Eitt af uppáhalds matarbloggunum heitir Smitten Kitchen, ég leita oft þangað eftir uppskriftum og innblæstri og oftar en ekki endar heimsókn mín þangað inn, þannig að ég verð að prófa uppskriftina, eða eitthvað svipað allavega. Síðasta svoleiðis uppskrift var ”The I want chocolate cake´ cake” – Eða ”Mig langar svo í súkkulaðiköku kakan”. Ég get að vissu leyti samsamað mig við titilinn því ég viðurkenni kinnroðalaust að langa stundum alveg hræðilega mikið í súkkulaðiköku. Sem lang sjaldnast, sem betur fer, endar nú með súkkulaðiköku bakstri. En það semsagt gerðist samt á dögunum. Við mæðgin vorum heima í heila viku þar sem sá stutti lá í flensu og vildi lítið sem ekkert borða. Það var þá sem ”Mig langar svo í súkkulaðiköku kakan” rifjaðist upp fyrir mér og ég varð að prófa mína eigin útgáfu.
Ég hristi því rykið af gamalli uppskrift sem ég nota oft í súkkulaðimuffins og gerði smá breytingar. Svo gerði ég súkkulaði glassúr sem má (og á) svo sannarlega að fara á kökuna á meðan hún er ennþá heit! Því það er deginum ljósara að þegar súkkulaðikökulöngunin kemur yfir fólk er ekki nokkur ástæða til að bíða með kremásetningu á meðan kökubotnar kólna. Það er bara vitleysa. Svo verður kakan líka svo miklu meira djúsí ef kremið fær að fara á hana heita. Þetta er semsagt kakan sem er hægt að byrja að baka og um það bil hálftíma seinna sitja sáttur með glóðvolga sneið.
- 2 bollar hveiti
- 1 bolli sykur
- 1 ½ tsk lyftiduft
- ½ tsk matarsódi
- ¼ tsk salt
- 5 msk hreint kakóduft
- 1 ½ bolli súrmjólk
- ¾ bolli matarolía
- 2 egg
- 2 msk uppáhellt kaffi
- 2 tsk vanilluextract
Aðferð: Ofn hitaður í 180 gráður með blætri. Öllu blandað saman. Fyrrst þurrefnum svo vökva. Skipt jafnt í tvö hringlaga form og bakað í 16-18 mínútur. Eða þar til tannstöngli sem stungið er í miðja kökuna kemur hreinn upp. Lagið kremið á meðan botnarnir bakast því það er sett á kökuna á meðan hún er heit.
Alvöru súkkulaðiglassúr:
- 200 gr suðusúkkulaði
- 50 gr smjör
- 2 msk sýróp
- 1 tsk vanilluextract
- 1 tsk uppáhellt kaffi
- 2 ½ dl flórsykur
- 2-3 msk heitt vatn
- Kókosmjöl til skreytinga
Aðferð: Bræðið saman í litlum potti: súkkulaði, smjör, sýróp, vanillu og kaffi. Bætið flórsykrinum út í og hrærið kröftuglega með píski. Bætið vatninu saman við þar til kremið er þykkt en auðvelt að dreifa úr því. Losið botnana úr formunum og leggið annan botninn á tertudisk. Setjið tæplega helminginn af kreminu á annan botninn, leggið hinn ofan á og setjið restina af kreminu á kökuna á meðan hún er ennþá volg. Stráið vel af kókosmjöli yfir ef þið viljið og gæðið ykkur á volgri kökunni með stóru ísköldu mjólkurglasi!
Skildu eftir svar