Í Stokkhólmi, og sennilega víðar í Svíþjóð er varla þverfótað fyrir kaffihúsum, krúttlegum bakaríum, kökuhúsum og litlum dúllustöðum þar sem hægt er að setjast niður fá sér kaffisopa og ”fika”, sumsé fá sér eitthvað sætt og gott með kaffinu. Við rákumst inn á eitt slíkt á meðan við vinkonurnar dvöldum í Stokkhólmi um daginn. Þar var meðal annars boðið upp á himneska berjaböku með vanillusósu. Bragðlaukarnir dönsuðu af kæti og ég mundi þá hvað vanillusósa og sænskt sumar er dásamleg blanda. Og ég hugsaði með mér: Af hverju er ekki bara alltaf vanillusósa með öllu? Svo kom ég heim og gleymdi þessu nostalgíuvanillusósukasti mínu þar til ég rakst á uppskrift að rabarbaraköku á sænsku matarbloggi. Vanillusósu minningin kom þá eins og himnasending og ég varð að athuga hvernig vanillusósa færi með slíkri köku. Útkoman var svo góð að ég get ekki annað en deilt gleðinni með ykkur. Svo þykir mér líka bara fátt þjóðlegra en glænýr rabarbari sem virðist spretta undir hverjum húsvegg á landinu nema mínum. Elsku bakið kökuna og gerið vanillusósu með, kakan er reyndar líka æðisleg með þeyttum rjóma.
Rabarbarakaka með marsipani og vanillusósu:
- 3 egg
- 2 dl hrásykur
- 1 tsk vanilluextract
- 100 gr brætt smjör
- 2.5 dl fínmalað spelt eða hveiti
- 1 tsk lyftiduft
- Sjávarsalt á hnífsoddi
- 150 gr rabarbari, skorinn í litla bita
- 2 tsk kartöflumjöl
- 125 gr marsipan
Aðferð: Hitið ofn í 170 gráður, bræðið smjörið og leyfið aðeins að kólna. Þeytið saman egg, sykur og vanillu þar til létt og ljóst. Hellið bræddu smjörinu út í á meðan þið hrærið. Bætið mjölinu, lyftiduftinu og salti saman við og hrærið létt þar til allt er komið saman. Hellið í smurt smelluform. Hrærið kartöflumjölinu saman við rabarbarann og dreifið honum yfir deigið, ýtið aðeins ofan í deigið. Rífið marsipanið á grófu rifjárni yfir rabarbarann. Bakið í 35-40 mínútur. Ef ykkur finnst marsipanið dökkna mikið leggið þá álpappír yfir kökuna eftir ca. 25 mínútur.
- 2 dl rjómi
- 2,5 dl mjólk
- 1 dl hrásykur
- 1 vanillustöng, kornin skafin úr
- 1 sléttfull msk kartöflumjöl
- 1 msk mjólk
- 1 eggjarauða
Aðferð: Setjið rjóma, mjólk, sykur og vanillukorn í lítinn pott. Hitið við vægan-meðalhita þar til blandan hefur hitnað vel og vanillan vel blönduð saman við mjólkina, ekki sjóða. Hrærið kartöflumjölið saman við eina matskeið af mjólk og hellið út í vanillublönduna í pottinum. Pískið saman við þar til blandan er alveg að fara að sjóða eða rétt byrjuð að sjóða, froða byrjar að myndast í köntunum og rýkur úr blöndunni. Takið af hitanum og pískið áfram og látið aðeins kólna. Bætið eggjarauðunni þá út í og pískið áfram þar til blandan hefur þykknað aðeins og kólnað. Hellið sósunni gegnum sigti og berið fram volga með rabarbarakökunni. Sósan geymist í ísskáp í lokuðu íláti en þynnist aðeins þegar hún kólnar.