Þessi fiskréttur er svo góður að við eiginlega áttum ekki til orð þegar hann var snæddur núna eitt kvöldið. Bæði ungir sem aldnir nutu hans í botn. Hann er stútfullur af grænmeti og fiski og sósan er hrikalega góð. Mér finnst allavega alveg magnað að horfa á son minn moka upp í sig fiski og grænmeti með sósu og smjatta í millitíðinni yfir því hversu góður maturinn sé. Hann er nefnilega ekki ennþá kominn á það stig að reyna að vera kurteis yfir matnum svo harðari gagnrýnanda er varla hægt að fá. Við foreldrarnir vorum reyndar alveg innilega sammála honum. Ég hef oft gert fiskrétti með hefðbundnum hrísgrjónum en ákvað að prófa að gera þennan núna með blómkáls”grjónum”. Ég held að það verði ekki aftur snúið. Okkur fannst miklu betra að hafa blómkálið heldur en venjulegu hrísgrjónin, bæði bragðið og áferðin var dásamlegt. Ég verð að mæla alveg innilega með því að þið prófið þennan rétt sem fyrst!
Gratineraður fiskur með blómkálsgrjónum (fyrir 3-4):
- 1 lítið blómkálshöfuð, rifið niður á grófu rifjárni
- 600 grömm hvítur fiskur (ég var með þorskhnakka)
- 1 lítil dós Kotasæla
- 1 dós sýrður rjómi
- 2 msk majones
- 1 tsk karrý
- 1 msk hunangsdijon sinnep (eða venjulegt dijon sinnep)
- 1 rauð paprika, skorin smátt
- 1/2 púrrulaukur, skorinn smátt
- Ólífuolía, salt, nýmalaður pipar og Krydd lífsins (Frá Pottagöldrum eða annað gott krydd)
- Rifinn góður ostur, ég notaði Óðals ost
Aðferð: Byrjið á að hita ofninn í 180 gráður með blæstri. Rífið blómkálið á rifjárni og dreifið því jafn í botninn á eldföstu móti. Kryddið með salt og pipar og dreypið yfir smá ólífuolíu og um 1 msk af vatni. Bakið í ofni í ca. 10 mínútur – eða á meðan þið útbúið restina af réttinumSkerið þorskinn í hæfilega bita, kryddið með salti, pipar og Kryddi lífsins. Saxið blaðlaukinn og paprikuna smátt. Hrærið saman innihaldið í sósuna (kotasæluna, sýrða rjómann, majones, karrý, sinnep) og smakkið hana til með kryddinu, salti og pipar. Takið blómkálið útúr ofninum og lækkið hitann á ofninum í ca.160 gráður. Leggið fiskstykkin ofan á. Dreifið sósunni þá yfir fiskinn og þar ofan á paprikunni og púrrulauknum. Dreifið að lokum rifnum ostinum yfir og bakið í um það bil 20-25 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn. Berið fram t.d með léttu salati eða spírum. Ég mæli sérstaklega með blaðlauksspírum frá Ecospira, það er milt og gott laukbragð af þeim og þær pössuðu mjög vel með réttinum.