Nú þegar páskavika gengur í garð þykir mér afar viðeigandi að gefa hér uppskrift að þessum dásamlega og auðvelda eftirrétti sem er meira að segja bara pínu páskalegur ef maður fer út í það. Það má með sanni segja að undirrituð hafi ekki verið að finna upp hjólið í eldhúsinu þegar þessi ljúffenga terta var gerð. Að sama skapi er nokkuð ljóst að uppskriftir að tertunni má finna á mjög mörgum matarbloggum sem og hingað og þangað um veraldarvefinn. Ég ætla þó óhikað og kinnroðalaust að birta bæði myndir og uppskrift að minni útgáfu af þessari dásamlegu tertu því aldrei er góð vísa of oft kveðin. Tertan er ótrúlega vinsæl sem er alls ekki skrýtið því hún er bæði fljótleg og óskaplega góð. Ég nota svipaða uppskrift og ég er vön að nota í rice krispies kökurnar mínar en notaði kornflex í botninn í þetta skiptið. Mér þótti það koma enn betur út. Ofan á notaði ég svo ljúffenga karamellusósu með örlitlu góðu sjávarsalti. Það var auðvitað bara himneskt. Ég hvet ykkur til að vera óhrædd við að prófa að nota gott sjávarsalt með svona sætindum, það einfaldlega gerir bara gott betra. Ég nota alltaf saltið frá Saltverk. Bæði þykir mér það mjög bragðgott og svo er áferðin á því afar góð. Ein sneið af þessari dásemd slær líka út hvaða páskaeggi sem er..!Klístruð kornflex terta með bananarjóma og saltri karamellusósu:
- Í botninn:
- 75 gr smjör
- 150 gr suðusúkkulaði
- 50 gr rjómasúkkulaði
- 5 msk sýróp
- 1/4 tsk gróft sjávarsalt
- 4 1/2 bolli Kornflex eða Rice Krispies
- Ofan á:
- 2-3 bananar
- 4 dl rjómi
- 1 msk kakó
- ca. 1 dl góð karamellusósa (t.d þessi hérna eða keypt úr búð)
- 1/2 tsk gróft sjávarsalt
Aðferð: Setjið allt sem á að fara í botninn í pott nema Rice krispies/Kornflex. Bræðið saman við vægan hita. Takið af hitanum, bætið korninu saman við og hrærið vel saman með sleif eða sleikju þannig að súkkulaðiblandan þekji allt kornið vel. Hellið blöndunni í fat eða kökuförm, þrýstið vel í botninn og kælið í ísskáp í 30 mínútur eða lengur. (Botninn geymist vel í nokkra daga undir plastfilmu í ísskáp og hann má einnig frysta). Sneiðið bananana niður og dreifið yfir botninn. Þeytið rjómann og dreifið svo úr honum yfir tertuna. Dustið kakóinu yfir í gegnum sigti og hellið karamellusósunni svo yfir. Myljið sjávarsaltið milli fingranna og dreifið yfir. Tertuna má bera fram strax eða geyma í ísskáp og bera fram síðar. Mér finnst gott að leyfa tertunni að standa í stofuhita í 20 mínútur áður en hún er skorin, þá mýkist botninn aðeins svo auðveldara verður að skera hann.
Ingibjörg Ágústsdóttir
Sæl. Hvað er þessi uppskrift fyrir sirka marga?
helenagunnarsd
Sæl – myndi segja að þetta væri góður eftirréttur fyrir 6-8 manns 🙂