• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

Kjúklingalæri uppskrift

Chilli og sítrónu kjúklingur með marokkósku kúskús salati, möndluflögum og apríkósum

nóvember 4, 2013 by helenagunnarsd 2 Comments

min_IMG_4540Ég hef játað mig sigraða og verð nú að horfast í augu við myrkur á kvöldmatartíma. Þar sem ég hef ekki tök á að elda mat eða baka á daginn nema einstaka sinnum er þetta óhjákvæmlegur fylgifiskur vetrarins. Mér þykir bara svo gaman að deila með ykkur uppskriftum þegar vel tekst til að ég læt mig hafa það að mynda matinn undir eldhúsljósunum. Þið harkið bara af ykkur. Þessi kjúklingaréttur flokkast sannarlega undir mat sem tókst vel. Sunna systir sagði mér á dögunum frá kjúklingarétti sem hún hafði fengið hjá vinkonu sinni, rétturinn var svo góður að hún hafði ekki getað hætt að hugsa um hann.

min_IMG_4538Það er skemmst frá því að segja að aðeins eru nokkrir dagar síðan hún sagði mér frá réttinum en samt er ég búin að elda hann tvisvar. Þetta er nýjasta æðið! Ég get svo svarið það. Rétturinn er ótrúlega einfaldur en galdurinn er marineringin á hann. Chillimaukið Sambal oelek blandað saman við dijon sinnep og sítrónu er hættulega góð samsetning og eiginlega ávanabindandi. Ég get því ekki annað en þakkað Árdísi vinkonu fyrir hugmyndina að snilldarmarineringu á kjúkling og mælt með því að þið prófið. Ég bjó til marokkóskt kúskús salat sem meðlæti í þetta skiptið sem mér fannst smellpassa við bragðmikinn kjúklinginn.

Kjúklingurinn (fyrir 5):

  • 1 kg úrbeinuð kjúklingalæri
  • 2 msk Sambal oelek chillimauk
  • 1 msk dijon sinnep (ég notaði hunangsdijon og venjulegt til helminga)
  • 2 msk ólífuolía
  • 1 tsk gott sjávarsalt
  • Nýmalaður svartur pipar
  • 3 msk fetaostur
  • 1 sítróna skorin í báta

Aðferð: Hitið ofn í 200 gráður. min_IMG_4522Hærið saman chillimauki, dijon sinnepi, ólífuolíu, salti og pipar. Makið þessu vel á kjúklingalærin og leggið þau í eldfast mót. Stingið sítrónubátum inn á milli kjúklingabitanna, stráið fetaostinum yfir og bakið í 30 mínútur. Á meðan kjúklingurinn er í ofninum gerið þið svo kúskúsið tilbúið. min_IMG_4530

Kúskús og meðlætið:

  • 200 gr kryddað kúskús
  • 10 þurrkaðar apríkósur
  • 50 gr ristaðar möndluflögur
  • 2 tómatar skornir í grófa bita
  • 1 lítill rauðlaukur skorinn í þunnar sneiðar
  • 1/2 rauður chilli smátt skorinn
  • Ferskt saxað kóríander eða steinselja til skrauts (má sleppa)

Aðferð: Eldið kúskúsið skv. leiðbeiningum á pakkanum. min_IMG_4519Ég hellti því bara í eldfasta mótið sem ég notaði til að bera matinn fram, stráði apríkósunum yfir og hellti sjóðandi heitu vatni þar til rétt flaut yfir. min_IMG_4524min_IMG_4526Ristið möndluflögurnar á þurri pönnu en gætið þess að brenna þær ekki. Hafið pönnuna á meðalhita. min_IMG_4527Þegar kúskúsið er tilbúið, hrærið það upp með gaffli og stráið möndlunum yfir. min_IMG_4528Leggið kjúklingalærin ofan á kúskúsið, hellið soðinu úr fatinu yfir og kreistið bakaðar sítrónurnar líka yfir. min_IMG_4533Dreifið tómatabitunum og rauðlauknum yfir að lokum og stráið e.t.v yfir ferskum kóríander eða steinselju, möndluflögum, chilli og smá fetaosti.min_IMG_4537Berið fram og njótið !

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Chilli kjúklingur, Einfaldur kjúklingur, Góður kjúklingaréttur, Kjúklingalæri uppskrift, Kjúklingur, Kúskús salat, Marokkóskur kjúklingur

Tómat- karrý kjúklingur

september 4, 2013 by helenagunnarsd 9 Comments

min_IMG_3934

Ég var svolítið tvístígandi að setja þessa uppskrift hingað inn. Ég get allavega seint kallað þetta mína uppskrift og ég veit svei mér þá ekki hvaða hugmyndin kemur. Ég fékk þennan rétt í fyrsta skipti í matarboði fyrir mörgum, mörgum árum og hann er svo góður að maður gleymir honum ekki. Það eiga því trúlega margir uppskriftina að þessum ótrúlega einfalda en hrikalega góða rétti. En ef ekki, þá er hún hér, á silfurfati með myndum, fyrir ykkur því ég veit fátt skemmtilegra en að gleðja ykkur með góðum uppskriftum! Það er nógu góð ástæða fyrir birtingu uppskriftarinnar að mínu mati. Svo finnst mér alveg ótrúlegt en gríðarlega skemmtilegt að segja frá því að þessi uppskrift er númer 100 á síðunni! Tíminn sannarlega flýgur þegar það er gaman 🙂 Nú, en að matnum, þeir sem eru sjóaðir í framandi matreiðslu, steytingu krydda, hafa skömm á tilbúnum sósum og vilja alltaf útbúa mat frá grunni ættu kannski að hætta að lesa núna. Uppskriftin er afar einföld, sérstaklega fljótleg en útkoman er eins og maður hafi staðið í eldhúsinu tímunum saman. Ungir jafnt sem aldnir sleikja sósuna af fingrunum svo góð er hún. Prófið þessa !

min_IMG_3919

Tómat karrý kjúklingabitar (fyrir 5):

  • 1 flaska Heinz chillisósa
  • 3 tsk gott karrý, t.d frá Pottagöldrum
  • 1 tsk nýmalaður svartur pipar og smá salt
  • 2 bakkar kjúklingabitar ca. 1.5 kg (t.d leggir og læri) eða einn heill kjúklingur hlutaður niður
  • 1 peli rjómi eða 2,5 dl góð kókosmjólk
  • Saxað fersk kóríander eða steinselja

min_IMG_3906Aðferð: Blandið saman chillisósu, karrý og pipar og hellið í stórt fat. Skolið kjúklingabitana, þerrið vel og skerið 2-3 djúpar rákir í hvern bita svo sósan fari vel inn í kjötið. Veltið bitunum upp úr sósunni og látið standa í 10-15 mínútur, stráið dálitlu sjávarsalti yfir bitana. Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Setjið kjúklingabitana í ofninn og bakið í 30 mínútur. Takið þá fatið út og hellið rjómanum eða kókosmjólkinni yfir og bakið í 30 mínútur til viðbótar. min_IMG_3915Stráið söxuðu kóríander eða steinselju yfir og berið fram með góðum hrísgrjónum og fersku salati. min_IMG_3929

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Besti kjúklingarétturinn, Fljótlegur matur, Góður kjúklingaréttur, Kjúklingaleggi uppskrift, Kjúklingalæri uppskrift, Kjúklingaréttur, Kjúklingur í tómat- karrý

Kjúklingalæri með hunangs- sítrónu- og sinneps gljáa

mars 3, 2013 by helenagunnarsd 3 Comments

IMG_1160Ég hef verið áskrifandi að tímaritinu Good Food í nokkur ár og haft mikið gaman að. Þetta tímarit er gefið út af BBC og hefur sannarlega afsannað þá kenningu að bretar séu lélegir kokkar. Ég ákvað þó núna um áramótin að hætta áskrift að blaðinu þar sem mér fannst uppskriftirnar orðnar heldur einsleitar og ég var bara eiginlega komin með leið á þessu blaði. Ég leita því núna logandi ljósum að nýju tímariti til að gerast áskrifandi að, því þó það sé gaman að fara út í bókabúð og velja sér matar tímarit jafnast ekkert á við að fá eitt brakandi nýtt sent í pósti einu sinni í mánuði. Það er auk þess ódýrara en að kaupa sér blað mánaðarlega. Ég er að hugsa um að gerast áskrifandi að einu uppáhalds tímaritinu mínu Bon Appetit, ætli ég láti ekki bara slag standa..

Ég var sumsé að fletta í gegnum gömul Good Food tímarit um helgina og rakst oftar en einu sinni á einhverskonar hunangs- sinneps- sítrónu ofnbakaða kjúklingabita. Það varð því úr að ég varð að elda eitthvað slíkt í kvöldmat á þessu bjarta og fallega sunnudagskvöldi. Rétturinn var alveg frábær og bragðið unaðslegt. Virkilega góður og fljótlegur réttur sem ég bar fram með grófri kartöflumús og góðu grænu salati.

Uppskrift:

  • 8 kjúklingalæri
  • 2 msk ólífuolía
  • 3 msk grófkorna sinnep
  • 2 msk hunang
  • 1 sítróna
  • 1 hvítlauksrif
  • Salt (ca. 1 tsk gróft sjávarsalt) og piparIMG_1138

Aðferð: Hitið ofn í 180 gráður með blæstri. Byrjið á að snyrta kjúklingalærin og skera frá umfram fitu. Setjið lærin í rennilása plastpoka. Setjið olíu, sinnep og hunang í skál. Rífið börkinn af 1/2 sítrónunni og kreistið allann safann úr henni út í skálina. Rífið hvítlauksrifið eða smátt saxið það saman við. Kryddið með salti og pipar. Hellið helmingnum af marineringunni yfir lærin í pokanum og veltið þeim vel upp úr vökvanum. Leyfið að standa við stofuhita í um 15 mínútur.

IMG_1140Hellið kjúklingalærunum í eldfast mót og látið skinn hliðina snúa niður. Setjið inn í ofn í 10 mínútur. Takið þá úr ofninum og snúið lærunum við. Hellið restinni af marineringunni yfir kjúklinginn og bakið í 20 mínútur til viðbótar. Ef til vill má auka hitann í 220 gráður undir lokin til að fá stökka húð á kjúklinginn. IMG_1166Berið fram með kartöflumús, salati og umfram sósunni sem kemur af kjúklingnum og marineringunni.. Þetta var alveg ofboðslega gott !

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Fljótleg kjúklingauppskrift, Góður kjúklingaréttur, Hunangs kjúklingur, Kjúklingalæri uppskrift

Bóndadags kjúklingur í ólífu og bjórsósu með ofnbökuðum rósmarínkartöflum

janúar 24, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

IMG_0327Eins og svo margir sennilega, erum við Heimir miklir nautnaseggir, það er alveg óþarfi að fara leynt með það. Okkur finnst fátt betra á heitum sumardögum en að fá okkur ískaldan bjór og gæða okkur á grænum ólífum með. Það er svona ekta Spánarstemning. Ólífur og bjór er samsetning sem klikkar seint. Þ.e.a.s ef manni finnast ólífur góðar og drekkur bjór. Og þó, ég er ekki einu sinni viss um að manni þurfi að finnast þessir hlutir góðir í sitthvoru lagi til að finnast þessi samsetning góð.

Eftir þessar bjór og ólífupælingar mínar ákvað ég því að taka bóndadaginn snemma í ár og mallaði þennan dásamlega góða kjúklingarétt sem samanstendur, jú einmitt, að miklu leyti af ólífum og bjór. Þessi réttur er án efa á topp 5 listanum okkar yfir gómsæta kjúklingarétti, ef ekki bara í efsta sæti. Það er alls ekki bjórbragð af sósunni en bjórinn gefur alveg ofsalega gott bakgrunnsbragð. Ég notaði kjúklingalæri í þennann rétt því það er svo gott að leyfa honum að malla lengi og ég er ekki viss um að bringur myndu þola svoleiðis meðferð jafn vel og lærin. Auk þess eru lærin bæði ódýr og einstaklega ljúffeng í svona rétti og ég ætla ekkert að réttlæta þetta læraval mitt neitt frekar, þetta var rétt ákvörðun!

Það er mjög gott að bera þennann rétt fram með þessum rósmarínkartöflubátum en vegna þess að sósan er svo góð er áreiðanlega ekki síðra að bera réttinn fram með brauði til að moppa sósuna upp með 🙂

Rósmarínkartöflur:

  • 3 bökunarkartöflur
  • Salt, pipar, rósmarín og ólífuolía

IMG_0318

Aðferð:

Kartöflurnar skornar í frekar þunna báta. Settar á smjörpappírsklædda bökunarplötu. Ólífuolíu hellt yfir og kryddaðar með salt, pipar og rósmarín. Bakað í 200 gráðu heitum ofni í 40 mínútur. (Ég byrjaði á að gera kartöflurnar og setti kjúklinginn svo inn í ofn með kartöflunum þegar þær höfðu verið í 10 mínútur í ofninum. Þá er allt tilbúið á sama tíma)

Kjúklingur í ólífu- og bjórsósu (fyrir 3 – 4):

  • 5 kjúklingalæri
  • 1 laukur, frekar smátt saxaður
  • 1 krukka hakkaðir tómatar (ég nota frá Sollu, finnst þeir langbestir)
  • 1 lítill bjór (tæpur, það má taka frá svona 2-3 sopa)
  • 1 lítil krukka grænar fylltar ólívur
  • 1 dl rjómi
  • 1/2 kjúklingateningur
  • 3 litlir vorlaukar, smátt saxaðir.

Aðferð:

Ofn hitaður í 200 gráður. Byrjið á því að snyrta kjúklingalærin vel og þerra þau með pappír. Ég sker alltaf vel af fitunni frá sem er ”aftaná” lærinu. Hitið pönnu og setjið örlítið af olíu eða smjöri á hana. Saltið og piprið kjúklinginn vel og brúnið á pönnunni á báðum hliðum. Takið kjúklinginn af pönnunni og geymið á diski. Ef mikil fita hefur farið af kjúklingnum á pönnuna er gott að hella aðeins af henni. Laukurinn er svo steiktur á sömu pönnu þar til hann mýkist aðeins. Því næst er tómötunum, bjórnum, kjúklingateningnum og ólívunum hellt út á. Leyft að malla aðeins og sjóða niður í ca. 5 mínútur á góðum hita og smakkað til með salt og pipar. Kjúklingalærin eru svo sett út í sósuna og rjómanum hellt yfir.

Ég setti pönnuna svo inn í 200 gráðu heitan ofn og leyfði þessu að malla þar í 30 mínútur. Ef þið eigið ekki pönnu sem má fara inn í ofn má einfaldlega hella sósunni í eldfast mót og raða kjúklingalærunum svo þar ofan á og svo inn í ofn. Þegar rétturinn er tekinn úr ofninum er vorlauknum stráð yfir. Þetta er svo að sjálfsögðu borið fram með ísköldum bjór.IMG_0328

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Bjórsósa, Góður kjúklingaréttur, Kartöflubátar, Kjúklingalæri, Kjúklingalæri uppskrift, Kjúklingur í bjórsósu, Ofnbakaðir kartöflubátar, Ofnbakaður kjúklingur, Ólífur, Rósmarín

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram did not return a 200.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme