• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

Archives for apríl 2014

Nokkrar sumarlegar uppskriftir

apríl 24, 2014 by helenagunnarsd Leave a Comment

Page_1Gleðilegt sumar kæru lesendur og takk fyrir samfylgdina í vetur. Ég ákvað í tilefni sumarkomu að taka saman nokkrar uppáhalds uppskriftir sem ég tengi við björt sumarkvöld og hækkandi hitastig. Þó vissulega megi nú elda þetta allt saman líka í harðavetri verður maður nú svona aðeins grill glaðari á sumrin. Ég sæki til dæmis ósjálfrátt í léttari og fljótlegri mat þegar fer að vora því það er vissulega margt skemmtilegra en að standa í eldhúsinu ef veður er gott og allir vilja vera úti. Það þarf þó ekki að vera flókið að elda frá grunni góðan mat heima sem tekur stutta stund. Ég vona að sumarið verði ykkur öllum yndislegt!

min_img_3875

Kalt pastasalat er alltaf vinsælt. Fljótgert og svo ljúffengt. Þetta er líka upplagt nesti í lengri eða styttri ferðalög.

min_img_3724

Ó þessi lax. Finnst ykkur fiskur ekkert spes? Setjið á hann þessa marineringu og þið skiptið um skoðun. Namm!
min_img_3192 Létt og fljótlegt meðlæti – nú eða forréttur, alltaf svo sígilt og gott. Mozarella og tómatar. Ég gæti borðað þetta á hverjum degi.min_img_3131Grillað lambakjöt á teini með papriku og rauðlauk. Allt á teini er gott og sumarlegt. Það er bara þannig.
min_img_3033

Þessi satay kjúklingaspjót eru ekki síðri en lambaspjótin. Sumarleg og dásamlega bragðgóð. 
min_img_2609 Grillaður Halloumi ostur á salatbeði með jarðarberjum og smá chilli. Getur verið meðlæti, smáréttur eða forréttur. Bara gott.min_img_2280Jarðarber í salati eru yndilslega góð. Hérna fá þau að leika sér við rifinn piparost og grænmeti. Frábært og einfalt salat!min_img_3449

Ég mun seint fá leið á þessari himnesku gleðisprengju. Svo einföld er hún að hana mætti útbúa í útilegunum í sumar.min_img_2722Einhverjum finnst ég sennilega fara yfir strikið með grilluðum bönunum svona á sumardaginn fyrsta. En þeir standa alltaf fyrir sínu og minna mig bara á útilegur um hásumar. Þessir eru líka fylltir með After eight súkkulaði…!

Filed Under: Eldhúsperlur

Fisléttar morgunverðar pönnukökur með bláberjasýrópi

apríl 23, 2014 by helenagunnarsd Leave a Comment

1600986_696332540425140_710344210128346248_nNú koma frídagarnir á færibandi sem er nú ekki til að skemma fyrir stemmningunni sem fylgir björtum vorkvöldum og örlítið hækkandi hitastigi. Í gærkvöldi söng lóan fyrir utan gluggann hjá mér þegar ég dró niður gardínurnar og hún var mætt aftur í morgun þessi elska og söng eins og enginn væri morgundagurinn. Mikið kann ég vel að meta vorið, ég held að það sé uppáhalds árstíminn minn. Mér finnst allir vera í góðu skapi. Talandi um gott skap. Ég hefði sennilega ekki getað glatt son minn meira en þegar ég sagði honum í gærkvöldi að á morgun mætti hann fara á strigaskóm í leikskólann. Þvílík gleði og tilhlökkun! Sá litli valhoppaði svo í morgun inn á leiksólann á glansandi nýjum strigaskóm sem hafa beðið í forstofunni síðan fyrr í vetur. photo 2-3Um páskana gerði ég þessar yndislegu pönnukökur sem ég hef gert svo oft áður en einhverra hluta vegna aldrei sett hingað inn. Pönnukökurnar eru afar léttar og góðar, lausar við fitu og bras og þeyttar eggjahvíturnar gefa þeim þessa ótrúlega góðu áferð, svona eins og maður sé að borða ský.

photo 5-2Fisléttar morgunverðar pönnukökur (fyrir 3-4)

  • 130 gr fínmalað spelt
  • 2 tsk vínsteinslyftiduft
  • 1/4 tsk salt
  • 4 egg
  • 1 1/2 dl mjólk
  • 1/2 tsk vanilluextract
  • (Ef þið viljið sætari pönnukökur er sjálfsagt að þeyta t.d 2 msk af sykri, hunangi eða öðru sætuefni saman við mjólkina og eggjarauðurnar, mér finnst það þó ekki þurfa þar sem bláberjasýrópið er svo sætt og gott)

Aðferð: Hrærið saman hveiti, lyftidufti og salti. Aðskiljið eggjarauðurnar frá hvítunum. Hrærið eggjarauðunum, vanillu og mjólkinni saman við þurrefnin. Stífþeytið eggjahvíturnar og blandið þeim rólega saman við deigið. Steikið á pönnu, báðum megin þar til eldaðar í gegn. Ég setti nokkur frosin bláber á helminginn af pönnukökunum áður en ég sneri þeim við á pönnunni. Það væri líka hægt að setja niðurskorna banana til dæmis. Ég nota þunga pottjárnspönnu við steikinguna og nota enga fitu, finnst það ekki þurfa og þær festast ekkert við pönnuna.

Volgt bláberjasýróp:

  • 1 1/2 dl hlynsýróp
  • 4-5 msk frosin bláber

Aðferð: Sett í pott og hitað saman við vægan hita þar til bláberin hafa þiðnað og sýrópið heitt en ekki farið að sjóða. Berið fram með pönnukökunum, niðursneiddum bönunum, jarðarberjum, bláberjum og pínu íslensku smjöri.photo 4-3

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Amerískar pönnukökur, Bröns hugmyndir, brunch uppskriftir, Morgunmatur

Kornflex terta með bananarjóma og saltri karamellusósu

apríl 14, 2014 by helenagunnarsd 2 Comments

photo 4Nú þegar páskavika gengur í garð þykir mér afar viðeigandi að gefa hér uppskrift að þessum dásamlega og auðvelda eftirrétti sem er meira að segja bara pínu páskalegur ef maður fer út í það. Það má með sanni segja að undirrituð hafi ekki verið að finna upp hjólið í eldhúsinu þegar þessi ljúffenga terta var gerð. Að sama skapi er nokkuð ljóst að uppskriftir að tertunni má finna á mjög mörgum matarbloggum sem og hingað og þangað um veraldarvefinn. Ég ætla þó óhikað og kinnroðalaust að birta bæði myndir og uppskrift að minni útgáfu af þessari dásamlegu tertu því aldrei er góð vísa of oft kveðin. Tertan er ótrúlega vinsæl sem er alls ekki skrýtið því hún er bæði fljótleg og óskaplega góð. Ég nota svipaða uppskrift og ég er vön að nota í rice krispies kökurnar mínar en notaði kornflex í botninn í þetta skiptið. Mér þótti það koma enn betur út. Ofan á notaði ég svo ljúffenga karamellusósu með örlitlu góðu sjávarsalti. Það var auðvitað bara himneskt. Ég hvet ykkur til að vera óhrædd við að prófa að nota gott sjávarsalt með svona sætindum, það einfaldlega gerir bara gott betra. Ég nota alltaf saltið frá Saltverk. Bæði þykir mér það mjög bragðgott og svo er áferðin á því afar góð. Ein sneið af þessari dásemd slær líka út hvaða páskaeggi sem er..!photo 3Klístruð kornflex terta með bananarjóma og saltri karamellusósu:

  • Í botninn:
  • 75 gr smjör
  • 150 gr suðusúkkulaði
  • 50 gr rjómasúkkulaði
  • 5 msk sýróp
  • 1/4 tsk gróft sjávarsalt
  •  4 1/2 bolli Kornflex eða Rice Krispies
  • Ofan á:
  • 2-3 bananar
  • 4 dl rjómi
  • 1 msk kakó
  • ca. 1 dl góð karamellusósa (t.d þessi hérna eða keypt úr búð)
  • 1/2 tsk gróft sjávarsalt

Aðferð: Setjið allt sem á að fara í botninn í pott nema Rice krispies/Kornflex. Bræðið saman við vægan hita. Takið af hitanum, bætið korninu saman við og hrærið vel saman með sleif eða sleikju þannig að súkkulaðiblandan þekji allt kornið vel. Hellið blöndunni í fat eða kökuförm, þrýstið vel í botninn og kælið í ísskáp í 30 mínútur eða lengur. (Botninn geymist vel í nokkra daga undir plastfilmu í ísskáp og hann má einnig frysta). Sneiðið bananana niður og dreifið yfir botninn. Þeytið rjómann og dreifið svo úr honum yfir tertuna. Dustið kakóinu yfir í gegnum sigti og hellið karamellusósunni svo yfir. Myljið sjávarsaltið milli fingranna og dreifið yfir. Tertuna má bera fram strax eða geyma í ísskáp og bera fram síðar. Mér finnst gott að leyfa tertunni að standa í stofuhita í 20 mínútur áður en hún er skorin, þá mýkist botninn aðeins svo auðveldara verður að skera hann.  IMG_5431

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Auðveldur eftirréttur, Besti eftirrétturinn, Eftirréttur til að gera fyrirfram, Fljótlegur eftirréttur, Góðar rice krispies, Kaka sem má frysta, Kornflex kaka, Kornflex terta, Rice krispies kaka með rjóma og karamellusósu, Rice krispies terta

Bláberjasæla

apríl 9, 2014 by helenagunnarsd 4 Comments

bláberjasjeikUppáhalds sjónvarpsefnið á heimilinu hjá okkur mæðginum þessa dagana er Eldað með Ebbu á RÚV. Eruð þið ekki örugglega búin að vera að horfa? Það skiptir ekki máli hvort hún er að búa til skærgræna safa eða dýrindis kvöldmat, allt verður þetta jafn girnilegt. Svo lítur allt sem hún gerir út fyrir að vera svo auðvelt, sem það er. Ég hef prófað óteljandi margar uppskriftir frá henni, þær eru allar góðar og í alvöru svo einfaldar og þægilegar. Hvet ykkur til að prófa. Sonur minn hefur til dæmis ALDREI fengist til að drekka græna drykki eða djúsa. Einum Ebbu þætti seinna og barnið gúllar í sig fullu glasi af ósætum skrímslagrænum safa án þess að hika og hefur gaman að því, mér til mikillar gleði! bjáberjasjeik1Þessi drykkur sem ég gef uppskrift að núna hefur fylgt mér í nokkur ár og sá litli hefur aldrei fúlsað við honum. Okkur þykir hann alltaf jafn góður og það tekur enga stund að henda innihaldinu í blandarann og þá er morgunmaturinn tilbúinn mínútu seinna. Mér finnst gott að hafa allt hráefnið nálægt blandaranum á morgnana þegar ég geri drykkinn, hljómar kannski asnalega en trúið mér, það munar heilmiklu að þurfa ekki að grafa ofan í skúffum eða skápum og leita að því sem á að fara í drykkinn. Sérstaklega á morgnana þegar allir eru að flýta sér og ég er alltaf að flýta mér. Það getur því borgað sig að hafa allt innan seilingar eða flýta fyrir sér á kvöldin og gera allt tilbúið fyrir svefninn. Stundum skipti ég bláberjunum út fyrir frosin jarðarber og hálfan banana, það þykir stráknum mínum ofsalega gott, enda bragðast það eins og besti jarðarberjasjeik.

bláberjasjeik2Bláberjasæla (fyrir 1):

  • 2 dl ósæt möndlumjólk
  • 1 dl vatn (minna ef þið viljið þykkan drykk)
  • 2-3 dl frosin bláber
  • 1 tsk kókosolía
  • 1 msk hampfræ
  • 1 msk chiafræ
  • 4-5 dropar stevia, ef þið vijið sætara bragð. Má líka sleppa.

Aðferð: Allt sett í blandara og blandað þar til silkimjúkt. Stundum set ég eina matskeið af hreinu mysu- eða hemp próteini út í drykkinn ef ég á það til. Þá verður drykkurinn matarmeiri og maður er lengur saddur.

 

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Bláberjadrykkir, Bláberjadrykkur, Boost, Boozt, LKL morgunmatur, LKL uppskriftir, Möndlumjólk uppskriftir, Morgundrykkir

Mjúkt bananabrauð með súkkulaðibitum

apríl 3, 2014 by helenagunnarsd 2 Comments

min_IMG_5388Á sunnudaginn helltist óskemmtileg flensa í son minn, sama dag fór maðurinn til útlanda og áform mín um vinnusama viku fóru út um þúfur. Í dag er stráksi þó allur að hressast, pabbinn kominn heim og rútínan sem átti að byrja á mánudaginn gat því byrjað í morgun, þremur dögum seinna. Það á ekkert sérstaklega vel við mig að vera heima í marga daga án þess að fara út, ég verð eiginlega að komast út allavega svona einu sinni á dag. Þegar það er ekki í boði verður kona að finna sér eitthvað til dundurs svona heima við sem felur líka í sér eitthvert skemmtanagildi fyrir lasið barn. Það voru því vel þroskuðu bananarnir á eldhúsborðinu sem fengu að finna til tevatnsins á sunnudaginn og úr þeim varð þetta dásamlega bananabrauð sem sonurinn bæði naut þess að baka og borða. Það er samt eiginlega rangnefni að kalla þetta brauð þar sem þetta er nú meira í líkingu við sæta köku, þetta er allavega sætabrauð það er eitt sem er víst og ó já, gott er það. Uppskriftin er stór og passaði rétt svo í stærsta brauðformið mitt, það væri því ekki úr vegi að skipta deiginu í tvö minni form.

min_IMG_5390Mjúkt bananabrauð með súkkulaðibitum:

  • 3 egg
  • 2 1/2 dl púðursykur
  • 1 tsk vanilluextract
  • 1 1/2 dl bragðlítil olía
  • 3 stórir bananar stappaðir
  • 1/2 dl súrmjólk
  • 5 dl fínmalað spelt eða hveiti
  • 1 tsk matarsódi
  • 1/2 tsk salt
  • 3 dl saxað dökkt súkkulaði eða súkkulaðidropar

Aðferð: Þeytið saman egg, púðursykur og vanillu þar til ljóst og létt. Bætið olíunni út í í mjórri bunu og setjið stappaða bananana út í ásamt súrmjólkinni. Blandið þessu vel saman. Bætið þurrefnunum varlega út í ásamt súkkulaðinu og hrærið þessu saman með sleikju. Setjið í smurt form og bakið í u.þ.b 50 mínútur við 160 gráður með blæstri eða þar til að prjóni sem stungið er í miðja kökuna kemur tiltölulega þurr upp. Ef brauðið er bakað í tveimur minni formum er bökunartíminn u.þ.b 35 mínútur. Það er þó nauðsynlegt að fylgjast vel með því ofnar eru ansi misjafnir. min_IMG_5384

 

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Bananabrauð, bananabrauð með súkkulaði, bananakaka, besta bananabrauðið, Bröns hugmyndir, brunch uppskriftir, kaka, mjúkt bananabrauð

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram did not return a 200.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme