Nú koma frídagarnir á færibandi sem er nú ekki til að skemma fyrir stemmningunni sem fylgir björtum vorkvöldum og örlítið hækkandi hitastigi. Í gærkvöldi söng lóan fyrir utan gluggann hjá mér þegar ég dró niður gardínurnar og hún var mætt aftur í morgun þessi elska og söng eins og enginn væri morgundagurinn. Mikið kann ég vel að meta vorið, ég held að það sé uppáhalds árstíminn minn. Mér finnst allir vera í góðu skapi. Talandi um gott skap. Ég hefði sennilega ekki getað glatt son minn meira en þegar ég sagði honum í gærkvöldi að á morgun mætti hann fara á strigaskóm í leikskólann. Þvílík gleði og tilhlökkun! Sá litli valhoppaði svo í morgun inn á leiksólann á glansandi nýjum strigaskóm sem hafa beðið í forstofunni síðan fyrr í vetur. Um páskana gerði ég þessar yndislegu pönnukökur sem ég hef gert svo oft áður en einhverra hluta vegna aldrei sett hingað inn. Pönnukökurnar eru afar léttar og góðar, lausar við fitu og bras og þeyttar eggjahvíturnar gefa þeim þessa ótrúlega góðu áferð, svona eins og maður sé að borða ský.
Fisléttar morgunverðar pönnukökur (fyrir 3-4)
- 130 gr fínmalað spelt
- 2 tsk vínsteinslyftiduft
- 1/4 tsk salt
- 4 egg
- 1 1/2 dl mjólk
- 1/2 tsk vanilluextract
- (Ef þið viljið sætari pönnukökur er sjálfsagt að þeyta t.d 2 msk af sykri, hunangi eða öðru sætuefni saman við mjólkina og eggjarauðurnar, mér finnst það þó ekki þurfa þar sem bláberjasýrópið er svo sætt og gott)
Aðferð: Hrærið saman hveiti, lyftidufti og salti. Aðskiljið eggjarauðurnar frá hvítunum. Hrærið eggjarauðunum, vanillu og mjólkinni saman við þurrefnin. Stífþeytið eggjahvíturnar og blandið þeim rólega saman við deigið. Steikið á pönnu, báðum megin þar til eldaðar í gegn. Ég setti nokkur frosin bláber á helminginn af pönnukökunum áður en ég sneri þeim við á pönnunni. Það væri líka hægt að setja niðurskorna banana til dæmis. Ég nota þunga pottjárnspönnu við steikinguna og nota enga fitu, finnst það ekki þurfa og þær festast ekkert við pönnuna.
Volgt bláberjasýróp:
- 1 1/2 dl hlynsýróp
- 4-5 msk frosin bláber
Aðferð: Sett í pott og hitað saman við vægan hita þar til bláberin hafa þiðnað og sýrópið heitt en ekki farið að sjóða. Berið fram með pönnukökunum, niðursneiddum bönunum, jarðarberjum, bláberjum og pínu íslensku smjöri.
Skildu eftir svar