Nú nálgast óðfluga sá tími að kona býr ekki lengur við þann lúxus að geta myndað kvöldmatinn í dagsbirtu. Ef ég á að segja alveg eins og er, þá hlakka ég ekkert voðalega mikið til þess tíma. Þeir sem hafa myndað mat, vita að dagsbirta er besti vinur fallegra matarmynda. Og þegar maður er ekki áhuga- eða atvinnu ljósmyndari, á tiltölulega einfalda myndavél, kann næstum ekkert í ljósmyndun og á ekki ljósmyndastúdíó, eru félagarnir myrkur og flass ekki bestu vinir manns. Maður einfaldlega tekur ekki myndir af mat með flassi, það er agalegt! Annað hvort þarf ég að fara að elda matinn í hádeginu, finna eitthvað út úr þessu birtuveseni eða einfaldlega taka myndir af matnum undir ljósunum í eldhúsinu hjá mér og vona það besta. Ég hugsa að þið fáið að sjá sitt lítið af hverju á komandi vetri. Ef þið lumið á einhverjum góðum ráðum varðandi þetta lúxusvandamál mitt, þigg ég þau með þökkum.
En þá að uppskrift dagsins. Það má með sanni segja að þessi kjúklingaréttur sé af sparilegri gerðinni. Rjómaostur og sýrður rjómi spilar lykilhutverk í sósunni sem er einstaklega bragðgóð með sætu og mildu chilli og púrrulauksbragði. Rétturinn er til dæmis alveg kjörinn lágkolvetnaréttur, borinn fram með fersku grænu salati eða blómkálsgrjónum. Sweet chilli sósuna er hægt að fá sykurlausa t.d í Krónunni og sennilega víðar. Annars mæli ég nú alveg heilshugar með þessum einfalda og ljúffenga kjúklingarétti fyrir alla og hvet ykkur, kæru vinir til að prófa, þetta er sannkallaður veislumatur.
Freistandi kjúklingur í púrrulauks og sweet chili rjómasósu (fyrir 5):
- 5 kjúklingabringur, skornar í teninga (gúllas stærð)
- 1 púrrulaukur, smátt skorinn
- 2 dósir sýrður rjómi
- 1 lítil dós rjómaostur (125 gr)
- 1 teningur kjúklingakraftur
- 2 hvítlauksrif, smátt söxuð eða rifin
- 4-5 msk sweet chilli sósa (eftir smekk)
- 1 dl rifinn ostur
- Salt og pipar
Aðferð: Hitið ofn í 200 gráður með blæstri. Hitið pönnu með smá smjöri eða olíu, saltið og piprið kjúklingabitana og brúnið þá vel eða þar til þeir eru nánast fulleldaðir. Setjið kjúklinginn í eldfast mót. Lækkið hitann á pönnunni, setjið smá olíu eða smjör á pönnuna og steikið púrrulaukinn þar til hann mýkist aðeins, ca. 3 mínútur.
Setjið rjómaostinn, sýrða rjómann, kjúklingatening, hvítlauk og sweet chilli sósuna út á og leyfið að malla aðeins, smakkið til með sweet chilli sósunni. Bætið örlitlu vatni saman við sósuna ef ykkur finnst hún of þykk. Stráið rifna ostinum yfir kjúklingabitana og hellið sósunni því næst yfir. Bakið í ofni við 200 gráður í 15 mínútur eða þar til kraumar í sósunni og hún hefur tekið lit. Berið fram með góðu grænu salati og grjónum.