Ég útbjó þennan ljúfa og einfalda bröns handa okkur fjölskyldunni á dögunum. Nú eru síðustu sumarfrísdagarnir að líða og við notum hvert tækifæri til að hafa það huggulegt og gera okkur dagamun áður en rútínan fer á fullt aftur. Mér finnst um bröns eða ”dögurð” (kann einhvernhveginn ekki við það orð) eins og svo margt annað, að einfalt er oftast best. Ef ég býð upp á bröns hlaðborð kýs ég allavega að bjóða upp á frekar fáar tegundir en vel eitthvað sem ég veit að er gómsætt og fellur í góðan jarðveg. Þar sem við vorum nú bara þrjú að borða í þetta skiptið lét ég þessar tvær tegundir duga og var með vínber og góðan appelsínusafa með. Ef ég fæ til mín gesti í bröns þá finnst mér gott að bæta til dæmis við nýbökuðum skonsum eins og þessum hér eða þessum og bera fram með þeim osta, álegg og lemoncurd. Ef þið eigið gasgrill þá mæli ég alveg eindregið með því að þið grillið brauðið fyrir bruschetturnar á því. Það kemur alveg ótrúlega gott grillbragð sem gerir alveg gæfumuninn, svo tekur bara 1-2 mínútur að grilla sneiðarnar á vel heitu grillinu. Það er bara hressandi að kveikja á grillinu svona í morgunsárið!
Grilluð bruschetta með tómötum og mozarella:
- 1 snittubrauð
- 1 kúla mozarella ostur
- 2-3 eldrauðir tómatar
- Nokkur blöð af ferskum basil
- Góð ólífuolía
- 1 msk nýkreistur sítrónusafi
- Sjávarsalt og nýmalaður pipar
Aðferð: Skerið snittubrauðið á ská í passlegar sneiðar. Dreypið smá ólífuolíu yfir sneiðarnar og sáldrið örlitlu sjávarsalti ofan á. Grillið við háan hita í stutta stund þar til brauðið hefur aðeins tekið lit. Raðið sneiðunum á disk. Saxið tómatana í litla teninga ásamt mozarella ostinum. Setjið í skál. Hellið 1-2 msk af ólífuolíu yfir, sítrónusafa, salti og pipar (smakkið ykkur áfram). Skerið basilið smátt og bætið saman við. Hrærið öllu saman og dreifið þessu jafnt yfir allar brauðsneiðarnar. Skreytið e.t.v með smá basil.
- 6 egg
- 12 sneiðar gott beikon (ég notaði þykkar beikonsneiðar frá Ali)
- 6 tsk sýrður rjómi með lauk og graslauk
- Salt og pipar
- Góð handfylli Rifinn ostur
- Saxaður graslaukur
Aðferð: Hitið ofninn í 200 gráður. Raðið beikonsneiðunum á bökunarplötu og bakið í 8-10 mínútur eða þar til beikonið er eldað en ekki alveg orðið stökkt. Náið ykkur í möffinsform og raðið tveimur beikonsneiðum í hvert hólf. Ég sett eina í hring og reif hina svo í tvennt og lagði í botninn. Brjótið eitt egg í hvert hólf og kryddið aðeins með salti og pipar. Setjið eina teskeið af sýrðum rjóma í hvert hólf og stráið svo osti yfir. Bakið í 8-12 mínútur. Ef þið viljið hafa eggið linsoðið ættu 8 mínútur að duga, lengur ef þið viljið hafa rauðuna harðsoðna. Stráið söxuðum graslauk yfir og berið fram.