Við fjölskyldan erum búin að vera endalausu dekri og góðum mat í hverri veislunni á fætur annarri núna yfir jólin og ég hef ekki eldað kvöldmat hérna heima fyrir okkur þrjú sennilega í tíu daga. Fyrir jólin keypti ég kalkúnabringu sem ég ætlaði alltaf að hafa einhvert kvöldið en vegna veislna og huggulegheita komst það ekki inn í prógramið. Þetta var frekar lítil bringa, rétt tæpt kíló svo þrátt fyrir að við værum bara þrjú í kvöld ákvað ég að nú yrði ég að elda hana eða frysta/henda henni. Bringan hefði þó vel dugað fyrir 4-6 þannig að við eigum ansi vænan afgang. Svo að, til að gera langa sögu stutta.. útkoman varð eiginlega mini-áramóta veisla hjá okkur þremur.
Ég var lengi að velta fyrir mér hvernig fyllingu væri best að setja í bringuna og eftir að hafa skoðað nokkrar uppskriftir endaði ég á þessari. Uppistaðan er aðallega grænmeti, smá beikon og svo brauðraspur/mylsna. Fyllingin heppnaðist svo vel að það var ekki mikið talað við matarborðið heldur meira svona ummað og smjattað og var sá 4 ára engin undantekning þar. Það er alveg upplagt að elda svona kalkúnabringu í hátíðar eða áramótamatinn og sennilega mun einfaldara en að elda heilan kalkún. Mæli eindregið með að þið prófið þetta.
Fyllt kalkúnabringa – (fyrir 4-6):
- Kalkúnabringa, um 1 kg.
Fylling:
- 5 sneiðar beikon
- 1 bakki sveppir
- 3 meðalstórir skallottulaukar
- 2 stönglar sellerí
- 1 epli
- 2 tsk Best á kalkúninn kryddblanda
- 1 askja Philadelphia light rjómaostur
- 3 msk gráðostur
- 2 msk fljótandi kalkúnakraftur og 2 dl vatn.
- 1,5 bolli brauðmylsna
- 50 gr. smjör
- 1 msk þurrkuð steinselja (eða fersk)
- Safi úr einni sítrónu
Aðferð:
Ofn er hitaður í 160 gráður með blæstri. Panna hituð og smjörið brætt. Beikon, sveppir, laukur, epli og sellerí er allt skorið í frekar grófa teninga og steikt upp úr smjörinu ásamt 2 tsk af kalkúnakryddinu, smá salti og pipar.
Því næst er vatninu, kraftinum, gráðostinum og rjómaostinum bætt út á og brætt saman við. Brauðmylsnan er sett síðust. Allt hrært vel saman og svo sett í matvinnsluvél ásamt steinseljunni og sítrónusafanum og unnið létt saman, þó þannig að það séu smá bitar í fyllingunni.
Mér þykir þessi létti rjómaostur mjög góður og betri en sá hefðbundni það má þó alveg nota íslenskan rjómaost eða hefbundinn Philadelphia.
Því næst er vatninu, kraftinum, gráðostinum og rjómaostinum bætt út á og brætt saman við. Brauðmylsnan er sett síðust. Allt hrært vel saman og svo sett í matvinnsluvél ásamt steinseljunni og sítrónusafanum og unnið létt saman, þó þannig að það séu smá bitar í fyllingunni. Á myndinni hér fyrir ofan er brauðmylsnan sem ég notaði, þetta er bara venjuleg mylsna, nema að það eru einhver krydd líka í henni líka. Ég fékk þennan poka í Kosti.
Þegar fyllingin er tilbúin er kalkúnbringan þerruð og skorin þannig að hægt sé að fylla hana. Mér finnst best að leggja hana á fituhliðina og skera í hana eins og ég sé að opna bók..? Allavega þarf það að vera þannig að hægt sé að setja fyllinguna á hana og rúlla henni svo upp.
Ég stráði smá kalkúnakryddi á bringuna og setti svo um það bil 1/3 af fyllingunni á hana.
Gott að skilja eftir smá brún við endan svo að fyllingin haldist inni í rúllun
Svo er bringunni bara rúllað upp, ekki láta útlitið á fyllingunni blekkja ykkur krakkar, fyllingar hafa aldrei myndast vel. Ég lofa að hún bragðast jafn vel og hún myndast illa 😉
Þegar bringunni hefur verið tjaslað saman batt ég hana saman með svona bómullarbandi.
Setti hana svo í eldfast mót, bar smá ólífuolíu á hana, salt og pipar og inn í ofn í þar til hún var komin í 72 gráður. Galdurinn er að elda hana alls ekki of lengi svo það er um að gera að taka hana út eftir um 50 mínútur og mæla hitann. Bringan var í 65 mínútur að eldast hjá mér. Ég hækkaði hitann í 180 gráður síðustu 10 mínúturnar til að fá góðan lit. Afganginn af fyllingunni setti ég í formið hjá kalkúnabringunni og eldaði með, tók bara enga mynd af því..
Leyfið kjötinu að hvíla sig í svona 10 mínútur við stofuhita áður en þið skerið það.
Ég bar þetta fram með pönnusteiktun kartöflu- og sellerírótarteningum, einföldu kirsuberjatómatasalati, fyllingunni, sósu og fínasta rauðvínsglasi. Þetta var ljúffengt, kjötið mjög safaríkt en fyllingin samt aðalstjarnan !