Uppskriftum hingað inn fer sannarlega fækkandi með lækkandi sól. Ég á afar erfitt með að sætta mig við matarmyndir teknar í myrkri. Þrátt fyrir lækkandi sól hefur veðrið þó leikið við okkur hér á Suðvesturhorninu og verið svo milt að ég bý enn að því að geta trítlað út á pall og klippt ferska steinselju og rósmarín. Mér þykja það vera hin mestu lífsgæði. Ég er svolítið eins og Muggi mörgæs sem bjó á Suðurpólnum með mörgæsafjölskyldunni sinni en varr alltaf kalt og dreymdi um að komast til heitari landa. Mig semsagt dreymir um það.. svona af og til allavega. Í kvöld gat ég einmitt rölt út á pall á sokkunum í myrkrinu og klippti steinselju til að strá yfir þennan ljómandi góða kjúklingarétt. Rétturinn er ótrúlega fljótlegur og góður, bragðmikill og léttur, þrátt fyrir myndatöku í myrkri. Einhvernsstaðar las ég að miðjarðarhafsmataræði væri það allra hollasta, að mínu mati er það líka eitt af því allra besta. Það er aldrei leiðinlegt að borða hollan mat þegar hann bragðast svona vel. Hlutföllin í réttinum eru alls ekki heilög og mælieiningarnar því ekki hátíðlegar.
Miðjarðarhafskjúklingur með döðlum og fetaosti (fyrir 3):
- 3 kjúklingabringur
- 1 askja kirsuberjatómatar
- 1 krukka svartar ólífur
- 2 dl döðlur, skornar í litla bita
- 1 lítil krukka (150 gr) fetaostur, olíunni hellt af.
- 2 dl vatn og 1/2 kjúklingateningur
- Smávegis af saxaðri ferskri steinselju
- Ólífuolía – Sjávarsalt og svartur pipar
Aðferð: Hitið ofn í 200 gráður. Byrjið á að hita pönnu með smávegis af ólífuolíu. Kryddið bringurnar vel með salti og pipar og steikið vel á báðum hliðum. Takið af pönnunni og geymið á diski. Hellið vatninu á pönnuna ásamt kraftinum og leyfið að sjóða í 1-2 mínútur. Hellið tómötunum, ólífunum og döðlunum út í og hitið örstutt. Leggið bringurnar aftur á pönnuna. Hellið fetaostinum yfir. Setjið inni í ofn í 10 mínútur eða þar til bringurnar eru eldaðar í gegn. Berið fram eitt og sér eða með góðu baguette eða súrdeigsbrauði til að dýfa í dásamlega gott soðið á botninum á pönnunni.
Ef þið eigið ekki pönnu sem má fara inn í ofn er ekkert mál að nota eldfast mót.
Skildu eftir svar