Það er ef til vill ekki alveg í takt við fullkominn grænan lífsstíl sem fylgir gjarnan byrjun árs að setja inn uppskrift að sykraðri bombu eins og þessari. Við skulum samt horfast í augu við það að það mun koma að því einhverntímann að því að kökur verða aftur bakaðar, fólk mun eiga afmæli og allskonar og svei mér þá ef það koma ekki bara aftur jól þarna einhverntímann. Allt snýst þetta um jafnvægi og eins gott og það getur verið fyrir sálina að fá sér eina sneið af svona tertu við hátíðlegt tilefni getur græni sjeikinn og chiagrauturinn daginn eftir verið jafn góður, bara öðruvísi góður.. Ég trúi því að það sé heillavænlegast að lifa lífinu eins öfgalausu og hægt er og fara aldrei of langt í eina átt. Leyfa sér stundum smá og huga líka að heilsunni. Elda sem allra mest heima frá grunni, það er oftast hollara og ódýrara og umfram allt taka sig ekki of alvarlega, svona terta er einmitt liður í því markmiði 🙂
Rice krispies marengsbomba með bingókúlusósu
- 5 eggjahvítur
- 200 gr ljós púðursykur
- 5 dl rice krispies
Aðferð: Þeytið eggjahvitur og púðursykur vel saman. Bætið rice krispies út og hrærið varlega saman við með sleikju. Skiptið deiginu á tvær pappírsklæddar bökunarplötur í hringi sem eru ca. 24 cm í þvermál. (ég mæli þetta aldrei eða teikna hring, heimalagað bakkelsi er bara fallegra svolítið ójafnt að mínu mati) – Bakið við 150 gráður í 1 klst.
Fylling og ofan á:
- 7 dl rjómi
- 3 kókosbollur
- 1 bolli smátt skorin jarðarber (+ nokkur heil til skreytinga)
- 1/2 bolli hrískúlur (t.d. Nóa kropp eða annað góðgæti)
- Bingókúlusósa:
- 1 poki/150 gr bingókúlur (eða aðrar súkkulaði/lakkrískaramellur)
- 1 dl rjómi
- 50 gr suðusúkkulaði
- Skraut:
- Jarðarber
- Hrískúlur
- Nokkrir bitar af púðursykursmarengsbotni sem var keyptur í búð.
Aðferð:
Byrjið á sósunni. Bræðið allt saman í potti við vægan hita. Setjið til hliðar og leyfið að kólna. Þeytið rjómann. Hrærið kókosbollunum saman við. Setjið annan botninn á tertudisk og dreifið skornu jarðarberjunum yfir. Setjið svo rúmlega helminginn af rjómanum ofan á jarðaberin og hrískúlur þar ofan á. Leggið hinn botninn yfir. Dreifið restinni af rjómanum yfir. Skreytið með jarðarberjum, hrískúlum og marengsbrotum. Hellið vel af bingókúlusósunni yfir allt saman. Kælið í um 4 klst áður en borið fram.