Ó þessir hafrakossar. Þegar Vikan hafði samband við mig og bað mig um að senda inn uppskriftir fyrir matgæðing vikunnar voru þessar dúllur fyrstar að koma upp í hugann. Þetta er svona næstum of gott til að vera satt og getur eiginlega ekki annað en slegið í gegn. Ég fékk hugmyndina að kökunum á síðunni sem bandarísku hjónin Kevin og Amanda halda úti. Þar má oft finna skemmtilegar uppskriftir, fallegar ljósmyndir og hugmyndir að hinu og þessu. Uppskriftirnar á síðunni eiga það hins vegar all flestar sameiginlegt að ekkert er til sparað í smjeri, sykri og öðru fíneríi svo þær flokkast algjörlega undir mat sem fólk ætti ekki að hafa oft á borðum. En maður minn, ef þú vilt gera vel við þig og þína og baka guðdómlegar kökur til að eiga á aðventunni, já þá eru þessar bara málið, ég lofa!
Hafrakossar (Breytt uppskrift frá www.kevinandamanda.com):
- 250 gr mjúkt smjör við stofuhita
- 2 dl púðursykur
- 1 dl sykur
- 1 egg
- 2 tsk vanilluexract
- 3 dl hveiti
- 1 tsk matarsódi
- ½ tsk salt
- ½ tsk kanill
- 6 dl haframjöl (ath ekki grófir hafrar)
Aðferð:
Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Hrærið saman smjör og sykur þar til létt og ljós. Bætið egginu og vanillu út í og blandið vel saman við.
Hrærið saman hveiti, matarsóda, salti og kanil. Bætið út í smjörblönduna og hrærið létt saman. Bætið höfrunum út í og blandið þar til rétt svo komið saman. Setjið deigið með tveimur teskeiðum á plötu, þrýstið aðeins ofan á hverja köku og bakið í 8-10 mínútur. Kælið á grind.
Krem:
- 150 gr smjör
- 250 gr flórsykur
- 2 msk rjómi
- 1 tsk vanilluextract
Aðferð: Þeytið allt vel saman og sprautið eða smyrjið á kældar kökurnar og leggið aðra köku ofan á.