• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

Ítalskur matur

Tagliatelle alla carbonara

ágúst 25, 2013 by helenagunnarsd 2 Comments

min_IMG_3836Pasta hefur ekki verið á borðum hér á heimilinu í langan tíma. Það koma þó tímar þegar pasta er það eina sem virkar og virðist einhvernveginn vera það eina rétta í stöðunni. Svona tími var einmitt í gær. Það var rigning, laugardagskvöld, heimilisfólkið dálítið þreytt og eldhús nennan ekkert sérstaklega mikil. Maðurinn minn hefur alveg einstaklega einfaldan smekk þegar kemur að mat og lengi vel var pasta carbonara uppáhaldsmaturinn hans. Ég hef þó ekki eldað carbonara í mjög, mjög langan tíma, sennilega ekki í tvö eða þrjú ár. Enda hefur matarsmekkurinn breyst og maður og kona geta bara ekki borðað pasta í öll mál. Þetta var því dálítið nostalgískt endurkoma carbonara inn á heimilið. Ég mæli eindregið með því að þið prófið að elda þennan einfalda en stórgóða rétt.

min_IMG_3842Tagliatelle alla carbonara (fyrir 3-4):

  • 400 grömm tagliatelle eða spaghetti
  • 1 egg og 4 eggjarauður
  • 100 gr rifinn parmesan ostur
  • 1 dl rjómi
  • Beikon – 1 bréf, ca. 150-200gr, skorið í litla bita
  • 1/4 tsk múskat
  • Sjávarsalt og nýmalaður pipar (ég nota hvítan pipar í þennan rétt)
  • Handfylli fersk steinselja, söxuð

Aðferð: Byrjið á að sjóða vatn í stórum potti og setjið pastað útí. Sjóðið samkvæmt leiðbeiningum þar til pastað er al dente. Á meðan pastað sýður, hitið frekar stóra pönnu og steikið beikonið þar til það er stökkt. Hrærið eggið, eggjarauðurnar, rjómann, parmesan (skiljið smá eftir til að strá yfir í lokin), múskat og pipar saman í skál. Þegar pastað er tilbúið, takið þá einn bolla frá af pastavatninu og hellið vatninu svo af pastanu.

Slökkvið undir beikonpönnunni, hellið pastanu yfir beikonið og því næst eggjablöndunni. Passið að taka pönnuna af hitanum og blandið öllu vel saman. Þynnið sósuna með pastavatninu eftir smekk. Kryddið með salti ef þarf, nýmöluðum pipar og stráið yfir steinselju og meiri parmesan osti. Mér finnst ansi frískandi að bera réttinn fram með sítrónubátum og kreista smá yfir pastað, lyftir bragðinu upp á aðeins hærra plan. Njótið með góðu rauðvínsglasi og kertaljósi!min_IMG_3838

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Carbonara, Carbonara sósa, Fljótlegur matur, Góður pastaréttur, Ítalskur matur, Ódýr matur, Pasta carbonara, pasta uppskrift, Spaghetti carbonara

Mozarella og tómatar – Insalata caprese

ágúst 12, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_3192Ég held að ég geti sagt að eftirfarandi uppskrift (sem er eiginlega ekki hægt að kalla uppskrift) sé einn af mínum uppáhaldsréttum. Svona þegar kemur að einfaldleika, góðu hráefni og fljótlegheitum. Þetta er samsetning sem getur ekki klikkað. Það er svo mikilvægt þegar svona fá hráefni eiga að fá að standa fyrir sér sem forréttur, máltíð, smáréttur eða meðlæti, að allt sé gott sem í réttinn fer. Mozarella osturinn þarf að vera ferskur, mér finnst þessi íslenski alveg afbragðsgóður en vilji menn vera flottir á því veit ég að ítalska sælkeraverslunin Piccolo Italia á Laugaveginum selur stundum ekta ítalskan buffalo mozarella. Það er aldrei að vita nema maður skelli sér á svoleiðis einn daginn.

Nú og svo þurfa tómatarnir að vera eldrauðir og ekki kaldir úr ísskáp. Það er langbest – eiginlega skylda, að geyma tómata alltaf við stofuhita. Ég nota tómata það mikið að ég er með stóra skál við hliðina á eldavélinni sem er oftast full af tómötum. Þegar ég kaupi nýja tómata set ég þá neðst í skálina og nota þá sem eldri eru. Ég geymi kirsjuberja-, piccolo-, plómutómata og ”venjulega” íslenska tómata við þessar aðstæður, sumsé alla tómata. Þeir eru svo margfalt betri á bragðið fái þeir að þroskast og roðna við stofuhita. Það er svo alveg klassískt að nota basil í svona tegund af salati, ég geri það oftast en í þetta skiptið notaði ég glænýtt heimaræktað klettasalat sem mér finnst líka passa vel í salatið. Mér þykir svo best að hella yfir góðri jómfrúar ólífuolíu, balsamikediki og strá svo yfir sjávarsalti og nýmöluðum pipar. Einfaldleikinn er oft svo dásamlegur!

min_IMG_3189Insalata caprese:

  • 1 kúla mozarella ostur
  • 2-3 vel þroskaðir fremur stórir tómatar
  • Nokkur blöð af klettasalati eða basil
  • 2 msk ólífuolía
  • 1 msk balsamikedik
  • Sjávarsalt og pipar

Aðferð: Mozarella og tómatar skornir í jafn þykkar sneiðar. Klettasalatið lagt á disk, tómata og mozarellasneiðum raðað ofan á til skiptis. Ólífuolíu og balsamikediki sáldrað yfir ásamt pipar og salti. Borið fram strax. Stundum ber ég salatið fram sem fljótlega máltíð, þá hef ég gjarnan með því hráskinku og avacadosneiðar – það er líka mjög gott.min_IMG_3191

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfalt salat, Fljótlegur forréttur, Forréttur, Góðir smáréttir, Insalata caprese, Ítalskur matur, LKL uppskrift, Mozarella og tómatasalat, Smáréttur

Lasagne alla Bolognese

mars 5, 2013 by helenagunnarsd 2 Comments

IMG_1208Það kemur sífellt betur í ljós hversu mikilvægt það er að elda matinn sem við borðum frá grunni. Ég er reyndar vön því frá mínu æskuheimili að fjölbreyttur matur var alltaf á borðum og hann ætíð eldaður frá grunni. Unnar kjötvörur, pakkamatur og tilbúnir réttir heyrðu allavega til undantekninga og þannig er það ennþá. Það vefst því ekki mjög mikið fyrir mér nú þegar ég sé sjálf um mest alla eldamennsku að gera slíkt hið sama á mínu heimili. Að elda mat frá grunni er hvorki tímafrekt né flókið. Þetta er sennilega bara spurning um vana eins og með svo margt annað. Við þurfum svo ekkert að ræða hvað útkoman er miklu betri þegar við útbúum matinn sjálf og vitum nákvæmlega hvaða hráefni fór í hann.

Að venjast á að góðan og hollan mat sé auðvelt að elda heima við og að þekkja hvaða hráefni við notum í matinn, þykir mér vera eitt af því mikilvægasta sem ég kenni syni mínum. Við erum ekki á neinu sérstöku heilsufæði og erum svo heppin að vera ekki með ofnæmi eða þurfa að forðast einhverja fæðu svo við getum leikið okkur heilmikið með ýmis hráefni. Það er bara svo sorglegt þegar sjö ára börn þekkja ekki muninn á lauk og gulrót og vita ekki að það eru ekki til ”franska kartöflu tré”. Hafandi skrifað þetta vil ég taka fram að við erum ekki fullkomin og myndi ég seint halda því fram. Ég viðurkenni fúslega að einstaka pylsa og frönsk kartafla rata á okkar matardiska.. en það er líka undantekningin sem sannar regluna eins og einhver sagði.

IMG_1176Hafandi rausað þetta langar mig að gefa ykkur uppskrift að lasagna sem ég mallaði á dögunum. Þeir sem fylgjast með Eldhúsperlum á Facebook hafa eflaust séð þennan glænýja fagur rauða pott sem mér áskotnaðist á dögunum. Að sjálfsögðu gat ég ekki sleppt því að elda bolognese sósuna sem fór í lasagnað í þessum potti og er ekki frá því að bragðið hafi verið allt annað og betra fyrir vikið. Þessi kjötsósa er frekar klassísk bolognese kjötsósa og mætti vel nota hana sem slíka út á spaghetti. Ég bjó hins vegar til lasagna úr henni að ósk sonarins.

Ég hef ekki tölu á því hversu margar útgáfur af bolognese sósum ég hef mallað gegnum tíðina. Allt frá því að steikja hakk á pönnu og hella yfir tilbúinni sósu úr krukku, yfir í að elda sósuna úr úrvals hráefni og leyfa henni að malla í margar klukkustundir. Mig hefur lengi dreymt um að gera þessa ítölsku kjötsósu frá Ragnari, The doctor in the kitchen. Hans útgáfa kemst sennilega nær hinni upprunalegu uppskrift að bolognese kjötsósu en mín uppskrift. Ef sú uppskrift er þá til. Annars er ég ekkert svo vel að mér í sögu ítalskra kjötsósa.. Ég hef þó komist að því að galdurinn að baki ómótstæðilegri kjötsósu er að setja rauðvín út í hana, oggupínulítinn matreiðslurjóma til að vega upp á móti sýrunni í tómötunu og leyfa henni svo að malla helst í tvær klukkustundir. Svo er auðvitað fullt annað hægt að gera til að hún verði góð. En þetta er svona einfalda leiðin og ég held ég geti bara sagt að hún svínvirkar!

Lasagne Bolognese (Fyrir 5-6):

  • 3-4 skallottu laukar
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 stór gulrót
  • 1 grein rósmarín (eða 1 tsk þurrkað)
  • 600 grömm hreint ungnautahakk
  • 1 msk tómatpúrra
  • 1 rauðvínsglas (2,5 dl)
  • 5 vel þroskaðir tómatar
  • 1 krukka hakkaðir tómatar (eða tvær dósir, ég nota þessa lífrænu í glerkrukkunni frá Sollu)
  • 1/2 dl matreiðslurjómi
  • Ólífuolía
  • Smakkað til með sjávarsalti, nýmöluðum svörtum pipar og örlitlu hunangi, eða annari sætu
  • Ferskar lasagna plötur (eða þurrkaðar)
  • 1 stór dós kotasæla
  • 3 msk rifinn parmesan ostur
  • ca 1/4 tsk múskat
  • 2-3 lúkur rifinn ostur til að setja yfir í lokin

IMG_1181Aðferð: Steikið smátt saxaða gulrót, lauk og hvítlauk í um það bil 2 msk af ólífuolíu við meðalhita í um 2-3 mínútur. Hækkið þá hitann og setjið hakkið út á. Steikið þar til hakkið hefur brúnast. Bætið þá tómatpúrru og rósmarín út í og hellið rauðvíninu yfir. Leyfið því að sjóða niður og skrapið botninn á pottinum með sleifinni. Bætið út í söxuðum ferskum tómötum og tómötunum úr krukkunni, skolið krukkuna að innan með ca 2 dl af vatni og hellið því líka út í ásamt matreiðslurjómanum. IMG_1184Látið suðuna koma upp. Lækkið svo hitann og leyfið þessu að malla með lokinu á til hálfs í a.m.k 1,5 klst, helst 2 klst. Sósan þykknar og verður dásamlega góð við svona langa eldun. Smakkið til með salti og pipar og sætu ef ykkur finnst þurfa.

Page_1Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Hrærið saman kotasælu, múskat og 3 msk af parmesan osti. Setjið lasagnað saman þannig að á botninn í eldföstu móti fer smá kjötsósa, þá lasagna blöð, kotasæla og aftur kjötsósa. Endurtakið þar til allt er búið og endið á kotasælu og kjötsósu. Setjið dálítinn rifinn ost yfir og bakið við 170 gráður í um 25 mínútur (lengur ef þið notið þurrkaðar lasagna plötur). IMG_1192IMG_1198Berið fram með grænu salati, rauðvínsglasi og rifnum parmesan osti. Lokið augunum og þið farið beint til Ítalíu..

 

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Bolognese sósa, Ítalskur matur, Ítölsk kjötsósa, Lasagna, Lasagna uppskrift

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram did not return a 200.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme