Við erum öll í bollunum þessa dagana. Hingað kom gott fólk í ljómandi notalegt bollu afmæliskaffi í dag og gæddi sér á vatnsdeigsbollum gærdagsins, sem hafði auðvitað verið umbreytt í rjómabollur. Mér fannst nú ekki ganga að bjóða fólkinu eingöngu upp á rjóma og súkkulaði svo ég ákvað að halda mig við bolluþemað og var líka með þessar kotasælubollur á kaffiborðinu. Þær voru virkilega góðar og runnu jafnvel enn hraðar út en systur þeirra með rjómanum.
Það er mjög fljótlegt að skella í svona bollur og ekkert flóknara sem þarf til en skál og sleif og þær þurfa ekkert að lyfta sér. Það er mjög gott að bera fram með þeim t.d osta og niðurskorið grænmeti en einnig finnst mér þær mjög góðar sem meðlæti með súpu.
Kotasælubollur (12 bollur):
- 5 dl spelt (Ég notaði 2 dl fínt og 3 dl gróft)
- 3 tsk vínsteinslyftiduft (eða 2 tsk venjulegt lyftiduft)
- 1 lítil dós kotasæla (u.þ.b 2 dl)
- 1 dl ab mjólk
- 2-2,5 dl sjóðandi heitt vatn (Setjið fyrst 1-2 dl og sjáið svo hvort það þurfi meira vatn þar sem mjöl tekur misvel við vökva)
- 1 msk ólífuolía
- 1 tsk sjávarsalt
- 1 dl sesamfræ
Ofn hitaður í 180 gráður með blæstri. Öllu blandað saman í skál og hrært með sleif þar til rétt blandað saman. Gott getur verið að bæta vatninu smám saman við en ekki öllu í einu. Áferðin á deiginu á að vera eins og þykkur hafragrautur og klístrast við sleifina. Alls ekki hræra lengi.
Búið til 9 stærri eða 12 minni bollur með tveimur matskeiðum og setjið á pappírsklædda bökunarplötu. Ca 1 tsk af sesamfræjum stráð yfir hverja bollu. Þær stækka ekki það mikið að 12 bollur eiga vel að komast fyrir á einni plötu. Bakað í 20 mínútur.