• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

Hugmyndir fyrir matarboð

Kjúklinga taco salat

október 24, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_4422Ég ætlaði svo innilega að ná að gera þetta salat tilbúið áður en myrkrið skall á í kvöld. Á öðru hundraðinu lenti Bónuspokinn á eldhúsborðinu, kveikt á barnaefninu á RÚV, pönnu skellt á eldavélina, kveikt undir, kápunni hent á stól og vörurnar eiginlega rifnar upp úr innkaupapokanum. Kjúklingabringur klofnar í tvennt, kryddaðar og dúndrað á sjóðandi heita pönnuna á meðan var restin af hráefnunum í salatið týnd til. Jú ég var enn dálítið vongóð. Birtan á pallinum alveg sæmileg og ég myndi sennilega ná þessu. Byrjaði að skola grænmeti, skera niður, náði í stóran disk og hálfpartin forðaðist að horfa á myrkrið hægt og rólega síga yfir eldhúsgluggann. Opnaði ostinn, reyndi að ná ostinum úr án þess að rífa pokana, það gekk ekki vel. Þeir sem þekkja mig geta ef til vill reynt að sjá fyrir sér pirringinn þegar ég í mikilli bræði stappaði niður fótunum yfir ostinum pikkföstum í !#%# pokunum. Það gæti skemmt einhverjum.

min_IMG_4429Jæja osturinn kominn á brettið, rifjárnið rifið upp og í millitíðinni hugað að kjúklingabringunum á pönnunni. Þetta var allt að smella. Bara eftir að setja salatið saman og búa til chillidressingu. Tíminn hefur sennilega liðið hraðar en ég gerði mér grein fyrir því á þessum tímapunkti voru táknmálsfréttirnar teknar við af barnaefninu og hið óhjákvæmilega hafði gerst. Það var komið svo mikið myrkur að ég sá ekki einu sinni köttinn sem mjálmaði á pallinum. Það mátti reyna en ég hefði sennilega aldrei náð þessu. Kannski næst. Ég skipti því yfir í lægri gír og kláraði salatið í ögn hægari takti sem ég kann svo mikið betur við í eldhúsinu og það færðist ró yfir heimilið. Salatið var myndað undir eldhúsljósunum. Útkoman bragðlega séð var alveg dásamleg svo ljósin skiptu minna máli. Samsetningin snarvirkaði.. gott salat er bara svo gott!

min_IMG_4433Kjúklinga taco salat (fyrir 3):

  • 2 kjúklingabringur
  • Gott bragðmikið krydd, t.d Chilli explosion og kjúklingakrydd
  • 1 höfuð lambhagasalat
  • 3 vænir eldrauðir tómatar
  • 1 – 2 lárperur
  • 1/2 rauðlaukur
  • 1 gul paprika
  • Ferskt kóríander eftir smekk
  • 2-3 dl rifinn góður ostur, ég notaði Maríbó og Óðalsost
  • Nokkrar nachosflögur muldar yfir. Ég notaði Blue corn chips sem ég fann í Bónus og gefa skemmtilegan lit.
  • 1 límóna

Chillidressing:

  • 1 msk majónes
  • 1 dl ab mjólk eða hrein jógúrt
  • 3 – 4 tsk chillimauk t.d Sambal Oelek, Sriracha sósa eða bæði
  • 1 tsk hunang
  • 2 tsk hvítvínsedik
  • Safi úr 1/2 límónu
  • Salt eftir smekk
  • Þynnt með smá vatni ca. 1-2 msk

Aðferð: Byrjið á að skera kjúklingabringurnar í tvennt á þykktina. Kryddið vel báðum megin og steikið þar til eldaðar í gegn. Takið þá af pönnunni og skerið í strimla. Skerið salatið niður og setjið á fat eða stóran disk. Skerið tómata, papriku, lárperu og lauk niður og stráið yfir ásamt helmingnum af rifna ostinum. Setjið kjúklingastrimlana ofan á. Stráið restinni af ostinum yfir ásamt nachosflögum og kóríander. Hellið smá chillidressingu yfir. Berið fram með chillidressingunni og límónubátum.min_IMG_4428

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Gott salat, Hugmyndir fyrir matarboð, Kjúklingasalat, Léttir réttir, Mexikóskt kjúklinga salat, Mexíkóskur matur, salat

Ítalskar parmesan kjötbollur í tómatsósu

október 20, 2013 by helenagunnarsd 3 Comments

min_IMG_4404Það var ekki mikið spjallað við matarborðið um kvöldið þegar þessi réttur var á borðum. Sem annað hvort er vísbending um að við séum svona leiðinleg eða að maturinn hafi verið það góður að það mátti enginn vera að því að tala. Ég vona allavega að það hafi verið það síðarnefnda og grunar það sterklega miðað við hljóðin sem fjölskyldumeðlimir gáfu frá sér við matarborðið. Gunnar átti hugmyndina að matnum og aðstoðaði af áhuga við kjötbollugerðina. Útkoman var einhverjar bestu ítölsku kjötbollur og sósa sem við höfum smakkað.

Ég er búin að vera að prófa mig aðeins áfram með kjötbollur og er svona eiginlega komin á að lykillinn að mjúkum kjötbollum er að bleyta brauðmylsnu eða góðan brauðrasp í mjólk áður en því er svo blandað saman við kjötið. Þetta gerir algjörlega gæfumuninn! Svo mæli ég líka með því að þið sleppið því að steikja bollurnar áður en þær eru settar út í sósuna, mér þykir mikið betra að láta þær detta beint út í sjóðandi sósuna og leyfa þeim að malla þar í rólegheitum. Þá verða þær jafnvel enn safaríkari og mýkri og sósan og bollurnar eiginlega fullkomna hvort annað. Þið verðið að prófa.

min_IMG_4411Ítalskar kjötbollur

  • 2.5 dl brauðmylsna (ég notaði Panko í þetta skiptið)
  • 1.5 dl mjólk
  • 600 gr hreint ungnautahakk
  • 75 gr rifinn parmesan
  • 1 msk þurrkuð steinselja
  • 2 msk smátt söxuð fersk steinselja
  • 2 pressuð hvítlauksrif
  • 2 tsk sjávarsalt
  • 1 tsk svartur nýmalaður pipar
  • 1 egg

Aðferð: Mjólkinni hellt yfir brauðmolanna og látið standa í 5 mínútur. Öllu blandað vel saman, ég set allt í hrærivél og blanda þannig saman. Litlar bollur mótaðar úr hakkinu og geymdar í kæli á meðan sósan er gerð.

Sósa

  • 3 msk ólífuolía
  • 1 smátt saxaður rauðlaukur
  • 2 pressuð hvítlauksrif
  • 1/2 tsk sjávarsalt og  smá nýmalaður pipar
  • 500 ml tómata passata eða maukaðir tómatar
  • 1 dl vatn
  • 3 msk tómatpúrra
  • 2 tsk hunang eða önnur sæta
  • 2 greinar ferskt timían eða 1 tsk þurrkað
  • 1.5 dl þurrt hvítvín eða rauðvín
  • 1 dl rjómi
  • Góð lúka ferskt basil, gróft saxað

min_IMG_4395Aðferð: Olía hituð í potti við meðalhita. Laukur og hvítlaukur steikt þar til mýkist, kryddað með salti og pipar. Tómatmauki, vatni, tómatpúrru, hunangi, hvítvíni, timíani og rjóma bætt út í og suðunni hleypt upp. Leyft að malla í 5 mínútur og smakkað til með salti og pipar. Athugið þó að bollurnar eru bragðmiklar og munu gefa frá sér bragð þegar þær koma út í sósuna. Kjötbollur settar útí ásamt basil og leyft að malla við vægan hita með lokið að hálfu yfir, þannig að gufi upp af sósunni og hún þykkni aðeins í u.þ.b 20 mínútur. Borið fram með spaghetti eða tagliatelle og nýrifnum parmesan osti.min_IMG_4412

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Góðar kjötbollur, Hugmyndir fyrir matarboð, Ítalskar kjötbollur, Kjötbollur, Kjötbollur og spagettí, Litlar kjötbollur

Freistandi kjúklingaréttur með púrrulauk og sweet chili rjómasósu

október 2, 2013 by helenagunnarsd 25 Comments

min_IMG_4261Nú nálgast óðfluga sá tími að kona býr ekki lengur við þann lúxus að geta myndað kvöldmatinn í dagsbirtu. Ef ég á að segja alveg eins og er, þá hlakka ég ekkert voðalega mikið til þess tíma. Þeir sem hafa myndað mat, vita að dagsbirta er besti vinur fallegra matarmynda. Og þegar maður er ekki áhuga- eða atvinnu ljósmyndari, á tiltölulega einfalda myndavél, kann næstum ekkert í ljósmyndun og á ekki ljósmyndastúdíó, eru félagarnir myrkur og flass ekki bestu vinir manns. Maður einfaldlega tekur ekki myndir af mat með flassi, það er agalegt! Annað hvort þarf ég að fara að elda matinn í hádeginu, finna eitthvað út úr þessu birtuveseni eða einfaldlega taka myndir af matnum undir ljósunum í eldhúsinu hjá mér og vona það besta. Ég hugsa að þið fáið að sjá sitt lítið af hverju á komandi vetri. Ef þið lumið á einhverjum góðum ráðum varðandi þetta lúxusvandamál mitt, þigg ég þau með þökkum.

min_IMG_4269En þá að uppskrift dagsins. Það má með sanni segja að þessi kjúklingaréttur sé af sparilegri gerðinni. Rjómaostur og sýrður rjómi spilar lykilhutverk í sósunni sem er einstaklega bragðgóð með sætu og mildu chilli og púrrulauksbragði. Rétturinn er til dæmis alveg kjörinn lágkolvetnaréttur, borinn fram með fersku grænu salati eða blómkálsgrjónum. Sweet chilli sósuna er hægt að fá sykurlausa t.d í Krónunni og sennilega víðar. Annars mæli ég nú alveg heilshugar með þessum einfalda og ljúffenga kjúklingarétti fyrir alla og hvet ykkur, kæru vinir til að prófa, þetta er sannkallaður veislumatur.

Freistandi kjúklingur í púrrulauks og sweet chili rjómasósu (fyrir 5):

  • 5 kjúklingabringur, skornar í teninga (gúllas stærð)
  • 1 púrrulaukur, smátt skorinn
  • 2 dósir sýrður rjómi
  • 1 lítil dós rjómaostur (125 gr)
  • 1 teningur kjúklingakraftur
  • 2 hvítlauksrif, smátt söxuð eða rifin
  • 4-5 msk sweet chilli sósa (eftir smekk)
  • 1 dl rifinn ostur
  • Salt og pipar

min_IMG_4260Aðferð: Hitið ofn í 200 gráður með blæstri. Hitið pönnu með smá smjöri eða olíu, saltið og piprið kjúklingabitana og brúnið þá vel eða þar til þeir eru nánast fulleldaðir. Setjið kjúklinginn í eldfast mót. Lækkið hitann á pönnunni, setjið smá olíu eða smjör á pönnuna og steikið púrrulaukinn þar til hann mýkist aðeins, ca. 3 mínútur.

Setjið rjómaostinn, sýrða rjómann, kjúklingatening, hvítlauk og sweet chilli sósuna út á og leyfið að malla aðeins, smakkið til með sweet chilli sósunni. Bætið örlitlu vatni saman við sósuna ef ykkur finnst hún of þykk. Stráið rifna ostinum yfir kjúklingabitana og hellið sósunni því næst yfir. Bakið í ofni við 200 gráður í 15 mínútur eða þar til kraumar í sósunni og hún hefur tekið lit. Berið fram með góðu grænu salati og grjónum.min_IMG_4263

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfaldur kjúklingaréttur, Góður kjúklingaréttur, Hugmyndir fyrir matarboð, Kjúklingaréttir uppskrift, Kjúklingur með sweet chilli sósu, LKL kjúklingur, LKL uppskriftir

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram did not return a 200.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme