Í dag er stutt færsla og stutt uppskrift í stíl. Þrátt fyrir það er ég alveg ægilega spennt að deila þessari uppskrift með ykkur þar sem þetta er einhver besti kjúklingaréttur sem ég hef lengi smakkað. Svo er hann líka alveg einstaklega fljótlegur. Ætli það taki ekki um fimm mínútur að undirbúa hann og svo dansar hann bara alveg sjálfur í ofninum þar til hann er eldaður í gegn. Dijon sinnep er í miklu uppáhaldi hjá mér og ég hef ósjaldan deilt hér uppskriftum með því þar sem ég nota það talsvert mikið í matargerð. Það koma reyndar oft svona tímabil hjá mér varðandi hvaða hráefni ég nota mest og svei mér þá ef það er ekki bara dijon sinnep tímabil núna. Þetta er eiginlega hálfgert leynivopn þegar kemur að matargerð og oft nóg að nota bara agnarlítið af góðu dijon sinnepi til að breyta miklu. Sósan með þessum rétti er alveg ofboðslega góð og ég mæli alveg með því að jafnvel tvöfalda magnið sem fer í hana, sérstaklega ef þið eruð með hrísgrjón með réttinum. Þið verðið að prófa þessa!
- 3 kjúklingabringur
- 3 msk dijon sinnep
- 3 msk sætt mango chutney
- 1 msk rauðvínsedik (má sleppa eða nota t.d 1 msk sítrónusafa)
- 1 tsk þurrkað estragon + aðeins meira til að strá yfir
Aðferð:
Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Leggið kjúklingabringurnar í eldfast mót. Hrærið saman sinnep, mango chutney, rauðvínsedik og estragon, hellið yfir bringurnar og veltið þeim upp úr sósunni. Stráið dálitlu af þurrkuðu estragoni yfir að lokum og bakið í 25 – 30 mínútur. Berið fram t.d með steiktu brokkolíi og hrísgrjónum.