Það er varla haldin veisla eða mannfögnuður – að ég tali nú ekki um barnaafmæli í minni fjölskyldu, öðruvísi en boðið sé upp á hinar sívinsælu, gömlu og góðu Rice Krispies kökur. Það eru nú til ótal útgáfur af þessum dásamlegu molum en mér þykir þessi uppskrift mjög góð. Hún er einföld, passlega klístruð þannig að kökurnar loða vel saman og virkilega bragðgóð. Þetta er uppskrift sem þarf að mínu mati að vera til á öllum heimilum og svo er alveg upplagt að leyfa litlum fingrum að aðstoða við að hræra og setja molana í form með tveimur teskeiðum.
Sígildar Rice Krisipies kökur (20-25 stk):
- 75 gr ósaltað smjör
- 150 gr suðusúkkulaði
- 6 msk sýróp
- 1/4 tsk gott sjávarsalt
- 5 bollar Rice Krispies
Aðferð: Setjið allt í pott nema Rice krispies. Bræðið saman við vægan hita. Takið af hitanum, bætið korninu saman við hrærið vel þannig að súkkulaðiblandan þekji allt kornið vel. Setjið í lítil form og kælið. Þessa uppskrift má líka nota til að gera t.d kökubotn, þá er blandan sett í kökumót eða fat, svo er hægt að þekja hana með banasneiðum, þeyttum rjóma og karamellusósu.