Ég meina það af öllu hjarta þegar ég segi að þessar bollakökur hafa varla vikið úr huga mér síðan ég bakaði þær, bauð upp á þær í matarboði stuttu fyrir jól og gæddi mér svo daginn eftir á þeirri einu sem varð í afgang.. Næstum með tárin í augunum. Uppskriftina fann ég á síðunni Sugar and Soul og vissi um leið og ég leit hana augum að þetta þyrfti ég að prófa. Ég notaði ”white cake mix” í kökurnar sem ég fékk í versluninni Allt í köku. Ég ákvað að notað það því ég vildi hafa kökurnar alveg skjannahvítar. Ef þið viljið baka ykkar eigin bollakökur frá grunni er það lítið mál, hér er til dæmis ljómandi fín uppskrift. Það er vel við hæfi að ljúka Eldhúsperlu árinu 2015 á þessari hátíðlegu uppskrift.
Í leiðinni langar mig að þakka ykkur öllum fyrir innlitið, kveðjurnar, like-in og commentin á árinu sem er að líða. Án ykkar væri þetta allt saman nú hálf fátæklegt.. Megi næsta ár verða ykkur öllum gæfuríkt og gómsætt! – ..Ég mæli svo með að þið bakið kökurnar fyrir gamlárskvöld og berið fram með ísköldu freyðivíni rétt eftir miðnætti.. Svona ef þið viljið slá í gegn..
Vanillubollakökur með hindberjafyllingu og kampavínskremi (Örlítið breytt uppskrift frá Sugar and Soul) – Um 20 kökur
Bollakökur:
- 1 pakki White cake mix frá Allt í köku eða Vanillubollakökur frá grunni
Aðferð: Bakið bollakökurnar skv. leiðbeiningum og kælið. Þegar kökurnar hafa kólnað alveg gerið þið holur ofan í hverja köku, takið um það bil teskeið eða rúmlega það úr miðjum kökunum, þarna fer svo fyllingin góða.
Hindberjafylling:
- 4 bollar frosin hindber
- 3/4 bolli sykur
- 4 msk maíssterkja (Maízena)
- 4 msk vatn
- 1 vanillustöng eða 1 tsk vanillusykur (má sleppa)
Aðferð: Setjið hindber, sykur og vanillu í pott. Kveikið undir, látið hindberin þiðna og byrja að sjóða. Tekur 10-15 mínútur. Hrærið maíssterkju og vatni saman í lítilli skál og hellið út í hindberjablönduna. Hrærið í og látið sjóða í 1-2 mínútur þar til blandan þykknar. Látið kólna alveg. Setjið rúmlega eina teskeið af fyllingunni í hverja bollaköku. Geymið í lokuðu íláti í ísskáp ef þið ætlið ekki að nota fyllinguna strax, hana má gera með nokkurra daga fyrirvara.
Kampavínskrem:
- 250 gr mjúkt smjör (ekki ósaltað)
- 500 gr flórsykur
- 1/2 – 1 dl gott freyðivín að eigin vali – Ég notaði Prosecco, líka gott að nota Cava eða bara alvöru Champagne.. ykkar er valið!
Aðferð: Þeytið saman smjör og flórsykur þar til ljóst og létt. Bætið vínínu út í smám saman þar til kremið er létt og mjúkt, eins og þið viljið hafa það. Setjið kremið í sprautupoka og sprautið fallega ofan á kökurnar.
Skildu eftir svar