Um páskana þegar við vorum með hið dásamlega beef Wellington kom Sunna systir mín með þetta frábæra forrétta salat handa okkur sem við gæddum okkur á áður en nautasteikin var snædd. Ég hef nú loks fengið uppskriftina hjá henni og fæ að birta hana hér, mér til mikillar ánægju. Þetta salat er æði, segi það og skrifa. Það er svo lekkert að bera það fram sem forrétt eða jafnvel sem smárétt á léttu kvöldverðarborði. Þetta sameinar einmitt það sem mér þykir oft koma best út. Frekar fá gæða hráefni valin af alúð og sett saman af mikilli ást fyrir þá sem manni þykir vænt um. Þannig hljómaði uppskriftinni allavega frá Sunnu og ef þetta er haft í huga getur rétturinn ekki klikkað. Vinagrettan sem hún setti yfir salatið gerði svo algjörlega útslagið. Með þessu góða salati drukkum við alveg frábæran dökkan belgískan bjór sem Sunna kom með og smell passaði hann við bragðið af salatinu eins og flís við rass. Bjórinn heitir Rodenbach Vintage 2010. Ég er nokkuð viss um að bjórinn fáist ekki í ríkinu en ég mæli eindregið með að smakka þessa tegund ef þið komist í tæri við hann og hafið gaman af að smakka öðruvísi bjór. Virkilega góður og eiginlega ekki eins og neinn bjór sem ég hafði áður smakkað. Hér eru t.d upplýsingar um bjórinn. Með salatinu væri þó sennilega líka gott að drekkar ískalt frekar þurrt hvítvín.
- 1/2 poki klettasalat.
- 1 stórt avocado, skorið í sneiðar
- 2 klementínur eða 1 appelsína
- 1 bréf góð hráskinka (ca. 10-12 sneiðar)
Aðferð: Setjið klettasalatið í botninn á grunnu fati eða skál. Flysjið appelsínuna eða klementínurnar og raðið bátunum yfir salatið. Setjið því næst avocado sneiðarnar yfir og að lokum upprúllaðar hráskinkusneiðarnar.
Vinagretta:
- Safi úr einni sítrónu
- 6 msk ólífuolía
- 1 msk balsamic edik
- 1 msk grófkorna dijon sinnep
- 1 msk vatn
- Smá sjávarsalt og nýmalaður pipar
Aðferð: Allt hrisst saman í glasi eða krukku. Hellt yfir salatið rétt áður en það er borið fram.