• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

helenagunnarsd

Kjúklingaréttur Bangsímons

janúar 10, 2013 by helenagunnarsd 2 Comments

IMG_1614Þegar maður er fjögurra ára og vill kannski ekki alltaf borða hvað sem er hljómar allt betur ef það heitir eftir teiknimyndafígúrum. Við höfum eldað Spiderman fisk, Ironman súpu, Batman pönnukökur og súperman eitthvað sem ég man ekki hvað var í augnablikinu. Bangsímon kjúklingurinn á sér þó lengsta sögu og dregur nafn sitt af því að í sósunni er uppáhaldið hans Bangsímons, jú einmitt hunang. Þessi réttur er mjög fljótlegur og alveg sérstaklega bragðgóður, sósuna væri sennilega hægt að drekka með röri svo ljúffeng er hún. Ég geri reyndar stundum spari útgáfu af þessum rétti og skelli smá hvítvíni út í sósuna sem ég læt sjóða í spað svo allt áfengi gufar upp, því ekki viljum við að Bangsímon og félagar finni á sér. En það má vel sleppa hvítvíninu og nota bara vatn eða t.d eplasafa í staðinn. Hef prófað eplasafann og það kom bara skrambi vel út.

IMG_1620Kjúklingur í hunangs- sinnepssósu (Bangsímon kjúklingur) – Fyrir 3-4

  • 3 kjúklingabringur, skornar í tvennt og þynntar með kjöthamri eða botni á pönnu.
  • 2 skallottulaukar, smátt saxaðir
  • 1 glas hvítvín (2,5 dl) eða vatn, eða eplasafi
  • 1/2 kjúklingateningur
  • 1 msk grófkorna sinnep
  • 1 tsk hunang
  • 1 peli rjómi
  • Salt, pipar og steinselja til skrauts.

Aðferð:

Kjúklingabringur kryddaðar með salti og pipar og brúnaðar á báðum hliðum á vel heitri pönnu. Teknar af pönnunni og settar til hliðar. (Var að fjárfesta í svona ægilega fínni pottjárnspönnu og hef aldrei náð að brúna kjöt jafn vel eins og á henni. Pantaði hana frá USA og kostaði hún lítinn 5000kall, með tollum og sendingarkostnaði. Fann sambærilegar pönnur hér heima en þær kostuðu allar frá 23.000. Mæli eindregið með að nota svona góða pönnu, hitnar mjög jafnt og vel..)
IMG_1600Smá smjörklípa eða olía sett á pönnuna og skallottulaukurinn steiktur í um 1 mínútu.
IMG_1602Þá er hvítvíninu hellt á pönnuna og látið sjóða niður um helming. Tekur 2-3 mínútur.
IMG_1604IMG_1606Hunanginu, sinnepinu og rjómanum hellt saman við og kjúklingabringurnar settar aftur á pönnuna, látið malla í 10 mínútur þar til  kjúklingurinn er tibúinn.
IMG_1607Stráið steinseljunni yfir. Ég bar þetta fram með kartöflumús og hvítvínsglasi. Ekta þægindamatur 🙂IMG_1615IMG_1629

Filed Under: Eldhúsperlur, Uncategorized Tagged With: Fljótlegur kjúklingaréttur, Góður kjúklingaréttur, Kjúklingaréttur, Kjúklingaréttur uppskrift, Kjúklingur með hunangs sinnepssósu, Kjúklingur uppskrift

Tælensk kjúklingasúpa með kókos, lime og engifer

janúar 9, 2013 by helenagunnarsd 18 Comments

IMG_1248Mér finnast sterkar, léttar og bragðmiklar súpur í austurlenskum stíl alveg ofboðslega góðar. Í minningunni eru einhverjar bestu súpur sem ég hef smakkað frá kínverskum eða tælenskum veitingastöðum í útlöndum með foreldrum mínum.. Þegar ég var örugglega einkennilega ung miðað við hrifningu mína á þessháttar súpum sem voru bornar fram með skrýtinni skeið í lítilli djúpri skál. Allavega þá þykja mér svona súpur mjög góðar og hef oft reynt með ágætis árangri að reyna að endurskapa þessa stemmningu hérna heima við. Í roki í rigningu eins og þegar þetta er skrifað langaði mig akkúrat ekki í neitt annað í kvöldmatinn en þessa bragðmiklu léttu súpu og mig langaði í kókos, lime og engifer bragð af henni. Hún er virkilega góð og fljótleg og svei mér þá ef hún náði ekki bara að rifja upp minningar frá einhverjum frábærum tælenskum veitingastað í fyrndinni.

Svona súpur eiga það reyndar til að vera með mjög langann innihaldslista en þessi er þrátt fyrir það, mjög fljótleg og hráefnið fæst allt í venjulegri matvörubúð 🙂

Uppskrift:

  • 1 Rauðlaukur, skorinn í þunnar sneiðar
  • 3 hvítlauksrif, söxuð smátt
  • 3-4 vorlaukar, skornir í sneiðar
  • 3 cm bútur engifer, smátt skorinn (þumalstærð af engifer)
  • 1 tsk chillimauk, (t.d Sambal Oelek sem fæst í Bónus)
  • 1 msk kókosolía eða venjuleg matarolía (kókosolían gefur mjög gott bragð)
  • 1,5 l vatn
  • 2 kjúklingateningar
  • 1 tsk turmerik
  • 1 msk sojasósa
  • 1 tsk fiskisósa (má sleppa)
  • 1 – 2 lime (fer eftir stærð)
  • 2 tsk hunang
  • 2 fernur kókosmjólk (eða 1 dós)
  • 1/2 búnt kóríander, saxað
  • 3 kjúklingabringurIMG_1239

Aðferð:

Kókosolían brædd við frekar háan hita í súpupottinum. Rauðlaukur, vorlaukur, hvítlaukur, engifer og chillimaukið steikt í pottinum í stutta stund.

IMG_1236 IMG_1241Svo er vatninu hellt yfir ásamt kjúklingateningum, turmerikinu, sojasósu, fiskisósunni, kókosmjólkinni, safanum úr lime-inu, ásamt skrælinu röspuðu af öðru þeirra og hunanginu. Meðan suðan kemur upp er kjúklingurinn skorinn í litla teninga og settur út í sjóðandi súpuna, ásamt kóríander.

IMG_1246Látið sjóða í um það bil 10 – 12 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Borin fram rjúkandi heit með smá söxuðu kóríander. IMG_1247

IMG_1250

Verði ykkur að góðu !

Filed Under: Eldhúsperlur, Uncategorized Tagged With: Engifer, Góð kjúklingasúpa, Kjúklingasúpa, Kjúklingasúpa með kókosmjólk, Kjúklingasúpa uppskrift, Kókosmjólk, Kóríander, Lime, Tælensk kjúklingasúpa

Kínóa Salat

janúar 4, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

Eftir endalausar kræsingar og stórsteikur finnst mér alltaf gott að útbúa eitthvað létt og gott í maga. Þetta salat kom upp í hugann í dag þegar ég var að reyna að ákveða hvað ætti að vera í matinn, langaði í eitthvað létt en bragðgott og smám saman týndist í hausinn á mér innihaldið í þetta fína salat. Samsetningin á þessu salati er í smá Miðjarðarhafsgír og smellur allt mjög vel saman, t.d sterkur chiili piparinn, fetaosturinn og döðlurnar sem er að mínu mati dásamlegt saman.

IMG_1198Það er sannarlega ekki auðvelt að ná góðum myndum af mat í þessu myrkri en við látum okkur hafa það.

Kínóa er í raun ekki korntegund heldur kemur það úr jurtaríkinu og hérna má lesa skemmtilegan fróðleik um það. Þess má geta að það er stútfullt af próteini og góðum fitusýrum og getur því vel komið í staðin fyrir kjöt eða fisk og stendur alveg fyrir sér sem máltið eitt og sér. Eins og ég gerði í þessum rétti 🙂  Það má í raun nota kínóa á ýmsan máta, t.d sem morgungraut eða í staðin fyrir kúskús eða hrísgrjón sem meðlæti. Kínóa er soðið í hlutföllunum 1 hluti kínóa á móti 2 hlutum af vatni og það er mikilvægt að skola það fyrir suðu. Það er frekar hlutlaust á bragðið og gengur nánast með hverju sem er, svipað og kúskús.

Kínóa salat – fyrir 3-4

  • 1 bolli ósoðið kínóa.
  • 1 lítill kúrbítur, skorinn í sneiðar
  • 3 vorlaukar, smátt skornir
  • 1 rauður chillipipar, fræhreinsaður og frekar smátt skorinn. (Ég hafði bitana frekar stóra svo auðvelt væri að taka þá frá fyrir þann 4 ára)
  • Handfylli söxuð steinselja
  • Aðeins minni handfylli söxuð mynta (má sleppa, ég átti hana bara til og hún kom mjög vel út)
  • 4 msk ristaðar furuhnetur
  • 1 krukka salat feti, vatnið sigtað frá.
  • 1 box piccolo tómatar, eða 1/2 askja kirsuberjatómatar. Skornir í tvennt.
  • Ca. 6 döðlur saxaðar smáttIMG_1179

Byrjið á að skola kínóað og sjóða það í 2 bollum af vatni. Suðan tekur um 15 mínútur. IMG_1183

Hinir yndislegu íslensku piccolo tómatar, bestu tómatar sem við höfum smakkað! ég fékk þá í Bónus.IMG_1185

Kúrbíturinn grillaður á grillpönnu og svo ristaði ég furuhneturnar á pönnunni þegar kúrbíturinn var tilbúinn.IMG_1191

Allt hitt skorið niður á meðan kínóað sýður og kúrbíturinn grillast, ég skar kúrbítinn svo aðeins smærra niður.IMG_1193

Þegar kínóað er soðið er það sett í skál og mesta hitanum leyft að rjúka úr því, það lítur um það bil svona út þegar það er tilbúið.

svo er bara öllu blandað saman og dressingunni hellt yfir að lokum.IMG_1197

Dressing:

Safi úr einni sítrónu kreist í glas, jafn mikið af ólífuolíu hellt samanvið, 1/2 tsk salt, 1/2 tsk pipar, 1 tsk hunang. Öllu blandað vel saman og hellt yfir salatið.IMG_1181

Salatið er alveg rosalega gott og bragðmikið og manni líður alveg einstaklega vel eftir að hafa borðað svona fallegan og góðan mat 🙂 Það geymist alveg ágætlega og væri t.d hægt að undirbúa daginn áður og bera fram í saumaklúbbi eða taka með sér í nesti. Ljúffengt !IMG_1202

Filed Under: Uncategorized Tagged With: Gott salat, Kínóa, Kínóa salat, Piccolo tómatar, Quinoa, Quinoa Salat, salat, Salat með kínóa

Fyllt kalkúnabringa

desember 29, 2012 by helenagunnarsd 4 Comments

Við fjölskyldan erum búin að vera endalausu dekri og góðum mat í hverri veislunni á fætur annarri núna yfir jólin og ég hef ekki eldað kvöldmat hérna heima fyrir okkur þrjú sennilega í tíu daga. Fyrir jólin keypti ég kalkúnabringu sem ég ætlaði alltaf að hafa einhvert kvöldið en vegna veislna og huggulegheita komst það ekki inn í prógramið. Þetta var frekar lítil bringa, rétt tæpt kíló svo þrátt fyrir að við værum bara þrjú í kvöld ákvað ég að nú yrði ég að elda hana eða frysta/henda henni. Bringan hefði þó vel dugað fyrir 4-6 þannig að við eigum ansi vænan afgang. Svo að, til að gera langa sögu stutta.. útkoman varð eiginlega mini-áramóta veisla hjá okkur þremur.

Ég var lengi að velta fyrir mér hvernig fyllingu væri best að setja í bringuna og eftir að hafa skoðað nokkrar uppskriftir endaði ég á þessari. Uppistaðan er aðallega grænmeti, smá beikon og svo brauðraspur/mylsna. Fyllingin heppnaðist svo vel að það var ekki mikið talað við matarborðið heldur meira svona ummað og smjattað og var sá 4 ára engin undantekning þar.  Það er alveg upplagt að elda svona kalkúnabringu í hátíðar eða áramótamatinn og sennilega mun einfaldara en að elda heilan kalkún. Mæli eindregið með að þið prófið þetta.

IMG_1118

 Fyllt kalkúnabringa – (fyrir 4-6):

  • Kalkúnabringa, um 1 kg.

Fylling:

  • 5 sneiðar beikon
  • 1 bakki sveppir
  • 3 meðalstórir skallottulaukar
  • 2 stönglar sellerí
  • 1 epli
  • 2 tsk Best á kalkúninn kryddblanda
  • 1 askja Philadelphia light rjómaostur
  • 3 msk gráðostur
  • 2 msk fljótandi kalkúnakraftur og 2 dl vatn.
  • 1,5 bolli brauðmylsna
  • 50 gr. smjör
  • 1 msk þurrkuð steinselja (eða fersk)
  • Safi úr einni sítrónu

Aðferð:

Ofn er hitaður í 160 gráður með blæstri. Panna hituð og smjörið brætt. Beikon, sveppir, laukur, epli og sellerí er allt skorið í frekar grófa teninga og steikt upp úr smjörinu ásamt 2 tsk af kalkúnakryddinu, smá salti og pipar.

IMG_1089Því næst er vatninu, kraftinum, gráðostinum og rjómaostinum bætt út á og brætt saman við. Brauðmylsnan er sett síðust. Allt hrært vel saman og svo sett í matvinnsluvél ásamt steinseljunni og sítrónusafanum og unnið létt saman, þó þannig að það séu smá bitar í fyllingunni.

IMG_1092Mér þykir þessi létti rjómaostur mjög góður og betri en sá hefðbundni það má þó alveg nota íslenskan rjómaost eða hefbundinn Philadelphia.

IMG_1091Því næst er vatninu, kraftinum, gráðostinum og rjómaostinum bætt út á og brætt saman við. Brauðmylsnan er sett síðust. Allt hrært vel saman og svo sett í matvinnsluvél ásamt steinseljunni og sítrónusafanum og unnið létt saman, þó þannig að það séu smá bitar í fyllingunni. Á myndinni hér fyrir ofan er brauðmylsnan sem ég notaði, þetta er bara venjuleg mylsna, nema að það eru einhver krydd líka í henni líka. Ég fékk þennan poka í Kosti.

Þegar fyllingin er tilbúin er kalkúnbringan þerruð og skorin þannig að hægt sé að fylla hana. Mér finnst best að leggja hana á fituhliðina og skera í hana eins og ég sé að opna bók..? Allavega þarf það að vera þannig að hægt sé að setja fyllinguna á hana og rúlla henni svo upp.IMG_1094

IMG_1095Ég stráði smá kalkúnakryddi á bringuna og setti svo um það bil 1/3 af fyllingunni á hana.

IMG_1097Gott að skilja eftir smá brún við endan svo að fyllingin haldist inni í rúllun

IMG_1100Svo er bringunni bara rúllað upp, ekki láta útlitið á fyllingunni blekkja ykkur krakkar, fyllingar hafa aldrei myndast vel. Ég lofa að hún bragðast jafn vel og hún myndast illa 😉

IMG_1101 IMG_1102Þegar bringunni hefur verið tjaslað saman batt ég hana saman með svona bómullarbandi.

IMG_1106Setti hana svo í eldfast mót, bar smá ólífuolíu á hana, salt og pipar og inn í ofn í þar til hún var komin í 72 gráður. Galdurinn er að elda hana alls ekki of lengi svo það er um að gera að taka hana út eftir um 50 mínútur og mæla hitann. Bringan var í 65 mínútur að eldast hjá mér. Ég hækkaði hitann í 180 gráður síðustu 10 mínúturnar til að fá góðan lit. Afganginn af fyllingunni setti ég í formið hjá kalkúnabringunni og eldaði með, tók bara enga mynd af því..

IMG_1115Leyfið kjötinu að hvíla sig í svona 10 mínútur við stofuhita áður en þið skerið það.

IMG_1118 IMG_1120 IMG_1123

Ég bar þetta fram með pönnusteiktun kartöflu- og sellerírótarteningum, einföldu kirsuberjatómatasalati, fyllingunni, sósu og fínasta rauðvínsglasi. Þetta var ljúffengt, kjötið mjög safaríkt en fyllingin samt aðalstjarnan !

Filed Under: Uncategorized Tagged With: Fyllt Kalkúnabringa, kalkúnabringa uppskrift

Eggjandi klassík í anda Juliu Child

desember 26, 2012 by helenagunnarsd Leave a Comment


Horfði í gærkvöldi á myndina Julie og Julia á RÚV, yndisleg mynd sem ég get horft á aftur og aftur. Mundi þá eftir þessari uppskrift/aðferð sem ég skrifaði niður fyrr í haust og ætlaði alltaf að setja hérna inn en ekkert varð úr því. Hérna kemur hún allavega núna.

IMG_0661

Verandi í námi bý ég svo vel að þurfa ekki alltaf að flýta mér út á morgnana. Stundum get ég verið heima við að vinna og hefur það einmitt verið svoleiðis undanfarin misseri þegar tvær ritgerðir voru í smíðum ásamt öðrum verkefnum og því nauðsynlegt að byrja daginn vel. Ég horfði einu sinni á myndband á Youtube þar sem Julia Child kennir snilldina sem býr að baki hinni fullkomnu eggjaköku og ég hef notast við þá aðferð síðan

Ég gríp oft í þessa klassísku eggjaköku á morgnana þegar tíminn er með mér og ég þarf ekki að hlaupa út í loftköstum. Hún er reyndar svo fljótleg að ég væri alveg til í að fara í keppni við einhvern sem fengi sér ristað brauð og er sannfærð um að ég myndi vinna! Eggin sjálf eru í 30 sekúndur að eldast og undirbúningurinn tekur kannski 2 mínútur. Í rauninni er þetta svo einfalt að það er varla hægt að kalla þetta uppskrift.. meira svona aðferð.

IMG_0659

Það þarf: 

  • 2 egg
  • 1 msk af vatni
  • Salt og pipar
  • 1 tómatur
  • Smávegis af rifnum mozzarella
  • 1 tsk smjör eða 1 tsk olía

Aðferð:

Eggin brotin í skál og hrærð saman með gaffli. Vatni bætt út í ásamt salti og pipar. Tómatur skorinn í smáa teninga.

Pannan hituð, ég set á hitastig 8 af 10 og leyfi pönnunni að hitna vel. Set þá smjörið eða olíuna á, leyfi að hitna í augnablik og helli eggjunum því næst á pönnuna. Ég leyfi eggjunum að bíða í ca. 10 sekúndur óhreyfðum á pönnunni og byrja þá að hrista pönnuna létt. Strái ostinum og tómötunum yfir og held áfram að hrista þar til eggjakakan brotnar saman (eins og í myndbandinu). Svo er að sjálfsögðu hægt að setja það sem maður vill inn í eggjakökuna eða hafa hana bara án fyllingar.

IMG_0658

IMG_0662Þetta ferli tekur í heildina innan við eina mínútu og útkoman er ein besta ommeletta sem þið hafið smakkað. Bon Appetit!

Filed Under: Uncategorized Tagged With: brunch uppskrift, Eggjakaka, ommeletta

Myntu smákökur með bismark og hvítu súkkulaði

desember 21, 2012 by helenagunnarsd Leave a Comment

IMG_0835

Eru annars ekki að koma jól?? 🙂 Ég verð nú eiginlega að skella hérna inn einni smákökuuppskrift sem ég rakst á um daginn og varð að prófa, enda mynta og súkkulaði heilög jólatvenna í mínum bókum. Útkoman varð alveg hreint ljómandi góð og ef þið ætlið að baka eina aukasort um helgina, eða bara eina sort í það heila mæli ég eindregið með þessari. Þær eru svakalega jólalegar og góðar.

Jólasmákökur með myntu og hvítu súkkulaði (Breytt uppskrift af marthastewart.com):

  • 225 gr smjör
  • 1,5 bolli sykur eða hrásykur
  • 1/2 tsk piparmyntu extract (fæst t.d í Kosti, líka hægt að sleppa og nota bara vanillu extract)
  • 1 stórt egg
  • 2 1/2 bolli hveiti eða fínt spelt
  • 2 tsk vínsteinslyftiduft, eða venjulegt lyftiduft.
  • 1 bolli litlir dökkir súkkulaðidropar

(Ég nota ameríska bollastærð sem er 2.4 dl)

Aðferð: 

Ofninn hitaður í 180 gráður með blæstri, 190 gráður án blásturs. Smjör, sykur og piparmyntu extract þeytt þar til létt og ljóst, egginu bætt út í og hrært vel. Hveitinu og lyftiduftinu bætt út, hrært létt saman og síðast er súkkulaðidropunum hrært saman við. Ég sett deigið svo á plastfilmu rúllaði því upp í lengju og geymdi í ísskáp í þrjá sólahringa. Það var nú bara af því ég hafði ekki tíma til að baka þær strax. Það er í góðu lagi baka úr því strax og það er tilbúið!

IMG_0799

IMG_0818

Svo skar ég deigrúlluna í sneiðar og rúllaði kúlur úr deiginu. Setti þær á plötu með góðu millibili og þrýsti aðeins ofan á hverja kúlu með fingrunum. Þetta bakaði ég í 9 mínútur.

IMG_0826

Eða þangað til að kökurnar litu svona út. Þá lét ég þær kólna alveg og útbjó það sem átti að fara ofan á þær.

Ofan á:

  • 200 gr. Hvítt súkkulaði, brætt yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni.
  • 1/2 poki Bismark brjóstsykur, mulinn.

IMG_0824

Ég notaði hvíta súkkulaðidropa sem ég fékk í Kosti og bræddi þá yfir vatnsbaði.

IMG_0823

Muldi Bismark brjóstsykurinn.

IMG_0840Svo setti ég um það bil 2 tsk af hvíta súkkulaðinu á hverja köku og stráði svo smá muldum brjóstykri yfir. Ég gerð þetta ekki við allar kökurnar, sumar hafði ég bara svona allsberar og þær voru líka mjög góðar þannig.

IMG_0838

Þetta er auðvitað bara algjört nammi ! Verði ykkur að góðu 🙂

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: jólasmákökur, piparmynta og súkkulaði, Smákökur, súkkulaðibitaköku uppskrift

Lúxus biti í skyndi..

desember 20, 2012 by helenagunnarsd 11 Comments

IMG_0677

Það er nú bara þannig að það þarf alltaf að vera eitthvað í matinn. Líka þó að jólin séu að koma 🙂 Þegar tíminn er naumur eins og eiginlega alltaf á virkum dögum langar mig svo oft í eitthvað gott í matinn en hef alls ekki tíma til að standa yfir pönnum og pottum svo tímunum skipti. Mér finnst því alltaf jafn ánægjulegt að elda rétti sem taka enga stund í undirbúningi og svo sér ofninn bara um restina og ég get gert eitthvað skemmtilegt eða gagnlegt á meðan.

Ég var eiginlega búin að gleyma hversu gott það getur verið að elda heilan kjúkling í ofni. Á sumrin grillum við hann reyndar oft heilan á standi (meira um það seinna). Við borðum oft kjúkling hérna á heimilinu og oft þegar ég er að ákveða hvað á að vera í matinn hugsa ég hvernig kjúkling geti ég eldað. Ég fékk hugmyndina að þessum rétti í amerískum matreiðsluþætti sem heitir Barefoot Contessa, það er allt gott sem þessi kona eldar svo ég ákvað að prófa og hef eldað þennann kjúkling oft og mörgum sinnum síðan og hann klikkar aldrei. Það er aðeins mismunandi hvaða grænmeti ég nota en mér finnst nauðsynlegt að hafa gulrætur og fennelið gefur alveg ofsaleg gott bragð. Mæli með því að þið prófið það. Svo hef ég alltaf kartöflur þar sem sá 4 ára er mikill kartöflu aðdáandi.

Ofnbakaður kjúklingur með kartöflum og grænmeti – Fyrir fjóra.

Það sem ég nota í þennan rétt er:

  • 1 heill kjúklingur (1.5kg)
  • 2-3 bökunarkartöflur eða nokkrar minni
  • 2-3 gulrætur
  • 1 frekar stór laukur
  • 1 fennel
  • 1 sítróna
  • 1 hvítlaukur
  • Salt, pipar, ólífuolía og rósmarín
  • 1/2 l kjúklingasoð (vatn og kraftur)

Aðferð:  Ofn hitaður í 200 gráður með blæstri (annars 210-220 gráður). Ég byrja alltaf á því að skola kjúklinginn og þerra hann vel með eldhúspappír. Því næst ber ég á hann vel af ólífuolíu, salta og pipra vel að innan sem utan. Svo sker ég sítrónuna og hvítlaukinn í tvennt, þversöm. Hef hýðið á hvítlauknum og sting þessu öllu saman inn í kjúklinginn.

IMG_0599

IMG_0600

Svo er bara að skera allt grænmetið frekar gróft niður og setja í botninn á eldföstu móti eða á bökunarplötu, krydda með salt og pipar og smá ólífuolíu. Leggja svo kjúklinginn ofan á grænmetið og strá smá rósmarín yfir allt saman. Það finnst mér alveg gera gæfumuninn. Svo helli ég kjúklingasoðinu í fatið.  Þetta er svo bakað í um það bil 50 mínútur, eða þar til kjarnhitinn er kominn í a.m.k 70 gráður.

IMG_0675Ég ber þetta bara svona fram eins og það kemur, er ekki með neitt aukalega með, enda bæði kartöflur og grænmeti og svo kemur alveg dásamleg soð sósa í botninn á fatinu af grænmetinu, sítrónunum og kjúklingnum. Þetta er alveg ofsalega gott 🙂

Filed Under: Uncategorized Tagged With: Heill kjúklingur, kjúklingur í ofni

Pasta alla Puttanesca

desember 5, 2012 by helenagunnarsd 3 Comments

IMG_0690Það hefur verið mjög mikið að gera hjér mér undanfarið (og er enn) og því ekki gefist mikill tími til að fara út í búð eða yfir höfuð spegúlera mikið í því hvað á að vera í matinn svona á virkum dögum. Þessi réttur varð til á föstudaginn í síðustu viku, á síðustu stundu þegar við vorum alveg á síðustu bensíndropunum, svöng og alveg sæmilega pirruð bara já. Viðurkennum það bara. Í örvæntingu opnaði ég eldhússkápana og athugaði hvað ég ætti til. Þar voru til tveir opnaðir pakkar af Linguine (sem er eins og spaghetti, bara flatt) sem ég keypti hjá Frú Laugu fyrir löngu. Samanlagt passaði innihaldið akkúrat í matinn fyrir okkur þrjú á heimilinu og í afgang fyrir einn. Semsagt nóg handa fjórum.. 😉 Í skápunum leyndust líka tómatar í dós, kapers og svartar ólífur og í ísskápnum var einhvernsstaðar smá parmesanbiti og laukur og hvítlaukur. Þetta var því farið að líta ágætlega út.

Þessi réttur tekur jafn langan tíma að eldast og tíminn sem pastað tekur að sjóða. Semsagt heilar tíu mínútur. Í upprunalegu Pasta alla Puttanesca (eða pasta gleðikonunnar) eru þó notaðar ansjósur en ég var nú ekki svo heppin (?) að eiga þær. Ég er kannski ekki orðin nógu þroskuð ennþá til að eiga fyrir tilviljun ansjósur á dangli í eldhússkápunum.

Pasta alla Puttanesca – fyrir 3

  • 2 msk góð ólífuolía
  • 1 laukur saxaðaður smátt
  • 2 hvítlauksrif smátt söxuð
  • 1/2 tsk þurrkaðar chilliflögur (eða 1/2 ferskur chilli saxaður)
  • 2 msk kapers, létt saxað
  • 1 dós/krukka svartar steinalausar ólífur (ég skar sumar í tvennt og hafði sumar heilar)
  • 1 dós saxaðir tómatar
  • 250 grömm linguine, taglietelli eða spaghetti.
  • Salt og pipar og smá pastasoð

IMG_0688IMG_0689Pastað er sett í stóran pott með sjóðandi vatni og soðið eftir leiðbeiningum. Á meðan er sósan búin til. Laukur, hvítlaukur og chilli steikt við meðalhita í olíunni. Þegar laukurinn er orðinn glær er öllu hinu skellt á pönnuna. Smakkað til með salt og pipar og leyft að malla meðan pastað sýður. Takið einn bolla af pastavatninu frá og sigtið svo pastað. Öllu blandað saman, smá pastavatni blandað samanvið þar til sósan verður eins og þið viljið hafa hana.

IMG_0693

Borið fram með ferskum rifnum parmesan og ég lofa að heimilisfólkið tekur gleði sína á ný. Hér voru allavega allir sáttir og líka þessi fjögurra ára 🙂

Filed Under: Uncategorized Tagged With: chilli, fljótlegt pasta, linguine, pasta alla puttanesca, pasta uppskrift

Enskar spariskonsur

nóvember 29, 2012 by helenagunnarsd 9 Comments

Aðventuskreytingin tilbúin og þar sem fyrsta aðventuhelgin er nú framundan væri alveg upplagt að bjóða nokkrum vel völdum gestum í morgunmat eða bröns og baka þessar ljúffengu skonsur (sem eru einmitt stjarna síðunnar hérna fyrir ofan). Ég hafði ekki mikla trú á svona skonsum áður en ég prófaði þessar. Mundi bara eftir þessum sem maður getur keypt í bakaríi og finnst þær alltaf frekar þurrar og óspennandi. En þessar skonsur eru í miklu uppáhaldi á mínu heimili,  einstaklega sparilegar, léttar í sér og bráðna í munni.

Það er upplagt að baka þær á ljúfum sunnudagsmorgni og bjóða nokkrum gestum í bröns, þær eru líka sérlega vel til þess fallnar að baka á hátíðisdögum og bera fram til dæmis á jóladagsmorgni með heitu súkkulaði. Mér finnst best að borða þær með smjöri og góðri sultu eða ekta ensku ,,Lemon Curd‘‘ sem ég fæ í Pipar og Salt á Klapparstígnum.

Það er mjög gott að nota þurrkuðu trönuberin, þau gera þær alveg einstaklega góðar og jólalegar. Þau eru nú farin að fást í flestum matvöruverslunum og ég hef keypt þau bæði í Bónus og Nettó.

Enskar spariskonsur með trönuberjum – Breytt uppskrift frá Ina Garten 

  • 5 dl fínmalað spelt eða hveiti
  • 1 msk  vínsteinslyftiduft (það má alveg nota venjulegt en mér finnst vínsteins betra)
  • 1 msk hrásykur
  • ½ tsk salt
  • 150 gr kalt smjör skorið í litla teninga (ég nota alltaf venjulegt smjör, ekki ósaltað og aldrei smjörlíki)
  • 2 egg, hrærð létt saman
  • 1,5 dl rjómi
  • 2 dl þurrkuð trönuber og 1 msk hveiti – blandað saman (hér má líka nota rúsínur eða sleppa bara)
  • 1 egg pískað

Ofn hitaður í 200 gráður eða 180 gráður með blæstri.

Öllum þurrefnum blandað sama í hrærivélaskál, smjörinu síðan blandað saman við og hrært með K-hræraranum (ekki þeytaranum) þar til smjörið er komið gróflega saman við hveitið, smjörbitarnir í deiginu eiga að vera á stærð við baunir eða krónupeninga. Alls ekki að hrærast alveg saman við hveitið eins og þið væruð að fara að gera hnoðað deig. Það eru einmitt smjörbitarnir sem gera skonsurnar léttar og góðar!

Þá er eggjunum og rjómanum bætt við ásamt trönuberjunum með hveitinu. Þessu er létt blandað saman, ekki hæra lengi heldur bara þar til maður hættir að sjá hveitið í deiginu. Þá er þessu sturtað á hveitistráð borð, athugið að deigið er frekar blautt. Þetta er létt hnoðað og deigið flatt út um það bil 2,5 cm þykkt. Ég nota ekki kökukefli, vel hægt að nota bara hendurnar og ýta deiginu til og frá. Svo sting ég út hringi sem eru um 6-7 cm í þvermál. Það má líka skera deigið í ferninga eða þríhyrninga með hníf. Skonsurnar eru svo penslaðar með eggi og bakaðar frekar neðarlega í ofni í um það bil 18 mínútur.

Athugið að ef ekki er notuð hrærivél má einfaldlega mylja smjörið samanvið þurrefnin með fingrunum og blanda eggjunum og rjómanum samanvið með sleif. Það er ekkert mál.

Prófið þær.. í alvöru, þær eru æði!

Filed Under: Uncategorized Tagged With: breskar skonsur, brunch uppskriftir, góðar skonsur, Skonsur

Magnaðir mánudagar

nóvember 26, 2012 by helenagunnarsd 3 Comments

Það eru fjögur ár síðan ég fór formlega að búa og sjá sjálf um eldamennsku vel flesta daga vikunnar. Síðan þá hef ég haldið hátíðlegri einni reglu í sambandi við mánudaga – Mánudags ýsubömmer er ekki í boði. Það er svo einfalt. Af hverju ekki að hafa eitthvað sérstaklega gómsætt í matinn á mánudögum? Ég er reyndar stundum með ýsu á mánudögum en þá geri ég oft eitthvað alveg spes eins og til dæmis að grilla hana í álbakka með ýmiskonar gúmmelaði. Sú útfærsla er frá mömmu komin og  gengur í fjölskyldunni undir nafninu ”Ríkisfiskur”. En það er efni í allt aðra færslu sem mun sannarlega verða birt hér fyrr en síðar, eða þegar undirrituð nennir að kynda upp í grillinu.

Síðasta mánudag ákvað ég því að hafa einhvern gómsætan fiskrétt sem var að vissu leyti innblásinn af títtnefndum ríkisfiski en þó með útúrsnúningi. Eftir heimsókn í fiskbúðina ákvað ég að fjárfesta í fallegum roðflettum rauðsprettuflökum, eða rauðsprettu steikum eins og Fiskiprinsinn kallaði þær. Þetta er fínn réttur að gera þegar grænmeti hefur hlaðist upp í grænmetisskúffunni og þarf að fara að nota. Hann er líka mjög einfaldur en myndi sennilega alveg sóma sér vel á veisluborði.

Ég notaði þetta í réttinn:

  • 600 grömm rauðsprettu (eða 5 stykki af roðflettum rauðsprettusteikum)
  • 1/2 Rækju smurost
  • Chili mauk úr krukku (Sambal oelek)
  • Hálfan spínatpoka
  • 1 rauða papriku
  • 1 lauku
  • 1 /2 krukka fetaostur
  • Sítrónusneiðar
  • Salt, pipar og sítrónupipar
  • Ólífuolía

Aðferð:

Ofn hitaður í 210 gráður

Rauðsprettuflökin snyrt ef þarf og söltuð og pipruð á báðum hliðum. Ég setti því næst 1 matskeið af smurostinum á hvert flak ásamt um það bil 1/2 teskeið af chili maukinu. Þessu er smurt á flakið og því svo rúllað upp þannig að mjórri endinn á flakinu sé inni í rúllunni. Þetta er gert við öll flökin.

Í botninn á eldföstu móti setti ég ögn af ólífuolíu og stráði sítrónupipar yfir. Þar ofan í fór svo hálfur poki af spínati, paprikan og laukurinn í sneiðum og svo raðaði ég rauðspretturúllunum ofan á og hellti úr hálfri krukku af fetaosti yfir. Sneiddi því næst hálfa sítrónu í sneiðar sem ég stakk hér og hvar í fatið og hellti um það bil 1 dl af vatni í fatið. Geri það til að fá aðeins meira soð með réttinum. Að lokum sáldraði ég sítrónupipar yfir allt saman. Þetta bakaði ég í 15 mínútur og bar fram með þessu nýbakað brauð.

Filed Under: Uncategorized Tagged With: Fiskur uppskrift, ofnbakaður fiskur, rauðspretta, rauðspretta uppskrift

  • « Go to Previous Page
  • Page 1
  • Interim pages omitted …
  • Page 20
  • Page 21
  • Page 22
  • Page 23
  • Go to Next Page »

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram did not return a 200.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme