• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

Einfaldur eftirréttur

Vanillubollakökur með hindberjafyllingu og kampavínskremi

desember 29, 2015 by helenagunnarsd Leave a Comment

IMG_0146Ég meina það af öllu hjarta þegar ég segi að þessar bollakökur hafa varla vikið úr huga mér síðan ég bakaði þær, bauð upp á þær í matarboði stuttu fyrir jól og gæddi mér svo daginn eftir á þeirri einu sem varð í afgang.. Næstum með tárin í augunum. Uppskriftina fann ég á síðunni Sugar and Soul og vissi um leið og ég leit hana augum að þetta þyrfti ég að prófa. Ég notaði ”white cake mix” í kökurnar sem ég fékk í versluninni Allt í köku. Ég ákvað að notað það því ég vildi hafa kökurnar alveg skjannahvítar. Ef þið viljið baka ykkar eigin bollakökur frá grunni er það lítið mál, hér er til dæmis ljómandi fín uppskrift. Það er vel við hæfi að ljúka Eldhúsperlu árinu 2015 á þessari hátíðlegu uppskrift.

Í leiðinni langar mig að þakka ykkur öllum fyrir innlitið, kveðjurnar, like-in og commentin á árinu sem er að líða. Án ykkar væri þetta allt saman nú hálf fátæklegt.. Megi næsta ár verða ykkur öllum gæfuríkt og gómsætt! – ..Ég mæli svo með að þið bakið kökurnar fyrir gamlárskvöld og berið fram með ísköldu freyðivíni rétt eftir miðnætti.. Svona ef þið viljið slá í gegn..

Vanillubollakökur með hindberjafyllingu og kampavínskremi (Örlítið breytt uppskrift frá Sugar and Soul) – Um 20 kökur

Bollakökur:

  • 1 pakki White cake mix frá Allt í köku eða Vanillubollakökur frá grunni 

Aðferð: Bakið bollakökurnar skv. leiðbeiningum og kælið. Þegar kökurnar hafa kólnað alveg gerið þið holur ofan í hverja köku, takið um það bil teskeið eða rúmlega það úr miðjum kökunum, þarna fer svo fyllingin góða.

Hindberjafylling:

  • 4 bollar frosin hindber
  • 3/4 bolli sykur
  • 4 msk maíssterkja (Maízena)
  • 4 msk vatn
  • 1 vanillustöng eða 1 tsk vanillusykur (má sleppa)

Aðferð: Setjið hindber, sykur og vanillu í pott. Kveikið undir, látið hindberin þiðna og byrja að sjóða. Tekur 10-15 mínútur. Hrærið maíssterkju og vatni saman í lítilli skál og hellið út í hindberjablönduna. Hrærið í og látið sjóða í 1-2 mínútur þar til blandan þykknar. Látið kólna alveg. Setjið rúmlega eina teskeið af fyllingunni í hverja bollaköku. Geymið í lokuðu íláti í ísskáp ef þið ætlið ekki að nota fyllinguna strax, hana má gera með nokkurra daga fyrirvara.

Kampavínskrem:

  • 250 gr mjúkt smjör (ekki ósaltað)
  • 500 gr flórsykur
  • 1/2 – 1 dl gott freyðivín að eigin vali – Ég notaði Prosecco, líka gott að nota Cava eða bara alvöru Champagne.. ykkar er valið!

Aðferð: Þeytið saman smjör og flórsykur þar til ljóst og létt. Bætið vínínu út í smám saman þar til kremið er létt og mjúkt, eins og þið viljið hafa það. Setjið kremið í sprautupoka og sprautið fallega ofan á kökurnar. IMG_0145

 

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Bollakökur, Einfaldur eftirréttur, góðar bollakökur, góður eftirréttur, Hindber, Hindberjakökur, Hvítar bollakökur

Sítrónu brownie

september 20, 2013 by helenagunnarsd 3 Comments

min_IMG_4183Það er auðvitað mesti misskilningur að skýra þessa köku ”brownie”. Fyrir utan það að málfarsráðunautar og íslenskufræðingar fái andarteppu yfir enskuslettri nafngiftinni þá er kakan alls ekkert brún og það er alls ekkert súkkulaði í henni. Þvert á móti er hún ljósgul og dásamleg eins og sól í kökuformi og bragðast eins og sæt sítróna. Titlinum var einungis ætlað að reyna með einhverjum hætti að lýsa hvers konar tegund af köku þetta er. Hún er semsagt blaut eins og brownies eiga það til að vera og samsetning hráefna er ekki ósvipuð, nema að jú, það er ekki notað kakó eða súkkulaði heldur er sítróna notuð til að bragbæta deigið. Gott að þetta er komið á hreint. Þetta er dýrindis kaka sem tekur enga stund að henda í og að sjálfsögðu get ég ekki annað en mælt með að þið prófið!min_IMG_4188

Sítrónu ”brownie” kaka:

  • 150 gr. ósaltað smjör
  • 2 stór egg
  • 2,5 dl hrásykur
  • 1 tsk vanilluextract
  • 1/2 tsk salt
  • 1 sítróna
  • 1,5 dl hveiti eða fínmalað spelt

min_IMG_4176Aðferð: Hitið ofn í 150 gráður með blæstri. Byrjið á að bræða smjörið í potti og leyfið því að kólna aðeins. Rífið börkinn af sítrónunni með fínu rifjárni, athugið að taka einungis gula hlutann af hýðinu. Kreistið safann úr sítrónunni og setjið til hliðar. Þeytið saman egg, sykur og vanillu þar til létt og ljós. Lækkið hraðann og bætið salti, sítrónuskræli og safa út í ásamt smjörinu. Sigtið hveitið út í og blandið varlega saman við með sleikju. Hellið í smurt form, ca. 20 cm í þvermál og bakið í 35 mínútur. Kælið í forminu, setjið á kökudisk, stráið flórsykri yfir og skreytið t.d með rifsberjum.min_IMG_4186min_IMG_4185

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfaldur eftirréttur, Einföld kaka, góður eftirréttur, Kladdkaka, Sítrónubrownie, Sítrónukaka

Útilegu marengsbomba með rjómasúkkulaði rúsínum, ávöxtum og pipp sósu

júlí 31, 2013 by helenagunnarsd 4 Comments

min_IMG_3454Það eru sennilega til óteljandi útgáfur af þessum vinsæla og syndsamlega góða eftirrétti og það góða við hann (eitt af mörgu) er hvað hann er fljótlegur og einstaklega einfaldur í undirbúningi. Þennan mætti vel gera í tjaldi væri maður vopnaður potti, prímus og góðum písk til að þeyta rjómann. Útkoman er síðan svo hrikalega girnileg og flott að allir halda að maður hafi verið í nokkra klukkutíma að útbúa þessa dýrð þegar sannleikurinn er sá að maður þarf eiginlega ekki neina eldhúslega hæfileika til að geta gert þennan eftirrétt. Getur það orðið eitthvað betra?Það má vel nota hvaða sælgæti og ávexti sem er í réttinn. Ég prófaði nýlega nýju rjómasúkkulaðirúsínurnar frá Nóa siríus og finnst þær alveg tilvaldar í svona fínheit. Mæli með því að þið prófið þær – súkkulaðirúsínur hafa náð nýjum hæðum með tilkomu þeirra! Það er tilvalið að bjóða upp á þennan eftirrétt um verslunarmannahelgina hvort sem þið verðið heima, í bústað, útilegu eða bara hvar sem er. Mælieiningarnar eru ekki mjög nákvæmar í uppskriftinni enda er rétturinn þess eðlis að sköpunargáfan má vel njóta sín – hann verður bara betri fyrir vikið!

min_IMG_3457Útilegu marengsbomba með rjómasúkkulaði rúsínum, ávöxtum og pipp sósu:

  • 1 púðursykursmarengsbotn (ég kaupi tilbúinn botn t.d frá Myllunni)
  • 5 dl rjómi
  • 1 lítil dós vanilluskyr
  • 1 bakki íslensk jarðarber eða önnur ber
  • 1 banani
  • 1 poki rjómasúkkulaði rúsínur (150 gr)
  • 1 plata pipp súkkúlaði með karamellufyllingu (100 gr)

Aðferð: Brjótið marengsbotninn gróft í botninn á skál eða í eldfast mót. Bræðið pipp súkkulaðið í 1 dl af rjóma við vægan hita og kælið. Þeytið 4 dl af rjóma og hrærið vanilluskyrinu saman við. Skerið bananann og berin í litla bita en skiljið nokkur ber eftir til að skreyta með. Hrærið berjunum, banönunum og súkkulaðirúsínunum saman við rjóma blönduna og hellið henni yfir marengsinn. Skreytið með jarðarberjum, nokkrum súkkulaðirúsínum og hellið að lokum pipp sósunni yfir. Berið fram strax eða geymið í kæli í 1 klst.min_IMG_3449

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: eftirréttur, Eftirréttur með marengs, Einfaldur eftirréttur, Marengs bomba, Marengs eftirréttur, rjóma og skyri, Sumarlegur eftirréttur, Sælgætisbomba

Toblerone Tiramisu

mars 23, 2013 by helenagunnarsd 3 Comments

IMG_1666Ég hef alla vikuna dundað mér við að ákveða hvað ég eigi að bjóða upp á í matarklúbbi sem verður hjá okkur í kvöld. Ég er sennilega búin að fara í um það bil 17 hringi með matseðilinn en eitt sem ég fór ekki í neina hringi með er eftirrétturinn. Toblerone Tiramisu var það. Ég man ekki hvar ég sá það en einhverntímann í fyrndinni sá ég uppskrift að Toblerone Tiramisu í einhverju uppskriftablaði. Ég fór því á stúfana og leitaði að góðri tiramisu uppskrift og endaði á smá blöndu af tveimur uppskriftum sem eiga að vera þær bestu í heimi.

Þó þetta sé Toblerone tiramisu er það nú samt frekar klassískt, Tobleronið er bara svona smá twist. Öllum finnst það gott svo hversu slæmt getur orðið að saxa það smátt og dreifa því yfir drottningu eftirréttanna? Það er varla hægt að gera þægilegri eftirrétt en þennan þegar von er á mörgum í mat, því það er upplagt að búa hann til daginn áður og leyfa honum að jafna sig í ísskáp yfir nótt. Var ég ekki örugglega búin að minnast á hvað tiramisu er gott?

IMG_1657Toblerone Tiramisu (fyrir 10-12, uppskriftina má auðveldlega minnka um helming):

  • 6 eggjarauður
  • 2,5 dl sykur
  • 1 vanillustöng
  • 2 dósir mascarpone ostur (stofuheitur)
  • 5 dl rjómi
  • 1 bolli (2,5 dl) sterkt kaffi
  • 4 msk amaretto líkjör eða annar sætur líkjör
  • 2 pakkar fingurkökur (lady fingers)
  • 2 toblerone
  • Hreint kakó

IMG_1656Aðferð: Hellið upp á sterkt kaffi, setjið það í skál ásamt líkjör og leyfið að kólna. Þeytið rjómann og setjið til hliðar. Setjið 6 eggjarauður í skál ásamt sykrinum og kornunum úr vanillustönginni. Setjið skálina yfir sjóðandi vatn og þeytið með písk í um 10 mínútur þar til eggjablandan er aðeins ljósari. Takið hana svo af hitanum og þeytið áfram með hrærivél eða handþeytara þar til eggin þykkna og verða ljós. Hrærið þá mjúkum mascarpone ostinum samanvið með þeytaranum. Bætið þeyttum rjómanum saman við með sleikju.

Dýfið fingurkökunum örstutt ofan í kaffiblönduna og raðið í form þar til kökurnar þekja botninn. Hellið helmingnum af eggjarjómanum yfir og raðið svo fleiri fingurkökum og hellið restinni af rjómablöndunni yfir allt saman. Saxið tobleronið smátt, dreifið yfir og stráið svo kakóinu yfir gegnum sigti. Látið bíða í ísskáp í minnst 8 klst. Þetta geymist svo vel í 3-4 daga í ísskáp. IMG_1670

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfaldur eftirréttur, Gott tiramisu, góður eftirréttur, Tiramisu, Tiramisu uppskrift, Toblerone eftirréttur, Toblerone uppskriftir

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram has returned invalid data.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme