• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

góður eftirréttur

Vanillubollakökur með hindberjafyllingu og kampavínskremi

desember 29, 2015 by helenagunnarsd Leave a Comment

IMG_0146Ég meina það af öllu hjarta þegar ég segi að þessar bollakökur hafa varla vikið úr huga mér síðan ég bakaði þær, bauð upp á þær í matarboði stuttu fyrir jól og gæddi mér svo daginn eftir á þeirri einu sem varð í afgang.. Næstum með tárin í augunum. Uppskriftina fann ég á síðunni Sugar and Soul og vissi um leið og ég leit hana augum að þetta þyrfti ég að prófa. Ég notaði ”white cake mix” í kökurnar sem ég fékk í versluninni Allt í köku. Ég ákvað að notað það því ég vildi hafa kökurnar alveg skjannahvítar. Ef þið viljið baka ykkar eigin bollakökur frá grunni er það lítið mál, hér er til dæmis ljómandi fín uppskrift. Það er vel við hæfi að ljúka Eldhúsperlu árinu 2015 á þessari hátíðlegu uppskrift.

Í leiðinni langar mig að þakka ykkur öllum fyrir innlitið, kveðjurnar, like-in og commentin á árinu sem er að líða. Án ykkar væri þetta allt saman nú hálf fátæklegt.. Megi næsta ár verða ykkur öllum gæfuríkt og gómsætt! – ..Ég mæli svo með að þið bakið kökurnar fyrir gamlárskvöld og berið fram með ísköldu freyðivíni rétt eftir miðnætti.. Svona ef þið viljið slá í gegn..

Vanillubollakökur með hindberjafyllingu og kampavínskremi (Örlítið breytt uppskrift frá Sugar and Soul) – Um 20 kökur

Bollakökur:

  • 1 pakki White cake mix frá Allt í köku eða Vanillubollakökur frá grunni 

Aðferð: Bakið bollakökurnar skv. leiðbeiningum og kælið. Þegar kökurnar hafa kólnað alveg gerið þið holur ofan í hverja köku, takið um það bil teskeið eða rúmlega það úr miðjum kökunum, þarna fer svo fyllingin góða.

Hindberjafylling:

  • 4 bollar frosin hindber
  • 3/4 bolli sykur
  • 4 msk maíssterkja (Maízena)
  • 4 msk vatn
  • 1 vanillustöng eða 1 tsk vanillusykur (má sleppa)

Aðferð: Setjið hindber, sykur og vanillu í pott. Kveikið undir, látið hindberin þiðna og byrja að sjóða. Tekur 10-15 mínútur. Hrærið maíssterkju og vatni saman í lítilli skál og hellið út í hindberjablönduna. Hrærið í og látið sjóða í 1-2 mínútur þar til blandan þykknar. Látið kólna alveg. Setjið rúmlega eina teskeið af fyllingunni í hverja bollaköku. Geymið í lokuðu íláti í ísskáp ef þið ætlið ekki að nota fyllinguna strax, hana má gera með nokkurra daga fyrirvara.

Kampavínskrem:

  • 250 gr mjúkt smjör (ekki ósaltað)
  • 500 gr flórsykur
  • 1/2 – 1 dl gott freyðivín að eigin vali – Ég notaði Prosecco, líka gott að nota Cava eða bara alvöru Champagne.. ykkar er valið!

Aðferð: Þeytið saman smjör og flórsykur þar til ljóst og létt. Bætið vínínu út í smám saman þar til kremið er létt og mjúkt, eins og þið viljið hafa það. Setjið kremið í sprautupoka og sprautið fallega ofan á kökurnar. IMG_0145

 

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Bollakökur, Einfaldur eftirréttur, góðar bollakökur, góður eftirréttur, Hindber, Hindberjakökur, Hvítar bollakökur

Rabarbarapæ með engifer og svörtum pipar

maí 19, 2014 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_5714Það er frekar fyndið að setja inn aðra pæ uppskrift sem lítur næstum alveg eins út og síðasta uppskrift sem ég setti inn. En auðvitað allt öðruvísi á bragðið með allt öðru hráefni. Pæ hafa öðlast nýtt líf í eldhúsinu mínu og ég kann afskaplega vel við að útbúa svona ”röstic” (íslenskt orð óskast) pæ, hvort sem þau eru sæt eða matarmeiri. Möguleikarnir að fyllingum eru endalausir og svo þykja mér þau svo falleg, svona ófullkomin, beygluð og krúttleg. Ást mín á rabarbara er svo eitthvað sem þarf varla að ræða. Mér tekst á hverju einasta sumri að snýkja mér rabarbara úr garði góðhjartaðra ættingja eða vina og helst vill ég snýkja hann snemma því hann verður súrari eftir því sem líður á sumarið. Að þessu sinni var það elskuleg kórsystir mín sem var svo hugguleg að leyfa mér að koma í garðinn og fá hluta af dásamlega rabarbaranum hennar. Myndarlegur, eldrauður og flottur, og alls ekki svo súr, fyrsta flokks rabarbari. Takk Ásdís! min_IMG_5713Ég hvet ykkur til að prófa þessa útgáfu af rabarbarapæi, engiferið og svarti piparinn passar einstaklega vel við súrt og sætt bragðið af ávextinum. Maður tekur ekki beint eftir því þegar maður smakkar pæið en það rífur örlítið í og gefur alveg extra sérstakan keim.. Prófið bara.

min_IMG_5699Rabarbarapæ með engifer og svörtum pipar:

  • Botninn:
  • 3 dl spelt, ég notaði fínt og gróft til helminga
  • 1/4 tsk salt
  • 3 msk sykur
  • 100 gr kalt smjör skorið í litla bita
  • 1/2 dl vatn (sett smám saman út í, gæti þurft aðeins meira eða aðeins minna)
  • Fylling:
  • 1 msk smjör
  • 7 dl saxaður rabarbari
  • 1 dl sykur (smakkið rabarbarann, stundum þarf meira og stundum minna)
  • 1/2 tsk engiferduft
  • 1/4 tsk nýmalaður svartur pipar
  • 3 tsk maíssterkja eða kartöflumjöl
  • 1 egg
  • 1 msk grófur demerara sykur/hrásykur

min_IMG_5700Aðferð: Hitið ofn í 180 gráður og gerið botninn. Myljið smjörið saman við mjölið, sykurinn og saltið með fingrunum þar til frekar vel blandað saman og smjörið komið í litla bita, á stærð við poppbaunir. Bætið vatninu smám saman út í eftir þörfum og vinnið saman með höndunum þar til deigið loðir saman og er ekki of blautt. (Athugið að nota alls ekki allt vatnið ef deigið er komið saman). Hnoðið deigið létt saman með höndunum. Setjið deigið á smjörpappír og leggið aðra smjörpappírsörk ofan á. Fletjið út með kökukefli þar til laglegur um það bil hringur hefur myndast og fyllir nánast út í bökunarplötu. Fjarlægið efri smjörpappírsörkina af útflöttu deiginu og leggið deigið á smjörpappírnum á bökunarplötu. Geymið á meðan fyllingin er útbúin.

Bræðið smjör á pönnu við meðalhita. Bætið rabarbara, sykri, engifer, pipar og maíssterkju út á pönnuna og látið malla í 5 mínútur á meðalhita eða þar til sykurinn leysist upp og vökvinn sem kemur af rabarbaranum þykknar aðeins. Hellið rabarbara blöndunni á miðjuna á deiginu og dreifið aðeins úr en gætið þess að skilja eftir smá kant. Flettið köntunum á deiginu upp á fyllinguna og athugið að þetta á ekki að vera fullkomið. Penslið kantana með eggi og stráið hrásykrinum yfir kantana og rabarbarann. Bakið neðarlega í ofni í 20-25 mínútur. Leyfið að kólna í 10-15 mínútur áður en pæið er skorið. Berið fram volgt með góðum vanilluís.min_IMG_5712

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: góður eftirréttur, hugmyndir að eftirréttum, pæ, Rabarbarakaka, rabarbarapæ, rabarbari uppskriftir, rabbarbarakaka, Rabbarbari uppskriftir

Jólarjómaís með Baileys, Irish cream súkkulaði og piparkökum

desember 18, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_4695Eitt það skemmtilegasta og jólalegasta sem ég gerir fyrir jólin er að búa til jólaísinn. Þegar ég var lítil og hékk í svuntufaldinum á mömmu þótti mér svo miklu skemmtilegra að hjálpa henni að gera ísinn heldur en að baka smákökur. Ég beið spennt eftir ískvöldinu og mér fannst alveg ömurlegt ef ég missti af því, sem gerðist reyndar afar, afar sjaldan. Mamma hrærði eggin og sykurinn inni í búri í hávaðasömustu Kenwood hrærivél sem sögur fara af og rjóminn var þeyttur frammi í eldhúsi á meðan. Svo komst friðurinn á aftur og þegar öllum hráefnunum var blandað rólega saman varð úr dásamleg ísblanda sem breyttist svo í besta ís sem til er. min_IMG_4691Ég geri alltaf okkar hefðbundna jólaís sem samanstendur af sjerríi, muldum makkarónukökum og súkkulaði. Í ár ákvað ég að gera líka nýja tegund eftir að hafa fengið á heilann að piparkökur og Baileys hlyti bara að passa saman eins og hönd í hanska. Sem það gerir. Ísinn er einstaklega góður, hann er svo góður að þið verðið að prófa. Trúið mér. Ég nota alltaf sömu grunnuppskrift í ís sem samanstendur af 6 eggjum, 6 matskeiðum af sykri og hálfum líter af rjóma. Þetta er uppskriftin sem mamma kenndi mér og góð kona kenndi henni. Hún er einföld og virkar alveg þrusu vel.

Jólaís með Baileys, Irish cream súkkulaði og piparkökum:

  • 6 egg
  • 6 msk sykur
  • 1/2 líter rjómi
  • 200 gr piparkökur
  • 2 plötur Pipp súkkulaði með Irish cream (eða 200 gr gott rjómasúkkulaði eða karamellufyllt súkkulaði)
  • 1/2 – 1 dl Baileys (eftir smekk ég notaði alveg 1 dl, vildi finna Baileys bragð)

min_IMG_4684Aðferð: Myljið piparkökurnar frekar fínt, allt í lagi að hafa smá bita. Saxið súkkulaðið og þeytið rjómann. Þeytið eggin og sykurinn í hrærivél eða með rafmagnsþeytara þar til mjög ljós og hafa margfaldast að stærð. Þetta tekur um 5 -7 mínútur. Gætið þess að þeyta eggin vel annars skilur ísinn sig þegar hann frýs. min_IMG_4686Blandið rjómanum varlega saman við eggjablönduna með sleikju ásamt Baileys, súkkulaðinu og piparkökunum (takið smá frá af piparkökunum til að dreifa yfir í lokin). Hrærið hægt og rólega þar til allt hefur blandast saman. Ég mæli eindregið með að smakka blönduna á þessum tímapunkti og athuga hvort þið viljið meira Baileys. min_IMG_4689Hellið í box eða form og frystið. Það þarf ekki að hræra í ísnum á meðan hann er að frjósa, einn af kostum þess að nota áfengi í ís er að það myndast mun minni ískristallar í ísnum. Ég tek þó fram að ísinn myndi ég ekki gefa börnum, sérstaklega ekki ef þið notið allt Baileys-ið. ..Það er líka til nóg af öðru góðu handa þeim og allt í lagi að fullorðna fólkið fái stundum fullorðins nammi. Takið ísinn úr frysti 15-20 mínútum áður en þið berið hann fram og njótið út í ystu æsar. Það eru nú einu sinni jólin!min_IMG_4696

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: besti jólaísinn, einfaldur ís, Fljótlegur eftirréttur, góður eftirréttur, ís með Baileys, Jólaís, Jólaís uppskrift, rjómaís

Sítrónu brownie

september 20, 2013 by helenagunnarsd 3 Comments

min_IMG_4183Það er auðvitað mesti misskilningur að skýra þessa köku ”brownie”. Fyrir utan það að málfarsráðunautar og íslenskufræðingar fái andarteppu yfir enskuslettri nafngiftinni þá er kakan alls ekkert brún og það er alls ekkert súkkulaði í henni. Þvert á móti er hún ljósgul og dásamleg eins og sól í kökuformi og bragðast eins og sæt sítróna. Titlinum var einungis ætlað að reyna með einhverjum hætti að lýsa hvers konar tegund af köku þetta er. Hún er semsagt blaut eins og brownies eiga það til að vera og samsetning hráefna er ekki ósvipuð, nema að jú, það er ekki notað kakó eða súkkulaði heldur er sítróna notuð til að bragbæta deigið. Gott að þetta er komið á hreint. Þetta er dýrindis kaka sem tekur enga stund að henda í og að sjálfsögðu get ég ekki annað en mælt með að þið prófið!min_IMG_4188

Sítrónu ”brownie” kaka:

  • 150 gr. ósaltað smjör
  • 2 stór egg
  • 2,5 dl hrásykur
  • 1 tsk vanilluextract
  • 1/2 tsk salt
  • 1 sítróna
  • 1,5 dl hveiti eða fínmalað spelt

min_IMG_4176Aðferð: Hitið ofn í 150 gráður með blæstri. Byrjið á að bræða smjörið í potti og leyfið því að kólna aðeins. Rífið börkinn af sítrónunni með fínu rifjárni, athugið að taka einungis gula hlutann af hýðinu. Kreistið safann úr sítrónunni og setjið til hliðar. Þeytið saman egg, sykur og vanillu þar til létt og ljós. Lækkið hraðann og bætið salti, sítrónuskræli og safa út í ásamt smjörinu. Sigtið hveitið út í og blandið varlega saman við með sleikju. Hellið í smurt form, ca. 20 cm í þvermál og bakið í 35 mínútur. Kælið í forminu, setjið á kökudisk, stráið flórsykri yfir og skreytið t.d með rifsberjum.min_IMG_4186min_IMG_4185

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfaldur eftirréttur, Einföld kaka, góður eftirréttur, Kladdkaka, Sítrónubrownie, Sítrónukaka

Hvít súkkulaðibaka með ferskum berjum

júní 14, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_2832Ég hef beðið dálítið lengi með að deila þessari uppskrift. Ástæðan er eiginlega bara sú að mér þykir þessi baka svo sparileg, dásamlega góð og sumarleg að ég hugsaði með mér að það væri fátt meira við hæfi en að deila uppskriftinni að henni í aðdraganda 17. júní. Hún er nú einu sinni í fánalitunum. Eða svona því sem næst. Bakan er alls ekki flókin en það tekur smá tíma og þolinmæði að gera hana. Þolinmæðin felst þó aðallega í biðinni eftir því að geta smakkað hana.

min_IMG_2834Uppskriftin sem ég studdist við er komin frá Andy nokkrum Bates sem hefur í nokkuð langan tíma verið með þætti á Food Network sem bera heitið ”Street Kitchen”. Virkilega skemmtilegir þættir þar sem Andy heimsækir ýmsa staði á Bretlandi og í Bandaríkjunum þar sem borinn er fram skyndibiti með þvílíkum metnaði úr úrvals hráefnum. Andy endar svo oftast þættina á því að elda sjálfur eitthvað ómótstæðilega girnilegt. Eins og þessa fallegu böku. Í upprunalegu uppskriftinni notar Andy eingöngu hindber ofan á bökuna, það er þó alveg hægt að nota þau ber sem hendi eru næst. Íslensku hindberin sem fást nú eru til dæmis alveg tilvalin ofan á og vel þess virði að fjárfesta í því góðgæti. Þau eru ólýsanlega góð! Ég mæli sterklega með því að þið prófið þessa himnesku sumarböku sem allra fyrst. Þó ekki væri nema bara til að fagna 17. júní með stæl!

min_IMG_2828Hvít súkkulaðibaka með ferskum berjum (lítillega breytt uppskrift frá Andy Bates):

  • Bökuskel:

  • 260 g hveiti eða fínmalað spelt
  • 85 gr flórsykur
  • Örlítið salt
  • 150 gr kalt smjör
  • 1 egg
  • 1 eggjarauða
  • Fylling:

  • 300 gr hvítt súkkulaði
  • 300 ml rjómi
  • 60 ml mjólk
  • 1 vanillustöng
  • 2 egg
  • 2 bakkar hindber og 1 bakki bláber (ca. 500 gr af berjum)
  • Flórsykur til að sigta yfir

– Ég nota lausbotna 30 cm bökuform.

– Hægt er að útbúa bökuskelina með góðum fyrirvara t.d daginn áður og geyma óbakaða í ísskáp.

Aðferð: Hitið ofn í 180 gráður með blæstri. Vinnið allt innihaldið í bökuskelina nema eggið og eggjarauðuna saman með höndunum eða í hrærivél þannig að deigið líkist rökum sandi. Setjið eggið og eggjarauðuna saman við og hrærið létt þar til deigið rétt loðir saman. Ekki vinna deigið of lengi. Búið til flatan disk úr deiginu og pakkið því inn í plastfilmu og geymið í ísskáp í 30 mínútur. (Ég lét deigið ekki vera nógu lengi í ísskápnum svo það var dálítið lint, ekki gera eins og ég). Page_1Takið deigið þá út og fletjið út milli tveggja smjörpappírsarka eða á hveitistráðu borði. Leggið deigið því næst í bökumótið og þrýstið því vel út í kantana. min_IMG_2801Snyrtið auka deig í burtu t.d með því að rúlla kökukefli yfir bökumótið.min_IMG_2802 Leggið smjörpappír á deigið og hellið hrísgrjónum eða baunum yfir. Þetta er gert til þess að bökuskelin lyfti sér ekki þegar hún er bökuð. min_IMG_2805Bakið deigskelina í 15 mínútur. Á meðan deigskelin er að bakast saxið súkkulaðið frekar smátt.min_IMG_2789 Hellið þá rjómanum og mjólkinni ásamt kornunum úr einni vanillustöng í pott og hitið upp að suðu. min_IMG_2808Þegar froða byrjar að myndast hliðunum og mjólkin er alveg að fara að sjóða slökkvið undir. min_IMG_2811Hellið rjómanum svo yfir saxað súkkulaðið í gegnum sigti og hrærið saman þar til súkkulaðið er alveg bráðnað. min_IMG_2812Leyfið þessu að kólna í fimm mínútur. min_IMG_2813Hrærið eggin saman og hellið þeim svo út í súkkulaði blönduna og blandið vel saman. min_IMG_2814Takið bökuskelina úr ofninum og lækkið hitann í 160 gráður.min_IMG_2806 Hellið fyllingunni varlega í bökuna. Það er gott að hafa bökuformið á ofnplötu svo auðveldara sé að flytja bökuna inn í ofn án þess að sulla upp úr. min_IMG_2815min_IMG_2816min_IMG_2818Setjið inn í ofn og bakið í 45 mínútur. min_IMG_2824Takið úr ofninum og leyfið að kólna í a.m.k klukkustund við stofuhita eða lengur í ísskáp. min_IMG_2838Takið bökuna úr forminu, skreytið með bláberjum og hindberjum og sigtið örlítinn flórsykur yfir. min_IMG_2864min_IMG_2856min_IMG_2866

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Baka, Berjabaka, eftirréttur, góður eftirréttur, Hvít súkkulaði tart, Hvít súkkulaðibaka, Kaka með hindberjum

Súkkulaði eldfjöll

mars 30, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

IMG_1727Það er nú meira vesenið stundum hvað matur getur verið dásamlega góður. Það mætti halda miðað við færslurnar hérna inni undanfarið að það eina sem við borðum séu stórsteikur, rjómasósur, súkkulaði og eftirréttir. Það er nú ekki svo en það er bara svo gaman að deila þannig góðgæti með ykkur lesendur góðir. Ég get líka alveg svarið það að mest lesnu uppskriftirnar hérna inni eru svona oftast þær sem maður ætti sannarlega ekki að borða daglega. En mikið finnst mér alltaf gaman að sjá hversu margir eru að lesa síðuna. Dag frá degi eykst heimsóknarfjöldinn og ég hefði aldrei trúað því þegar ég byrjaði á þessu fyrr í vetur, hversu gaman þetta væri. Þó ég hafi vissulega leytt hugann að því lengi að setja uppskriftirnar mína upp á einhverja svona síðu grunaði mig aldrei að einhverjir myndu lesa þetta nema ég og svona tveir aðrir (mamma og hugsanlega maðurinn minn). En svona getur þetta nú verið skemmtilegt og ég verð alltaf jafn glöð og hissa að sjá hversu margir skoða og það sem gleður mig mest er að fá send skilaboð frá ókunnugu fólki sem hefur prófað uppskriftirnar og vill þakka fyrir sig. Það er svo gaman að ég roðna bara við tilhugsunina.

Ég ætla að deila með ykkur uppskrift af súkkulaði eldfjöllum sem eru nú alveg óþarflega gómsæt. Ég var með þetta í eftirrétt í gærkvöldi, systir mín og mágur komu mat og við elduðum ekta beef Wellington sem er innbökuð nautalund. Ég set þá uppskrift sannarlega hingað inn næstu daga. En þessi súkkulaðibomba er rosalega þægilegur eftirréttur sem má undirbúa jafnvel með dags fyrirvara og skella svo í ofn rétt áður en bera á hann fram. Vá-faktorinn er mikill þegar skeiðinni er stungið í kökuna og út flæðir súkkulaðikvikan. Svo í guðanna bænum passiði að ofbaka ekki kökurnar. IMG_1722

Uppskrift (fyrir 6):

  • 200 gr dökkt súkkulaði (70%)
  • 200 gr smjör
  • 3 egg og 1 eggjarauða
  • 200 gr flórsykur
  • 1 tsk vanilluextract
  • 5 msk hveiti (75 grömm)
  • 1/8 tsk vínsteinslyftiduft (cream of tartar)
  • 1/2 tsk fínmalað sjávarsalt

Aðferð: Ofn hitaður í 200 gráður, ekki með blæstri. Bræðið smjör og súkkulaði í potti við vægan hita. Takið af hitanum og leyfið að kólna. Þeytið saman egg, flórsykur og vanilluextract þar til létt og ljóst. Sigtið saman hveitið, vínsteinslyftiduftið og saltið. Hellið súkkulaðiblöndunni saman við eggin og hrærið vel saman. Hellið hveitblöndunni svo út í og blandið vel saman. Skiptið deiginu í 6 lítil suffléform eða hellið um það bil 1 dl af deiginu í 12 álmuffinsform sem hafa verið smurð og bökunarpappír settur upp með hliðunum. Þá eru tvær kökur á mann.

Ef bakað í 12 muffinsformum tekur um 10 mínútur að baka kökurnar. Ef kökurnar eru bakaðar í 6 suffléformum er bökunartíminn um 12 mínútur. Þær eiga að vera blautar í miðjunni. Tíminn getur þó verið mismunandi milli ofna svo ég mæli eiginlega með að prófa eina köku áður en þið bakið allt saman og finnið út hver er passlegur tími í ykkar ofni. Deigið má líka útbúa daginn áður eða nokkrum klukkutímum áður, kæla í formunum en passa þá að bæta um 2 mínútum við bökunartímann. IMG_1730

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: góður eftirréttur

Toblerone Tiramisu

mars 23, 2013 by helenagunnarsd 3 Comments

IMG_1666Ég hef alla vikuna dundað mér við að ákveða hvað ég eigi að bjóða upp á í matarklúbbi sem verður hjá okkur í kvöld. Ég er sennilega búin að fara í um það bil 17 hringi með matseðilinn en eitt sem ég fór ekki í neina hringi með er eftirrétturinn. Toblerone Tiramisu var það. Ég man ekki hvar ég sá það en einhverntímann í fyrndinni sá ég uppskrift að Toblerone Tiramisu í einhverju uppskriftablaði. Ég fór því á stúfana og leitaði að góðri tiramisu uppskrift og endaði á smá blöndu af tveimur uppskriftum sem eiga að vera þær bestu í heimi.

Þó þetta sé Toblerone tiramisu er það nú samt frekar klassískt, Tobleronið er bara svona smá twist. Öllum finnst það gott svo hversu slæmt getur orðið að saxa það smátt og dreifa því yfir drottningu eftirréttanna? Það er varla hægt að gera þægilegri eftirrétt en þennan þegar von er á mörgum í mat, því það er upplagt að búa hann til daginn áður og leyfa honum að jafna sig í ísskáp yfir nótt. Var ég ekki örugglega búin að minnast á hvað tiramisu er gott?

IMG_1657Toblerone Tiramisu (fyrir 10-12, uppskriftina má auðveldlega minnka um helming):

  • 6 eggjarauður
  • 2,5 dl sykur
  • 1 vanillustöng
  • 2 dósir mascarpone ostur (stofuheitur)
  • 5 dl rjómi
  • 1 bolli (2,5 dl) sterkt kaffi
  • 4 msk amaretto líkjör eða annar sætur líkjör
  • 2 pakkar fingurkökur (lady fingers)
  • 2 toblerone
  • Hreint kakó

IMG_1656Aðferð: Hellið upp á sterkt kaffi, setjið það í skál ásamt líkjör og leyfið að kólna. Þeytið rjómann og setjið til hliðar. Setjið 6 eggjarauður í skál ásamt sykrinum og kornunum úr vanillustönginni. Setjið skálina yfir sjóðandi vatn og þeytið með písk í um 10 mínútur þar til eggjablandan er aðeins ljósari. Takið hana svo af hitanum og þeytið áfram með hrærivél eða handþeytara þar til eggin þykkna og verða ljós. Hrærið þá mjúkum mascarpone ostinum samanvið með þeytaranum. Bætið þeyttum rjómanum saman við með sleikju.

Dýfið fingurkökunum örstutt ofan í kaffiblönduna og raðið í form þar til kökurnar þekja botninn. Hellið helmingnum af eggjarjómanum yfir og raðið svo fleiri fingurkökum og hellið restinni af rjómablöndunni yfir allt saman. Saxið tobleronið smátt, dreifið yfir og stráið svo kakóinu yfir gegnum sigti. Látið bíða í ísskáp í minnst 8 klst. Þetta geymist svo vel í 3-4 daga í ísskáp. IMG_1670

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfaldur eftirréttur, Gott tiramisu, góður eftirréttur, Tiramisu, Tiramisu uppskrift, Toblerone eftirréttur, Toblerone uppskriftir

Einföld og góð súkkulaðimús

janúar 25, 2013 by helenagunnarsd 2 Comments

IMG_0213Góð heimatilbúin súkkulaðimús er eitthvað sem ég á afar erfitt með að standast og ég veit ekki um marga eftirrétti sem komast með tærnar þar sem músin góða er með hælana. Engu að síður geri ég eiginlega aldrei súkkulaðimús. Fyrir utan að það gengur náttulega ekki að vera alltaf borðandi súkkulaðimýs þá hefur mér fundist eintómt vesen að búa hana til. Ég fór aðeins að grúska og fann út að það þarf alls ekki að vera svo mikið mál að gera þennann dásamlega eftirrétt. Þeyta egg og sykur, bræða súkkulaði og blanda öllu saman við þeyttan rjóma, þetta hljómar ekki mjög flókið og er það bara alls ekki. Það er mesti misskilningur að það þurfi að aðskilja eggjarauður og eggjahvítur og vera með eitthvað vesen í kringum það. Þessi uppskrift er ofsalega góð og maður þarf alls ekki stóran skammt til að svala súkkulaðiþörfinni.

Uppskrift:

  • 150 grömm dökkt súkkulaði (56 – 70%)
  • 2 msk smjör
  • 2 heil egg og 1 eggjarauða
  • 2 msk sykur
  • 3,5 dl rjómi
  • 1 tsk vanilluextract
  • Salt á hnífsoddi

Aðferð:

Súkkulaði og smjör brætt yfir vatnsbaði eða í potti við vægan hita með ögn af salti. Tekið af hitanum og leyft að kólna. Á meðan eru eggin, eggjarauðan og sykurinn þeytt vel saman þar til ljóst og létt. Súkkulaðinu og vanillunni hrært saman við. Rjóminn stífþeyttur og honum blandað varlega saman við súkkulaði- og eggjablönduna. Músin færð í nokkrar litlar skálar, glös á fæti eða eina stóra skál og kæld í 1 klst eða lengur. Borið fram með ferskum berjum.IMG_0208

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: góður eftirréttur

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram has returned invalid data.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme