Ég var að fara yfir gamlar myndir á tölvunni um daginn og rakst þá á myndir af þessum dásamlegu vanillubollakökum með ljósbleiku jarðarberjakremi. Kökurnar gerði ég fyrir næstum því ári síðan, eða fyrir eins árs afmæli systurdóttur minnar. Nú er sú stutta alveg að verða tveggja ára og ef ég þekki hana rétt myndi hún seint fúlsa við bita af þessum ljúffengu kökum. Hún er einmitt á leiðinni í heimsókn til okkar á eftir svo það er vel við hæfi að birta uppskrift og myndir af kökunum í dag. Kökudeigið er það sama og ég notaði fyrir þessar sjóræningjabollakökur fyrir 5 ára strákaafmæli í haust. Virkilega mjúkar og góðar kökur sem ganga með hvaða kremi sem er.
Vanillubollakökur (24 stk, auðveldlega hægt að helminga):
- 225 gr smjör við stofuhita
- 250 gr hrásykur
- 1 msk hreint vanilluextract
- 4 egg
- 350 gr fínmalað spelt eða hveiti
- 1 msk vínsteinslyftiduft
- 1/4 tsk salt
- 2,5 dl nýmjólk
Smjörkrem:
- 300 gr mjúkt smjör
- 400 gr flórsykur
- 2 tsk vanilluextract (eða 1 tsk vanilludropar)
- 4 msk góð jarðarberjasulta (reynið að sneiða hjá jarðarberjabitunum í sultunni)
- 2-3 msk mjólk
- Nokkrir dropar bleikur matarlitur
Athugið að ef öll hráefni í kökurnar eru við stofuhita verður útkoman enn betri. Ég mæli með að taka smjörið, eggin og mjólkina úr ísskáp a.m.k 2 klst áður en bakstur hefst. Ef ekki gefst tími og smjörið er mjög hart getur verið gott að skera það í sneiðar og leggja á disk, þá mýkist það fyrr.
Aðferð: Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Þeytið smjör, sykur og vanillu í 3-5 mínútur eða þar til blandan er vel ljós og létt. Bætið eggjunum út í einu í einu og hrærið vel á milli. Blandið saman hveitinu, salti og lyftidufti og pískið vel saman eða sigtið. Bætið hveitinu og mjólkinni saman við deigið til skiptis, endið á hveitinu og blandið vel saman þannig að deigið sé silkimjúkt, en varist þó að hræra of lengi. Skiptið deiginu í bollakökuform og bakið í ca. 18 mínútur.
Krem: Þeytið smjörið í 3-5 mínútur eða þar til það verður ljóst og létt. Bætið flórsykrinum saman við og þeytið í 3 mínútur til viðbótar, bætið jarðarberjasultunni út í og hrærið vel. Hellið mjólkinni smám saman út í ásamt vanillunni þar til kremið er létt og meðfærilegt. Setjið kremið í sprautupoka og sprautið á kökurnar. Ég notaði stút nr. 2D frá Wilton sem ég fékk í versluninni Allt í köku.
Drífa
Hæhó! Ég hélt afmælisveislu í dag og bauð meðal annars upp á þessar bollakökur. Þær ruku út, SVO góðar og mjúkar. Takk fyrir að deila með okkur! 🙂
helenagunnarsd
Hæ Drífa! En dásamlega gaman að vita 🙂 Takk fyrir kveðjuna!
Kær kveðja Helena