Lasagne alla Bolognese

IMG_1208Það kemur sífellt betur í ljós hversu mikilvægt það er að elda matinn sem við borðum frá grunni. Ég er reyndar vön því frá mínu æskuheimili að fjölbreyttur matur var alltaf á borðum og hann ætíð eldaður frá grunni. Unnar kjötvörur, pakkamatur og tilbúnir réttir heyrðu allavega til undantekninga og þannig er það ennþá. Það vefst því ekki mjög mikið fyrir mér nú þegar ég sé sjálf um mest alla eldamennsku að gera slíkt hið sama á mínu heimili. Að elda mat frá grunni er hvorki tímafrekt né flókið. Þetta er sennilega bara spurning um vana eins og með svo margt annað. Við þurfum svo ekkert að ræða hvað útkoman er miklu betri þegar við útbúum matinn sjálf og vitum nákvæmlega hvaða hráefni fór í hann.

Að venjast á að góðan og hollan mat sé auðvelt að elda heima við og að þekkja hvaða hráefni við notum í matinn, þykir mér vera eitt af því mikilvægasta sem ég kenni syni mínum. Við erum ekki á neinu sérstöku heilsufæði og erum svo heppin að vera ekki með ofnæmi eða þurfa að forðast einhverja fæðu svo við getum leikið okkur heilmikið með ýmis hráefni. Það er bara svo sorglegt þegar sjö ára börn þekkja ekki muninn á lauk og gulrót og vita ekki að það eru ekki til “franska kartöflu tré“. Hafandi skrifað þetta vil ég taka fram að við erum ekki fullkomin og myndi ég seint halda því fram. Ég viðurkenni fúslega að einstaka pylsa og frönsk kartafla rata á okkar matardiska.. en það er líka undantekningin sem sannar regluna eins og einhver sagði.

IMG_1176Hafandi rausað þetta langar mig að gefa ykkur uppskrift að lasagna sem ég mallaði á dögunum. Þeir sem fylgjast með Eldhúsperlum á Facebook hafa eflaust séð þennan glænýja fagur rauða pott sem mér áskotnaðist á dögunum. Að sjálfsögðu gat ég ekki sleppt því að elda bolognese sósuna sem fór í lasagnað í þessum potti og er ekki frá því að bragðið hafi verið allt annað og betra fyrir vikið. Þessi kjötsósa er frekar klassísk bolognese kjötsósa og mætti vel nota hana sem slíka út á spaghetti. Ég bjó hins vegar til lasagna úr henni að ósk sonarins.

Ég hef ekki tölu á því hversu margar útgáfur af bolognese sósum ég hef mallað gegnum tíðina. Allt frá því að steikja hakk á pönnu og hella yfir tilbúinni sósu úr krukku, yfir í að elda sósuna úr úrvals hráefni og leyfa henni að malla í margar klukkustundir. Mig hefur lengi dreymt um að gera þessa ítölsku kjötsósu frá Ragnari, The doctor in the kitchen. Hans útgáfa kemst sennilega nær hinni upprunalegu uppskrift að bolognese kjötsósu en mín uppskrift. Ef sú uppskrift er þá til. Annars er ég ekkert svo vel að mér í sögu ítalskra kjötsósa.. Ég hef þó komist að því að galdurinn að baki ómótstæðilegri kjötsósu er að setja rauðvín út í hana, oggupínulítinn matreiðslurjóma til að vega upp á móti sýrunni í tómötunu og leyfa henni svo að malla helst í tvær klukkustundir. Svo er auðvitað fullt annað hægt að gera til að hún verði góð. En þetta er svona einfalda leiðin og ég held ég geti bara sagt að hún svínvirkar!

Lasagne Bolognese (Fyrir 5-6):

 • 3-4 skallottu laukar
 • 2 hvítlauksrif
 • 1 stór gulrót
 • 1 grein rósmarín (eða 1 tsk þurrkað)
 • 600 grömm hreint ungnautahakk
 • 1 msk tómatpúrra
 • 1 rauðvínsglas (2,5 dl)
 • 5 vel þroskaðir tómatar
 • 1 krukka hakkaðir tómatar (eða tvær dósir, ég nota þessa lífrænu í glerkrukkunni frá Sollu)
 • 1/2 dl matreiðslurjómi
 • Ólífuolía
 • Smakkað til með sjávarsalti, nýmöluðum svörtum pipar og örlitlu hunangi, eða annari sætu
 • Ferskar lasagna plötur (eða þurrkaðar)
 • 1 stór dós kotasæla
 • 3 msk rifinn parmesan ostur
 • ca 1/4 tsk múskat
 • 2-3 lúkur rifinn ostur til að setja yfir í lokin

IMG_1181Aðferð: Steikið smátt saxaða gulrót, lauk og hvítlauk í um það bil 2 msk af ólífuolíu við meðalhita í um 2-3 mínútur. Hækkið þá hitann og setjið hakkið út á. Steikið þar til hakkið hefur brúnast. Bætið þá tómatpúrru og rósmarín út í og hellið rauðvíninu yfir. Leyfið því að sjóða niður og skrapið botninn á pottinum með sleifinni. Bætið út í söxuðum ferskum tómötum og tómötunum úr krukkunni, skolið krukkuna að innan með ca 2 dl af vatni og hellið því líka út í ásamt matreiðslurjómanum. IMG_1184Látið suðuna koma upp. Lækkið svo hitann og leyfið þessu að malla með lokinu á til hálfs í a.m.k 1,5 klst, helst 2 klst. Sósan þykknar og verður dásamlega góð við svona langa eldun. Smakkið til með salti og pipar og sætu ef ykkur finnst þurfa.

Page_1Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Hrærið saman kotasælu, múskat og 3 msk af parmesan osti. Setjið lasagnað saman þannig að á botninn í eldföstu móti fer smá kjötsósa, þá lasagna blöð, kotasæla og aftur kjötsósa. Endurtakið þar til allt er búið og endið á kotasælu og kjötsósu. Setjið dálítinn rifinn ost yfir og bakið við 170 gráður í um 25 mínútur (lengur ef þið notið þurrkaðar lasagna plötur). IMG_1192IMG_1198Berið fram með grænu salati, rauðvínsglasi og rifnum parmesan osti. Lokið augunum og þið farið beint til Ítalíu..

 

Auglýsingar

2 athugasemdir við “Lasagne alla Bolognese

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s