Hér er á ferðinni alveg brjálæðislega góður og djúsí skyndi helgarmatur sem varð til alveg óvart í eldhúsinu hjá mér um daginn. Þetta er svona – það var ekkert til en ég nenni ekki að fara og kaupa neitt en allir eru mjög svangir – máltíð. Þá gerast nú oft undrin. Svo er þetta nú svo auðvelt að það er varla hægt að tala um uppskrift, þannig lagað. Eflaust er líka hægt að baka naanbrauðin sjálfur frá grunni, ég gerði það ekki en það er örugglega ekkert verra. Það góða er að það bara þarf ekki. Ég mæli hiklaust með réttinum og get ekki beðið eftir að elda þetta aftur.
Naanbaka með mangókjúkling og spínati (fyrir 3-4)
- Tvo stór naanbrauð (ég notaði Stonefire hvítlauks naan, fást t.d. í Hagkaup)
- 2 msk smjör
- 700 gr úrbeinuð kjúklingalæri, krydduð með kjúklingakryddi og karrýi eftir smekk (ég mæli með Deluxe karrýi frá Pottagöldrum)
- 2 msk ólífuolía,
- 1 dl mangóchutney
- 1 dl kjúklingasoð (vatn og kraftur, ég nota alltaf fljótandi Oscar kraft)
- 1 tsk Sambal oelek chillimauk (má sleppa ef þið viljið alls ekki sterkt)
- 2 góðar handfyllir ferskt spínat
- 200 gr rifinn ostur (1 poki, má líka nota meira)
- Ofaná: 1 rauðlaukur skorinn í þunnar sneiðar, fersk steinselja eða kóríander og jógúrtsósa, ég notaði tilbúna jógúrt sósu frá Gott í kroppinn með hunangi og dijon.
Aðferð:
Hitið ofn í 180 gráður. Leggið naanbrauðið á ofnplötu. Skerið kjúklinginn í litla munnbita. Hitið pönnu með ólífuolíu, kryddið kjúklinginn vel með góðu kjúklingakryddi og karrý og steikið. Þegar kjúklingurinn hefur brúnast vel bætið þá mangóchutney og kjúklingasoði á pönnuna og látið malla þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn og sósan hefur þykknað aðeins, ca. 10 mínútur (það á ekki að vera mikil sósa). Smakkið til með salti og pipar og chillimaukinu.
Smyrjið naanbrauðin með smá smjöri og skiptið spínatinu jafnt á bæði brauðin. Hellið því næst kjúklingnum ofan á spínatið og toppið með vel af rifnum osti. Bakið í um 15 mínútur. Þegar komið úr ofninum leggið þá þunnar rauðlaukssneiðarnar yfir og skreytið með smá saxaðri steinselju eða ferskum kóríander og jógúrtsósu.
Díana Kristjánsdóttir
Geggjað gott👌
5. ágú. 2016 10:10 skrifaði Eldhúsperlur :
> helenagunnarsd posted: “Hér er á ferðinni alveg brjálæðislega góður og > djúsí skyndi helgarmatur sem varð til alveg óvart í eldhúsinu hjá mér um > daginn. Þetta er svona – það var ekkert til en ég nenni ekki að fara og > kaupa neitt en allir eru mjög svangir – máltíð. Þá gerast nú of” >