Það er svo notalegt að detta í rútínu aftur að fríi loknu og partur af því hjá mér er sannarlega að borða reglulega morgunmat og þá svona um það bil á sama tíma, sem er annað en við gerum í fríinu. Sumarfríið hefur einkennst að miklu leyti af óreglulegum matartímum og morgunmat sem er oft ekki á dagskrá fyrr en undir hádegi eða seinna. Ísskáps grautar þykja okkur voða góðir og það er sérlega notaleg tilhugsun þegar maður er í loftköstum að græja sig á morgnana að þá liggi tilbúinn morgunmatur í ísskápnum. Þessi grautur er algjört sælgæti ef þið eruð hrifin af súkkulaðibragði og minnir jafnvel dálítið á súkkulaðikökudeig, enda er bara algjör óþarfi að sjokkera líkamann of hratt eftir sældarlíf frísins og fara beint í grænu djúsana..!
Lúxus ísskáps grautur með súkkulaðibragði (fyrir einn mjög svangan, annars tvo)
- 2 dl haframjöl
- 2 msk chiafræ
- 1 1/2 msk hreint kakó
- 1/4 tsk sjávarsalt
- 3 dl möndlumjólk (magnið fer líka eftir smekk, hversu þykkan graut þið viljið)
- 6-8 dropar vanillustevía – líka hægt að nota aðra sætu t.d. smá hlynsíróp eða hunang eftir smekk, gott að smakka sig áfram.
Aðferð: Hrærið saman í skál öllum þurrefnum. Bætið þá möndlumjólk og sætuefni saman við. Látið standa í ísskáp yfir nótt. Athugið að grauturinn þykknar við að standa. Skreytið með berjum og t.d. hampfræjum.
Skildu eftir svar