Aðventuskreytingin tilbúin og þar sem fyrsta aðventuhelgin er nú framundan væri alveg upplagt að bjóða nokkrum vel völdum gestum í morgunmat eða bröns og baka þessar ljúffengu skonsur (sem eru einmitt stjarna síðunnar hérna fyrir ofan). Ég hafði ekki mikla trú á svona skonsum áður en ég prófaði þessar. Mundi bara eftir þessum sem maður getur keypt í bakaríi og finnst þær alltaf frekar þurrar og óspennandi. En þessar skonsur eru í miklu uppáhaldi á mínu heimili, einstaklega sparilegar, léttar í sér og bráðna í munni.
Það er upplagt að baka þær á ljúfum sunnudagsmorgni og bjóða nokkrum gestum í bröns, þær eru líka sérlega vel til þess fallnar að baka á hátíðisdögum og bera fram til dæmis á jóladagsmorgni með heitu súkkulaði. Mér finnst best að borða þær með smjöri og góðri sultu eða ekta ensku ,,Lemon Curd‘‘ sem ég fæ í Pipar og Salt á Klapparstígnum.
Það er mjög gott að nota þurrkuðu trönuberin, þau gera þær alveg einstaklega góðar og jólalegar. Þau eru nú farin að fást í flestum matvöruverslunum og ég hef keypt þau bæði í Bónus og Nettó.
Enskar spariskonsur með trönuberjum – Breytt uppskrift frá Ina Garten
- 5 dl fínmalað spelt eða hveiti
- 1 msk vínsteinslyftiduft (það má alveg nota venjulegt en mér finnst vínsteins betra)
- 1 msk hrásykur
- ½ tsk salt
- 150 gr kalt smjör skorið í litla teninga (ég nota alltaf venjulegt smjör, ekki ósaltað og aldrei smjörlíki)
- 2 egg, hrærð létt saman
- 1,5 dl rjómi
- 2 dl þurrkuð trönuber og 1 msk hveiti – blandað saman (hér má líka nota rúsínur eða sleppa bara)
- 1 egg pískað
Ofn hitaður í 200 gráður eða 180 gráður með blæstri.
Öllum þurrefnum blandað sama í hrærivélaskál, smjörinu síðan blandað saman við og hrært með K-hræraranum (ekki þeytaranum) þar til smjörið er komið gróflega saman við hveitið, smjörbitarnir í deiginu eiga að vera á stærð við baunir eða krónupeninga. Alls ekki að hrærast alveg saman við hveitið eins og þið væruð að fara að gera hnoðað deig. Það eru einmitt smjörbitarnir sem gera skonsurnar léttar og góðar!
Þá er eggjunum og rjómanum bætt við ásamt trönuberjunum með hveitinu. Þessu er létt blandað saman, ekki hæra lengi heldur bara þar til maður hættir að sjá hveitið í deiginu. Þá er þessu sturtað á hveitistráð borð, athugið að deigið er frekar blautt. Þetta er létt hnoðað og deigið flatt út um það bil 2,5 cm þykkt. Ég nota ekki kökukefli, vel hægt að nota bara hendurnar og ýta deiginu til og frá. Svo sting ég út hringi sem eru um 6-7 cm í þvermál. Það má líka skera deigið í ferninga eða þríhyrninga með hníf. Skonsurnar eru svo penslaðar með eggi og bakaðar frekar neðarlega í ofni í um það bil 18 mínútur.
Athugið að ef ekki er notuð hrærivél má einfaldlega mylja smjörið samanvið þurrefnin með fingrunum og blanda eggjunum og rjómanum samanvið með sleif. Það er ekkert mál.
Prófið þær.. í alvöru, þær eru æði!
Sonja Baldursdóttir
Þessar runnu ljúflega niður á páskadagsmorgni 🙂
helenagunnarsd
En gaman 🙂 Já þær eru alveg ótrúlega góðar þessar..
Nafnlaust
Ég bakaði þessar áðan og þær voru mjög bragðgóðar en þær lyftu sér ekkert, virka svo “háar” á myndinni þinni.?!
helenagunnarsd
Hmm.. Ég hef nú ekki lent í því. Gæti nokkuð verið að það hafi vantað lyftiduftið? Annars er mikilvægt að vinna deigið sem minnst og passa að smjörið sé kalt svo það haldist í bitum í deiginu. Og um að gera að fletja deigið ekki þunnt út heldur hafa það vel þykkt þegar skonsurnar eru skornar út. Þær eiga alveg að lyfta sér svolítið en tvöfaldast samt ekki… Vona að þetta hjálpi 🙂
Kær kveðja, Helena
Nafnlaust
Nei ég er klár á að hafa sett lyftiduftið í, en læturðu deigið “hefa sig” ? ….ætla sko örugglega að baka þessar aftur og langar að gera það rétt 🙂
helenagunnarsd
Nei læt það ekki hefa sig. Passa bara að hafa deigið frekar þykkt þegar ég sker hringina út og smjörið ískalt og í litlum bitum í deiginu, og vinna deigið eins lítið og hægt er, bara þannig að þetta rétt loði saman. Hafa aldrei klikkað. Ég er búin að lagfæra uppskriftina aðeins. Sé að ég hef haft þvermálið á skonsunum aðeins of lítið en búin að laga það núna og eins minnka smjörið aðeins. Ég hef bakað þær svo oft að þær breytast og bætast nánast í hvert skipti sem ég geri þær. Vona að þú prófir aftur! 🙂
Kær kveðja, Helena