúið undur fallegan gjafapoka með nokkrum vel völdum AVOCA vörum, matreiðslubók, viskustykki og bollakökuformum. Ef þið viljið vera með í leiknum og eiga möguleika á að vinna gjafapokann farið þið svona að:

  1. Smellið like-i á Facebook síðu Eldhúsperlna og Jónsdóttir & Co (Ef þið eruð ekki nú þegar búin að því)
  2. Skrifið athugasemd (kommentið) við færsluna á Facebooksíðu Eldhúsperlna.

Einfalt ekki satt? Ég dreg vinningshafa á fimmtudagskvöldið! Jibbí jei 🙂

Filed Under: Eldhúsperlur

Súkkulaði- og ólífuolíu kaka

janúar 17, 2014 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_4812Nýju þættir Nigellu, Nigellissima hafa átt hug minn allan í vetur. Það sem konan töfrar fram girnilegar kræsingar og það auðvitað fyrirhafnarlaust með bros og vör eins og hennar er von og vísa. Súkkulaði kaka með ólífuolíu hefur því verið dálítið lengi á ”to do” listanum mínum yfir nýjungar til að prófa í eldhúsinu. Kakan er dásamleg. Ég viðurkenni alveg að ég bjóst ekkert við neinni flugeldasýningu enda kakan einföld og hráefnin tiltölulega fá. min_IMG_4803Ég hafði rangt fyrir mér því þetta var flugeldasýning. Einstaklega létt og mjúk, djúsí kaka með fullkomnu súkkulaðibragði og flauelsmjúk. Kakan er líka glútenlaus sem gleður eflaust einhverja. Prófið þessa himnesku köku og látið sannfærast.min_IMG_4822

Súkkulaðikaka með ólífuolíu: (Uppskrift úr bókinni Nigellissima)

  • 50 gr gott dökkt kakó
  • 125 ml sjóðandi heitt vatn
  • 150 ml ólífuolía
  • 200 gr sykur
  • 3 egg
  • 2 tsk vanilluextract
  • 150 gr malaðar möndlur eða möndlumjöl (má líka nota 125 gr hveiti í staðin)
  • 1/2 tsk matarsódi

min_IMG_4811Aðferð: Byrjið á að hita ofn í 160 gráður með blæstri annars 180 gráður. Setjið kakóið í skál og hellið heita vatninu yfir. Hrærið þar til vel blandað saman. Þeytið egg, sykur og ólífuolíu saman í a.m.k 5 mínútur með rafmagnsþeytara eða í hrærivél þar til blandan er þykk og aðeins loftkennd. Hellið kakóblöndunni saman við og hrærið vel saman. Setjið því næst möndlumjölið og matarsódann og blandið öllu vel saman. Hellið í smurt  laustbotna form og bakið í 40-45 mínútur.

Formið sem ég notaði var 23 cm. Athugið að deigið er mjög blautt svo gott getur verið að klæða formið að utan með álpappír svo það leki ekki. Athugið að kakan á að vera dálítið blaut í miðjunni og lyftir sér ekki mjög mikið. Látið kökuna kólna í ca. 30 mínútur og takið hana svo úr forminu og setjið á disk. Ég bræddi svo saman 50 gr af suðusúkkulaði og 1 msk af ólífuolíu og hellti yfir. min_IMG_4820

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Besta súkkulaðikakan, Ítölsk súkkulaðikaka, Súkkulaðikaka, Súkkulaðikaka með ólífuolíu, Súkkulaðikaka Nigellu, Súkkulaðiterta

Glútenlaust granóla Gvendólínu

janúar 7, 2014 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_4780Af hverju er svona gaman að gera eitthvað annað en það sem maður á að vera að gera? Núna til dæmis ætti ég að sitja við skriftir á lokaritgerðinni minni sem virðist í augnablikinu bara alls ekki ganga, allavega ekki nema á hraða óvenju hægfara snigils. Í gær fékk ég þá frábæru hugmynd um hádegisbil að nú væri fullkominn tími til að búa til granólað sem ég hef hugsað um svo lengi. Svo ég gerði það. Það góða var að það tók ekki meira en hálftíma og afraksturinn var eitthvað það allra besta granóla/múslí/morgunkorn sem ég hef smakkað. Svo tímanum var vel varið.

min_IMG_4794Ég fjárfesti nýlega í bókinni It´s all good eftir Gwyneth Paltrow (Gvendólínu) og hef lesið hana spjaldanna á milli á spjaldtölvunni, keypti sumsé ipad útgáfu sem mér þykir hin mesta snilld. Bókin er frábær, full af hollum og einföldum uppskriftum sem lofa allar afar góðu og ég hef iðað í skinninu að prófa. Fyrsta uppskriftin sem ég prófaði hitti allavega beint í mark! Mig hefur lengi langað að búa til granóla en hef alltaf hikað þar sem aðal uppistaðan eru oftast hafrar sem því miður fara ekki svo vel í mig. Þetta glútenlausa granóla þar sem aðal uppistaðan eru quiona flögur þótti mér því tilvalið að prófa og ég sé svo sannarlega ekki eftir því. Ég hvet ykkur innilega og óhikað við að prófa þetta granóla og alls ekki vera hrædd við quinoa flögurnar þó þið hafið aldrei prófað þær. Þær fást í öllum heilsubúðum og sennilega í heilsurekkum einhverra matvöruverslana. Það er þess virði að gera sér ferð til að næla sér í þetta ofurholla og prótínríka góðgæti.

min_IMG_4792Guðdómlegt granóla Gvendólínu (Lítillega breytt uppskrift úr bókinni It´s all good):

  • 1/2 bolli ólífuolía (líka hægt að nota kókosolíu)
  • 1/2 bolli hlynsíróp (ég notaði aðeins minna en fannst þetta samt alveg nógu sætt)
  • 3 bollar quinoaflögur
  • 1 1/4 bolli gróft saxaðar valhnetur
  • 1 1/4 bolli gróft söxuð graskersfræ
  • 1 bolli þurrkaðar gráfíkjur, skornar í litla bita
  • 1 bolli þurrkuð trönuber (Gvendólína notar sveskjur)
  • Gott sjávarsalt (ég notaði um 1/2 tsk)

min_IMG_4777Aðferð: Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Pískið saman ólífuolíu og hlynsírópi. Bætið quinoaflögunum saman við og blandið vel saman. Hellið á pappírsklædda ofnplötu og dreifið vel úr. Stráið smá sjávarsalti yfir, bakið í 15 mínútur og hrærið einu sinni til tvisvar í á meðan. Takið úr ofninum og bætið restinni af hráefnunum saman við á plötuna og blandið vel saman.min_IMG_4781 Bætið e.t.v við örlitlu sjávarsalti í viðtbót. Bakið áfram í um 10 mínútur. Takið úr ofninum og látið kólna alveg, setjið svo í stóra glerkrukku eða annað ílát og geymið lokað við stofuhita. min_IMG_4798Granólað er gott með grískri jógúrt, ab mjólk, hreinni jógúrt eða venjulegri mjólk. Uppáhaldið mitt er að hella yfir það smá möndlumjólk og borða í morgunmat.. eða eftirrétt. Ofsalega gott!min_IMG_4800

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Glútenlaust, Glútenlaust granóla, Gott granóla, Góð granóla uppskrift, Góður morgunmatur, Granóla, Múslí uppskrift

Kjúklingur með mozarella og tómötum..

janúar 5, 2014 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_4759… og balsamikediki og vorlauk og ólífum. En þá er það líka upptalið. Svei mér þá hvað þetta var góð og hressandi máltíð eftir hverja stórsteikina á fætur annarri yfir hátíðarnar. Við Heimir vorum sammála um það á nýársdagskvöld þá eftir enn eina veisluna, að við værum sennilega búin að vera samfleytt södd síðan á þorláksmessu. Ég held að það sem geri líka blessaða jólahátíðina svona frábrugðna eðlilegu mataræði (svona fyrir utan reykt og saltað kjöt) sé allur sykurinn. Það er konfekt á hverju horni og eftirréttir verða eðlilegasti hlutur á eftir stórkostlegum veislumáltíðum. Sykurinn má ekki bara finna í eftirréttunum eða á kaffiborðinu heldur líka út á kartöflurnar,  út í sósuna, ofan á hamborgarhrygginn, saman við waldorfssalatið og svo væri lengi hægt að telja.

min_IMG_4761En það sem við áttum yndislega jólahátíð umvafin elskulegu fjölskyldunum okkar, stórsteikum og félögunum sykri og rjóma. Ég tek þó janúar og nýju ári fagnandi. Það er svo margt spennandi á dagskrá hjá okkur á þessu ári, nokkur stórafmæli, útskrift og tvær utanlandsferðir eru nú þegar á dagskrá svo það verður nóg að gera á næstu mánuðum. En að matnum. Kjúklingarétturinn sem ég set inn í dag er alveg einstaklega góður. Ég veit að ég segi oft að matur sé einfaldur og fljótlegur en það er líka af því ég meina það. Og þessi er hvorutveggja og líka ofboðslega bragðgóður, léttur í maga og eitthvað allt annað bragð en af jólamat. Prófið bara!min_IMG_4755

Kjúklingur með mozarella og tómötum:

  • 4 kjúklingabringur eða 8 úrbeinuð kjúklingalæri
  • 1 askja kirsuberjatómatar
  • 5 vorlaukar
  • 2 kúlur ferskur mozarella ostur
  • 1 krukka svartar ólífur
  • 1 dl balsamikedik
  • Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar
  • Ólífuolía

Aðferð: Kljúfið kjúklingabringurnar í tvennt ef þið notið þær. Kryddið kjúklinginn vel með salti og pipar og steikið þar til vel brúnaður og nánast eldaður í gegn. Færið kjúklinginn í eldfast mót og leggið sneið af mozarella osti ofan á hvern. Hitið grillið í ofninum. Skerið kirsuberjatómatana í tvennt og saxið vorlaukinn smátt. Setjið tómatana, hvíta hlutann af vorlauknum og ólífurnar á pönnuna og steikið í stutta stund við háan hita. Hellið balsamikedikinu út á pönnuna og leyfið að sjóða aðeins niður í 1-2 mínútur. Hellið yfir kjúklinginn og mozarellaostinn. Setjið undir grillið í u.þ.b 5-7 mínútur eða þar til osturinn verður gullinbrúnn.min_IMG_4749 Stráið restinni af vorlauknum yfir og berið fram t.d með hrísgrjónum eða brauði.min_IMG_4767

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfaldir kjúklingaréttir, Fljótlegur kvöldmatur, Góður kjúklingaréttur, Hollur matur, Ítalskur kjúklingaréttur, Kjúklingaréttur, Kjúklingur með mozarella

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram did not return a 200.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme