• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

helenagunnarsd

Rice krispies marengsbomba með bingókúlusósu

janúar 3, 2016 by helenagunnarsd 3 Comments

10290616_1011468248911566_16157785815642216_nÞað er ef til vill ekki alveg í takt við fullkominn grænan lífsstíl sem fylgir gjarnan byrjun árs að setja inn uppskrift að sykraðri bombu eins og þessari. Við skulum samt horfast í augu við það að það mun koma að því einhverntímann að því að kökur verða aftur bakaðar, fólk mun eiga afmæli og allskonar og svei mér þá ef það koma ekki bara aftur jól þarna einhverntímann. Allt snýst þetta um jafnvægi og eins gott og það getur verið fyrir sálina að fá sér eina sneið af svona tertu við hátíðlegt tilefni getur græni sjeikinn og chiagrauturinn daginn eftir verið jafn góður, bara öðruvísi góður.. Ég trúi því að það sé heillavænlegast að lifa lífinu eins öfgalausu og hægt er og fara aldrei of langt í eina átt. Leyfa sér stundum smá og huga líka að heilsunni. Elda sem allra mest heima frá grunni, það er oftast hollara og ódýrara og umfram allt taka sig ekki of alvarlega, svona terta er einmitt liður í því markmiði 🙂

Rice krispies marengsbomba með bingókúlusósu

  • 5 eggjahvítur
  • 200 gr ljós púðursykur
  • 5 dl rice krispies

Aðferð: Þeytið eggjahvitur og púðursykur vel saman. Bætið rice krispies út og hrærið varlega saman við með sleikju. Skiptið deiginu á tvær pappírsklæddar bökunarplötur í hringi sem eru ca. 24 cm í þvermál. (ég mæli þetta aldrei eða teikna hring, heimalagað bakkelsi er bara fallegra svolítið ójafnt að mínu mati) – Bakið við 150 gráður í 1 klst.

Fylling og ofan á:

  • 7 dl rjómi
  • 3 kókosbollur
  • 1 bolli smátt skorin jarðarber (+ nokkur heil til skreytinga)
  • 1/2 bolli hrískúlur (t.d. Nóa kropp eða annað góðgæti)
  • Bingókúlusósa:
  • 1 poki/150 gr bingókúlur (eða aðrar súkkulaði/lakkrískaramellur)
  • 1 dl rjómi
  • 50 gr suðusúkkulaði
  • Skraut:
  • Jarðarber
  • Hrískúlur
  • Nokkrir bitar af púðursykursmarengsbotni sem var keyptur í búð.

Aðferð:

Byrjið á sósunni. Bræðið allt saman í potti við vægan hita. Setjið til hliðar og leyfið að kólna. Þeytið rjómann. Hrærið kókosbollunum saman við. Setjið annan botninn á tertudisk og dreifið skornu jarðarberjunum yfir. Setjið svo rúmlega helminginn af rjómanum ofan á jarðaberin og hrískúlur þar ofan á. Leggið hinn botninn yfir. Dreifið restinni af rjómanum yfir. Skreytið með jarðarberjum, hrískúlum og marengsbrotum. Hellið vel af bingókúlusósunni yfir allt saman. Kælið í um 4 klst áður en borið fram. FullSizeRender

Filed Under: Eldhúsperlur

Vanillubollakökur með hindberjafyllingu og kampavínskremi

desember 29, 2015 by helenagunnarsd Leave a Comment

IMG_0146Ég meina það af öllu hjarta þegar ég segi að þessar bollakökur hafa varla vikið úr huga mér síðan ég bakaði þær, bauð upp á þær í matarboði stuttu fyrir jól og gæddi mér svo daginn eftir á þeirri einu sem varð í afgang.. Næstum með tárin í augunum. Uppskriftina fann ég á síðunni Sugar and Soul og vissi um leið og ég leit hana augum að þetta þyrfti ég að prófa. Ég notaði ”white cake mix” í kökurnar sem ég fékk í versluninni Allt í köku. Ég ákvað að notað það því ég vildi hafa kökurnar alveg skjannahvítar. Ef þið viljið baka ykkar eigin bollakökur frá grunni er það lítið mál, hér er til dæmis ljómandi fín uppskrift. Það er vel við hæfi að ljúka Eldhúsperlu árinu 2015 á þessari hátíðlegu uppskrift.

Í leiðinni langar mig að þakka ykkur öllum fyrir innlitið, kveðjurnar, like-in og commentin á árinu sem er að líða. Án ykkar væri þetta allt saman nú hálf fátæklegt.. Megi næsta ár verða ykkur öllum gæfuríkt og gómsætt! – ..Ég mæli svo með að þið bakið kökurnar fyrir gamlárskvöld og berið fram með ísköldu freyðivíni rétt eftir miðnætti.. Svona ef þið viljið slá í gegn..

Vanillubollakökur með hindberjafyllingu og kampavínskremi (Örlítið breytt uppskrift frá Sugar and Soul) – Um 20 kökur

Bollakökur:

  • 1 pakki White cake mix frá Allt í köku eða Vanillubollakökur frá grunni 

Aðferð: Bakið bollakökurnar skv. leiðbeiningum og kælið. Þegar kökurnar hafa kólnað alveg gerið þið holur ofan í hverja köku, takið um það bil teskeið eða rúmlega það úr miðjum kökunum, þarna fer svo fyllingin góða.

Hindberjafylling:

  • 4 bollar frosin hindber
  • 3/4 bolli sykur
  • 4 msk maíssterkja (Maízena)
  • 4 msk vatn
  • 1 vanillustöng eða 1 tsk vanillusykur (má sleppa)

Aðferð: Setjið hindber, sykur og vanillu í pott. Kveikið undir, látið hindberin þiðna og byrja að sjóða. Tekur 10-15 mínútur. Hrærið maíssterkju og vatni saman í lítilli skál og hellið út í hindberjablönduna. Hrærið í og látið sjóða í 1-2 mínútur þar til blandan þykknar. Látið kólna alveg. Setjið rúmlega eina teskeið af fyllingunni í hverja bollaköku. Geymið í lokuðu íláti í ísskáp ef þið ætlið ekki að nota fyllinguna strax, hana má gera með nokkurra daga fyrirvara.

Kampavínskrem:

  • 250 gr mjúkt smjör (ekki ósaltað)
  • 500 gr flórsykur
  • 1/2 – 1 dl gott freyðivín að eigin vali – Ég notaði Prosecco, líka gott að nota Cava eða bara alvöru Champagne.. ykkar er valið!

Aðferð: Þeytið saman smjör og flórsykur þar til ljóst og létt. Bætið vínínu út í smám saman þar til kremið er létt og mjúkt, eins og þið viljið hafa það. Setjið kremið í sprautupoka og sprautið fallega ofan á kökurnar. IMG_0145

 

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Bollakökur, Einfaldur eftirréttur, góðar bollakökur, góður eftirréttur, Hindber, Hindberjakökur, Hvítar bollakökur

Quinoa skál með bökuðu grænmeti og hnetusósu

nóvember 1, 2015 by helenagunnarsd Leave a Comment

12115534_10154158804776729_978743620721870957_n

Ein af uppáhalds matarbloggurunum sem ég fylgist með er Smitten Kitchen –  Ég hef ósjaldan eldað eftir frábæru uppskriftunum sem þar má finna og aldrei orðið fyrir vonbrigðum. Það er einmitt þaðan sem þessi hugmynd er sprottin. Ég breytti þó einhverju smá hér og þar en pælingin er sú sama. Þetta sló svo þvílíkt í gegn á heimilinu að við getum eiginlega ekki beðið eftir að hafa þetta aftur í matinn. Það er líka ákaflega gott, hollt og umhverfisvænt og allt það að elda grænmetisrétti nokkrum sinnum í viku og fer bara talsvert vel með fjárhaginn. Sósan er stjarnan í þessum rétti og ég mæli með að tvöfalda uppskriftina. Ekki láta langan hráefnislista hræða ykkur, öll innihaldsefnin má finna í næstu verslun. Svo gildir hið fornkveðna að svona sósur þarf aðeins að smakka áfram. En útkoman er algjört dúndur! Prófiði bara. 12189116_10154158804921729_2735778379262525594_n

Quinoa skál með bökuðu grænmeti og hnetusósu (fyrir 3-4)

  • 3 dl quinoa, skolað
  • 5 dl vatn
  • 1 msk eða 1 teningur kjúklinga- eða grænmetiskraftur
  • 1 sæt kartafla
  • 1 brokkolíhöfuð
  • Hreinn fetaostur (fetakubbur)
  • Sesamfræ
  • Vorlaukur, smátt saxaður
  • Ólífuolía, sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar
  • Himnesk hnetusósa:
  • 2 msk hreint ósætt hnetusmjör
  • 2 msk tahini (sesamsmjör)
  • 1 msk sítrónusafi
  • 1 msk hrísgrjónaedik (líka hægt að nota annað edik)
  • 1 tsk chillimauk (sambal oelek)
  • 1 hvítlauksrif, hakkað
  • 1 msk rifið engifer
  • 1/2-1 msk sojasósa (ég nota alltaf tælenska light soysauce)
  • 1 msk hunang, agavesíróp eða önnur sæta
  • 1-2 msk ristuð sesamolía
  • 3-4 msk vatn

Aðferð: Byrjið á að sjóða quinoað – Mér finnst gott að skola quinoa í fínu sigti undir köldu vatni áður en ég sýð það, það minnkar aðeins biturt bragðið sem getur verið af því. Setjið vatnið í pott ásamt kraftinum og hleypið suðunni upp. Hellið quinoa út í og hrærið aðeins. Lækkið hitann og látið sjóða undir loki við vægan í 15 mínútur. Takið þá lokið af og leyfið að sjóða þar til allur vökvinn er horfinn, u.þ.b 10 mínútur.  Takið þá af hitanum og hrærið í með gaffli.

Hitið ofn í 200 gráður. Flysjið og skerið sætu kartöfluna í teninga. Veltið upp úr olíu og kryddið með salti og pipar, setjið í fat og bakið í 15 mínútur. Skerið þá brokkolíið smátt og setjið hjá sætu kartöfluteningunum, kryddið með salti og pipar, aðeins meiri olíu og bakið áfram í 15 mínútur. Á meðan er upplagt að gera sósuna. Setjið allt hráefnið í blandara eða matvinnsluvél og vinnið vel saman. Smakkið ykkur áfram þar til ykkur finnst sósan góð, ég vil t.d. hafa mína talsvert sterka með vel af chilli og engifer og bæti aðeins við það. Allt fer þetta eftir smekk. Ég mæli með að gera tvöfalda uppskrift af sósunni.

Setjið skálina svo saman: Quinoa fer í botninn, svo grænmetið þar ofan á ásamt vel af sósunni góðu og skreytt með sesamfræjum, vorlauk og fetaosti. 12187726_10154158805131729_3351701466859081042_n

Filed Under: Eldhúsperlur

Ostakex með sesamfræjum

september 29, 2015 by helenagunnarsd 2 Comments

min_IMG_7725Ég var sannarlega ekki að finna upp hjólið með þessu hrökkbrauði – því er nú ver og miður vegna þess að það er einstaklega gott. Hafandi prófað um það bil 137 útgáfur af svona hrökkbrauði er þetta mín útgáfa og sú sem ég geri oftast. Einfalt og alveg sjúklega gott. Það er valfrjálst að setja ost ofan á, ef þið eruð sælkerar skulið þið samt gera það. Ég geri það ekki alltaf, en ef ég á til góðan bragðmikinn ost eins og parmesan, grana padano, gruyére eða aðra snilld nota ég það óhikað. Þið getið svo bara notað þau fræ sem ykkur þykja góð eða þau sem þið eigið inni í skáp.

min_IMG_7732Ostakex með sesamfræjum:

  • 2 dl spelt (fínt eða gróft eða bæði)
  • 1 ½ dl sesamfræ
  • ½ dl sólblómafræ
  • ½ dl chiafræ
  • 1 tsk sjávarsalt
  • ½ dl ólífuolía
  • 1-1 ½ dl heitt vatn
  • 2 dl rifinn parmesan eða annar bragðmikill ostur

Aðferð: Hitið ofn í 200 gráður. Öllu nema ostinum blandað vel saman í skál, ég nota bara venjulega matskeið við blöndunina. Setjið vatnið smám saman út í blönduna, þið þurfið e.t.v. ekki að nota það allt. Deigið á að vera eins og frekar þykkt og blautt brauðdeig. Takið eina örk af bökunarpappír (á stærð við bökunarplötu) og leggið á borð, setjið deigið á pappírinn og leggið aðra bökunarpappírsörk ofan á. Fletjið út með kökukefli þangað til deigið fyllir næstum út í bökunarpappírsörkina. Fjarlægið efri bökunarpappírinn, stráið ostinum yfir og skerið för í deigið t.d. með pizzahníf í þá stærð sem þið vijið hafa kexið. Leggið á bökunarplötu og bakið í 15 mínútur eða þar til gullinbrúnt.

Filed Under: Eldhúsperlur

Pavlova með mokkarjóma og daimkurli

september 13, 2015 by helenagunnarsd 2 Comments

min_IMG_7657 (1)Þessi uppskrift átti nú að vera komin inn fyrir löngu. Ég gerði hana 28. ágúst á afmælisdegi mömmu og færði henni á kaffiborðið. Síðan þá hef ég bara verið frekar upptekin í vinnu og allskonar skemmtilegheitum og svo skelltum við hjónakornin okkur til Parísar í langþráða nokkurra daga ferð. Það er skemst frá því að segja að París var fullkomin, allt sem við borðuðum var gott, enda allir veitingarstaðir vel ígrundaðir gegnum Tripadvisor og hint frá vönu Parísarfólki, hótelið var svo jafnvel enn betra, fólkið skemmtilegt og borgin skartaði sínu fegursta. Við náðum að skoða helling og upplifa ýmislegt sniðugt en erum sem betur fer enn með langan lista af hlutum sem við náðum ekki að gera. Við hjóluðum borgina þvera og endilanga og ég er handviss um að það sé ein besta leiðin til að skoða stórborgir á borð við París, maður nær aldrei að ganga svona mikið og svo missir maður af svo miklu ef of miklum tíma er varið í neðanjarðarlestunum. Við förum aftur til Parísar, það er alveg víst. Ég held að ég þurfi ekkert að hafa of mörg orð um þessa tertu, hún er bara alveg ofsalega góð og sparileg ..og ekki sykurlaus eða laus við eitt eða neitt nema hollustu kannski. Hún er reyndar glútenlaus. Það er eitthvað!

min_IMG_7648Pavlova með mokkarjóma og daimkurli:

  • 6 eggjahvítur
  • 300 gr sykur
  • 1 tsk vanilluextract
  • 1 tsk borðedik eða hvítvínsedik
  • 2 tsk maíssterkja eða kartöflumjöl

Aðferð: Hitið ofn í 180 gráður, ég nota blástur því marengsinn er bakaður á tveimur plötum. Þeytið eggjahvíturnar þar til þær byrja aðeins að freyða. Bætið sykrinum hægt og rólega saman við á meðan þið þeytið áfram. Þeytið í 1-2 mínútur eftir að sykurinn er allur kominn saman við. Bætið þá vanillu, ediki og maíssterkjunni saman við og þeytið örstutt saman við. Skiptið marengsinum jafnt á tvær smjörpappírsklæddar bökunarplötur og myndið hringi sem eru u.þ.b 20 cm í þvermál. Setjið plöturnar inn í ofn og lækkið þá strax hitann í 120 gráður. Bakið í 75 mínútur. Opnið þá hurðina á ofninum og leyfið marengsinum að kólna alveg inni í ofninum. Sniðugt að baka pavlovurnar að kvöldi og leyfa þeim að kólna inni í ofni yfir nótt.

Fylling:

  • 7 dl rjómi
  • 1 tsk instant kaffiduft leyst upp í 1 msk af sjóðandi vatni
  • 2 msk hreint kakóduft
  • 3 msk flórsykur
  • 1 tsk vanilluextract
  • 2 pokar Daimkurl
  • Jarðarber eftir smekk

Aðferð: Rjóminn, kaffið, kakóið, flórsykur og vanilla sett saman í skál og þeytt þar til næstum stífþeytt. 1 poki af daimkurli sett út í. Helmingurinn af rjómanum settur á milli marengsbotnanna og hinn helmingurinn settur ofan á. Skreytt með restinni af daimkurlinu, jarðarberjum og bræddu súkkulaði.

Ofan á:

  • 50 gr suðusúkkulaði
  • 1/2 dl rjómi

Aðferð: Brætt saman í potti eða örbylgjuofni við vægan hita. Leyft að kólna alveg og svo hellt yfir tertuna að lokum. min_IMG_7649

 

Filed Under: Eldhúsperlur

Hveitilaus frönsk súkkulaðikaka

ágúst 22, 2015 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_7599 (1)Ég gat eiginlega ekki fundið nógu góðan titil á þessa uppskrift. Hveitilaus súkkulaðikaka gerir þessari himnesku súkkulaðiköku bara ekki nægilega góð skil. Ég hef nokkrum sinnum gert kökuna og aðlagað hana örltíið gegnum tíðina en uppskriftin kemur upphaflega frá Nigellu. Ég treysti henni alltaf þegar kemur að súkkulaði, samanber þessa uppskrift. Kakan er mjög blaut, en líka létt í sér, næstum því eins og bökuð súkkulaðimús, enda kallar Nigella kökuna ”Chocolate cloud cake”. Hún lyftir sér vel en fellur svo í miðjunni þegar hún kólnar. Miðjan er því upplögð til að fylla af einhverju góðgæti. Mér finnst fallegt að setja ber í miðjuna, en stundum þegar berin eru ekki upp á sitt besta er upplagt að léttþeyta rjóma og setja ofan á miðja kökuna, dusta svo smá kakódufti yfir eins og Nigella gerir.

min_IMG_7616Hveitilaus súkkulaðikaka:

  • 250 gr 56% súkkulaði
  • 125 gr smjör
  • 1 tsk vanilluextract
  • 1/4 tsk salt
  • 2 dl sykur (skipt í tvennt)
  • 6 egg (2 heil, 4 eggjarauður og hvítur aðskilið)

Aðfðerð: Hitið ofn í 180 gráður (160 með blæstri). Bræðið smjörið og súkkulaðið við vægan hita. Takið af hitanum þegar bráðnað og bætið salti og vanillu saman við, leyfið að rjúka. Setjið tvö heil egg og fjórar eggjarauður í skál ásamt 1 dl af sykri og þeytið vel saman. Þeytið eggjahvíturnar ásamt 1 dl af sykri í annarri skál þar til stífþeyttar. Hellið brædda súkkulaðinu saman við eggjarauðublönduna og hrærið vel saman við. Bætið svo eggjahvítunum varlega saman við og hrærið hægt og rólega út í með sleif eða sleikju.

Hellið deiginum í ósmurt 24cm lausbotna smelluform og bakið í 35-40 mínútur. Kælið í a.m.k 1 klst áður en þið fjarlægið hringinn varlega af smelluforminu. Gott er að renna hníf meðfram hliðunum á forminu til að losa kökuna frá hliðunum. Toppurinn á kökunni á að vera svolítið sprunginn og skemmtilegur.min_IMG_7593

*ATH. Ég ber kökuna fram á botnum úr smelluforminu. Kakan er of laus í sér í viðkvæm til að hægt sé að hvolfa henni og fjarlægja botninn.

*ATH. Einnig er hægt að baka kökuna í eldföstu móti og bera fram heita eða volga með rjóma og/eða ís.min_IMG_7598

Filed Under: Eldhúsperlur

Grænkáls snakk

ágúst 18, 2015 by helenagunnarsd 2 Comments

11873488_10153982844386729_5039768283149057036_nSonur minn kom færandi hendi heim úr skólagörðunum í gær með fleiri kíló af dásamlegu grænmeti sem hann hefur ræktað í sumar. Þvílík hamingja sem fylgdi þessari grænmetissendingu. Það vita flestir að það jafnast hreint ekkert á við nýsoðið smælki borið fram með smjeri og góðu sjávarsalti. Það eru því góðir tímar framundan hjá okkur og ýmislegt prófað með nýja grænmetinu þó stundum sé líka bara gott að borða það hrátt eins og það kemur upp úr jörðinni. Eitt af grænmetinu sem Gunnar kom með heim var grænkál. Það skal viðurkennast hér með að einlægari aðdáendur grænkáls en undirrataða má auðveldlega finna. Ég veit ekki alveg af hverju hálfgert æði spratt í kringum þetta stórkostlega grófa og óárennilega kál? Soðið, hrátt eða steikt er það bara ekki að gera neitt fyrir mig svei mér þá. En má ég þá víkja sögunni að þessu stórgóða grænkálssnakki. Einu leiðinni til að borða grænkál ef þið spyrjið mig. Eins mikið og mér mislíkar almennt grænkál er ég jafn hrifin af grænkálssnakki. Það gjörsamlega umbreytist í eitthvað dásamlega stökkt, létt og skemmtilegt. Það er ekkert mál að gera svona snakk en gott að hafa nokkur atriði í huga. Ég hvet ykkur til að prófa grænkálssnakk og koma einhverjum á óvart með þessu nýstárlega nasli.

11872620_10153985349401729_788093223_nSvona geri ég:

  • Eitt vænt búnt grænkál (passlegt á tvær bökunarplötur)
  • 1 msk ólífuolía (ekki freistast til að setja meira)
  • 1/2 tsk laukduft
  • 1/2 tsk hvítlauksduft
  • 1/2 tsk sítrónupipar
  • 1 tsk reykt paprika
  • 1/4 tsk cayenne pipar (má sleppa)
  • 1 tsk gott sjávarsalt (t.d. Saltverk)

Hitið ofn í 145 gráður með blæstri, annars 165 gráður. (Mér finnst blástur virka betur hér) 11912964_10153985349391729_1361329356_nByrjið á að fjarlægja stilkana af grænkálinu og rífið það svo í passlega bita, passið að hafa bitana ekki of litla. 11880180_10153985349406729_246203659_nSetjið grænkálið í skál og sáldrið olíunni yfir það. Nuddið olíunni vel inn í allt grænkálið með fingrunum þannig að hver einasti grænkálsbiti hafi smá olíu á sér. Það má alls ekki ofgera olíunni hér, smá olía dugar á helling af grænkáli. 11920503_10153985349411729_1749763594_nHrærið kryddinu saman í skál og stráið yfir kálið. Hrærið því vel saman við. 11908312_10153985349441729_820499644_nSetjið kálið í einfalt lag á tvær pappírsklæddar bökunarplötur. Alls ekki hrúga eða stafla kálinu, þá er meiri hætta á að það gufusoðni í stað þess að steikjast. 11924790_10153985349446729_551137530_nBakið í 20-25 mínútur. Leyfið snakkinu að kólna á bökunarplötunni. 11923372_10153985350056729_1267293104_nSetjið á fallegan disk eða skál og berið fram. Stráið meira salti yfir ef ykkur finnst þurfa. 11909824_10153985350011729_631950737_n11903373_10153985350006729_529917863_n

Filed Under: Eldhúsperlur

Fyllt tacoflétta með nautahakki og salsasósu

ágúst 12, 2015 by helenagunnarsd 4 Comments

min_IMG_7557Jæja. Ég er voða spennt að setja þessa uppskrift inn og veit að það eru nokkrir að bíða eftir henni. Yngsti fjölskyldumeðlimurinn á heimilinu hefur búið við almennt tannleysi, lausar tennur og auman góm og þá dramatík sem því fylgir undanfarna mánuði. Enda eðlilegur fylgifiskur þess að vera sex ára. Hér hefur því verið mikið um rétti með nautahakki, fisk, grænmetisrétti, pasta og almennt mat sem er tyggingarvænn fyrir litla manninn. Nautahakk er reyndar sérstaklega vinsælt hjá honum og hafa ýmsar útgáfur af því fengið að líta dagsins ljós. Í gær var ég semsagt með þennan rétt. Hann gjörsamlega sló í gegn og þegar þetta er skrifað er sá stutti búinn að borða réttinn þrisvar. Semsagt algjör hittari hjá sex ára strák en hann var það líka hjá fullorðna fólkinu. Þetta er frábær kvöldmatur en ég sé þetta einnig fyrir mér í saumaklúbbum, afmælum og þess háttar í stað hinna gamalgrónu (en þó ágætu) brauðrétta. Það er voða gott að bera réttinn fram með fersku heimalöguðu guacamole og góðu grænu salati (ég myndi ekki dæma ykkur þó þið hefðuð líka nachos flögur með..). Ég lofa að réttinn er einfaldara að gera en það lítur út fyrir. Þetta snýst aðallega um samsetningu hráefna og svo er um að gera að stytta sér leið með því að nota tilbúið pizzadeig. Þá tekur þetta enga stund! Ég hvet ykkur til að skoða upprunalegu uppskriftina í hlekknum hér fyrir neðan, þá sjáið þið hvernig á að flétta deigið saman. min_IMG_7547

Fyllt tacoflétta með nautahakki og salsasósu (lítillega breytt uppskrift frá: 365 Days of Baking and More)

  • 1 rúlla tilbúið pizzadeig (t.d. Wewalka, líka hægt að búa til frá grunni)
  • 6-700 gr hreint ungnautahakk
  • 1 rauðlaukur, smátt skorinn
  • 3 msk tilbúið tacokrydd úr poka
  • 1 lítil krukka salsasósa (ca. 230gr)
  • 1 límóna
  • 2-3 tómatar, skornir smátt
  • 200 gr rifinn ostur (1 poki)
  • 2 msk ólífuolía
  • Ofan á:
  • 4 vorlaukar, smátt saxaðir
  • Nokkrir kirsuberjatómatar, skornir smátt
  • Sýrður rjómi

Aðferð: Fletjið deigið út þannig að það þekji eina bökunarplötu. Leggið á plötuna og hafið bökunarpappír undir. Skerið 2-3 cm rákir langsöm niður eftir deiginu en skiljið ca. 10 cm rönd eftir í miðjunni (sjá skýringarmyndir í hlekknum við hausinn á uppskriftinni). Steikið laukinn þar til glær og bætið hakkinu út á pönnuna. Brúnið vel. Bætið tacokryddinu saman við ásamt salsasósunni og safanum úr límónunni blandið vel saman og smakkið til með salti og pipar. Hellið hakkinu á miðjuna á pizzadeiginu. Stráið tómötunum þar yfir og rúmlega helmingnum af rifna ostinum. Leggið nú deigstrimlana yfir hakkblönduna eins og þið væruð að flétta (sjá aftur skýringarmynd). Penslið ólífuolíu yfir fléttuna og stráið restinni af rifna ostinum yfir. Bakið við 180 gráður í 20 mínútur eða þar til deigið er vel bakað og osturinn ofan á gullinbrúnn. Dreifið dálitlum sýrðum rjóma yfir og stráið svo smátt söxuðum tómötum og vorlauk ofan á. (Rétturinn er passlegur sem aðalréttur fyrir 5 fullorðna).  min_IMG_7556

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Barnaafmæli, Brauðréttir, Einfaldur matur, Fléttubrauð, Hakkréttir, Heitir brauðréttir, Heitir réttir, Mexíkóskur matur, Nautahakk uppskriftir, Partýmatur, Salsa sósa, Saumaklúbbaréttir, Tacoflétta

Tíramímús

júlí 21, 2015 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_7393Ég hef legið á þessari uppskrift eins og ormur á gulli. Það er langt síðan ég bauð upp á tíramímúsina sem eftirrétt og hef eiginlega ekki getað hætt að hugsa um hana síðan. Ef þið kunnið að meta tiramisu og þess háttar eftirrétti get ég lofað að þetta á eftir að slá í gegn hjá bragðlaukunum. Nú og fyrir utan bragðið þá tekur þetta afar stutta stund í undirbúningi og getur svo bara staðið inni í ísskáp og beðið þess að vera borðað.. Ef þið getið þá beðið. Ég fékk hugmyndina að uppskriftinni upphaflega á matarblogginu crazyforcrust.com – Þar má finna ýmislegt girnilegt. Uppskriftinni breytti ég svo lítillega. Uppskriftin er rífleg fyrir fjóra sælkera sem frekar stór eftirréttur. Mér finnst þó huggulegra að hafa eftirrétti litla og sæta svo mér þykir uppskriftin passleg fyrir sex.

min_IMG_7391Tíramímús (fyrir 4-6):

  • 2 sléttflullar tsk instant kaffiduft (instant espressoduft er mjög gott ef þið eigið það)
  • 3 msk sjóðandi vatn
  • 2,5 dl rjómi
  • 1,5 dl flórsykur
  • 250 gr mascarpone rjómaostur við stofuhita
  • 1 vanillustöng (eða 2 tsk vanilluextract)
  • 2 msk amaretto líkjör eða annar sætur líkjör (hægt að nota t.d. Tía maria, sérrý, Grand Marnier eða Marsala) Má líka sleppa víninu.
  • 2 msk ósætt kakóduft
  • 50 gr súkkulaði

Aðferð: Byrjið á að þeyta rjómann. Geymið hann í kæli. Blandið kaffiduftinu og heita vatninu saman í bolla og leyfið að rjúka. Þeytið mascarpone ostinn með flórsykrinum þar til silkimjúkt. Skafið fræin vel innan úr vanillustönginni. Bætið vanillu. líkjör og kaffiblöndunni saman við ostablönduna og þeytið vel saman. Blandið að lokum þeyttum rjómanum varlega saman við með sleikju.

Setjið blönduna í sprautupoka og sprautið í falleg glös (líka hægt að setja með skeið í glösin). Dustið örlitlu kakói gegnum sigti á milli laga svo úr verði falleg falleg lagskipting. Rífið að lokum súkkulaði yfir efsta lagið í öllum glösunum. Kælið í 1-2 klst og berið fram kalt. Má gera daginn áður en gætið þess þá að setja filmu yfir glösin. min_IMG_7389

Filed Under: Eldhúsperlur

Sterk og klístruð chilli kjúklingalæri á grillið

júlí 17, 2015 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_7172Þessi ógurlega fljótlega og ljúffenga uppskrift slær beint í mark þegar grillið er dregið fram. Uppskriftina má jafnt nota á læri, leggi, bringur eða heilan kjúkling. Eina sem þarf að vara sig á er að hafa grillið ekki of heitt því hunangið á það til að brenna. Gott er að byrja á að brúna kjúklinginn vel og setja hann svo á óbeinan hita til að klára eldunina. Ég ber fram með þessu gott matarmikið salat og grillaða sítrónur til að kreista yfir kjötið. Mæli heilshugar með þessum dásamlega klístraða kjúlla.

Sterk og klístruð chilli kjúklingalæri á grillið (fyrir fjóra)

  • 800 gr úrbeinuð kjúklingalæri
  • 2 vænar msk chillimauk úr krukku t.d. sambal oelek
  • 2 msk hunang
  • 2 msk sojasósa

Aðferð: Blandið saman chilli, hunangi og sojasósu. Veltið kjúklingalærunum vel upp úr blöndunni og látið marinerast í smá stund. Gott er að láta kjúllann liggja í leginum í ísskáp yfir nótt eða a.m.k 1 klst. En það þarf ekki. Grillið þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Ef þið viljið extra klístraðan og sterkan kjúkling mæli ég með að búa til tvöfalda uppskrift af kryddleginum og pensla á nokkrum sinnum á kjúllann á meðan hann grillast. min_IMG_7165

Filed Under: Eldhúsperlur

  • « Go to Previous Page
  • Page 1
  • Page 2
  • Page 3
  • Page 4
  • Page 5
  • Page 6
  • Interim pages omitted …
  • Page 23
  • Go to Next Page »

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram did not return a 200.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme