Ég er ekki þolinmóðasta týpan þegar kemur að bakstri. Tilhugsunin um að standa svo tímunum skiptir við að skreyta kökur, hnoða sykurmassa, skera út blóm og búa til kökur sem líta út eins og Versalakastalar, heillar mig ekki sérstaklega. Ég hef þó gaman að því að baka, ekki misskilja mig. Hef meira að segja vippað fram oftar en einu sinni kökum í afmæli sonar míns sem litu út eins og geimflaug og annarri sem leit út eins og lirfa. Það var mjög krúttlegt og skemmtilegt en tók samt ekki langan tíma í framkvæmd. Reyndin er nú líka sú að þó að kaka líti fallega út skiptir nú eiginlega mestu máli að hún sé bragðgóð. En mikið dáist ég að öllu fólkinu sem nennir að búa til þessi fallegu kökulistaverk fyrir okkur hin sem hafa ekki þolinmæðina í verkið.
Bollakökur eru einmitt þeim kosti gæddar að það þarf tiltölulega litla fyrirhöfn við að baka þær. Það er einnig frekar einfalt að skreyta þær þannig að allir haldi að maður sé mjög flinkur kökuskreytingarmeistari þegar maður kann samt eiginlega ekki neitt í kökuskreytingum. Ég fór í búðina Allt í köku fyrr í vetur og keypti mér nokkra hluti sem gera manni lífið auðveldara þegar kemur að því að skreyta bollakökur. Það þarf alls ekki mikinn búnað. Ég fékk mér nokkra einnota sprautupoka og einn stút númer 2D. Vopnuð þessu voru mér allir vegir færir og ekkert mál að búa til fallegar rósir á bollakökurnar.
Ég gef uppskrift að þessum ljúffengu súkkulaðibollakökum. Botninn er dökkur með miklu súkkulaðibragði, léttur í sér og alls ekki of sætur. Ofan á set ég ekta vanillusmjörkrem. Klassísk samsetning sem getur ekki klikkað.
Súkkulaðibollakökur: (um 30 stk, auðveldlega hægt að helminga uppskriftina) Breytt uppskrift frá marthastewart.com.
- 3/4 bolli kakóduft
- 3/4 bolli sjóðandi heitt vatn
- 300 gr. mjúkt smjör
- 2 bollar sykur
- 1 msk vanilluextract
- 4 egg
- 3 bollar hveiti eða fínmalað spelt (ég notaði speltið)
- 1 tsk matarsódi
- 1 tsk lyftiduft
- 1/2 tsk salt
- 1 bolli sýrður rjómi
Vanillusmjörkrem:
- 300 grömm smjör
- 400 grömm flórsykur
- 1 tsk vanilluextract
- 1 vanillustöng
Aðferð: Hitið ofninn í 170 gráður með blæstri. Byrjið á að blanda saman kakóduftinu og heita vatninu. Hrærið vel þar til áferðin verður slétt. Setjið til hliðar og leyfið aðeins að kólna. Setjið smjör, sykur og vanillu í hrærivélaskál og þeytið vel þar til smjörið verður ljóst og létt. Setjið eggin út í eitt í einu og hrærið vel á milli. Hellið þá kakóblöndunni út í og blandið vel saman. Blandið saman hveiti, lyfitdufti, matarsóda og salti og setjið út í hrærivélaskálina í smáum skömmtun ásamt sýrða rjómanum. Setjið í pappírsklædd bollakökuform þannig að formið fyllist að 3/4. Bakið í 18-20 mínútur. Kökurnar lyfta sér en síga örlítið saman þegar þær koma úr ofninum. Þær eru því alveg upplagðar til skreytinga.
Smjörkrem: Setjið smjörið í hrærivélaskál og þeytið á mesta hraða í 5 mínútur. Málið við þetta krem er að þeyta smjörið nógu lengi þar til það verður nánast alveg hvítt. Það þarf smá þolinmæði í þetta en það gerist á endanum. Þá er flórsykrinum, vanilluextractinu og kornunum úr einni vanillustöng bætt út í og þeytt vel saman í um 2 mínútur til viðbótar. Kremið verður mjög létt og meðfærilegt við þessa meðferð og haggast ekki eftir að því hefur verið sprautað á kökurnar. Þegar bollakökurnar hafa kólnað er kreminu sprautað á þær.
Ef gera á rósir er galdurinn að byrja rósina með því að sprauta beint niður á bollakökuna miðja og fara svo 2-3 hringi og enda yst á brúninni. Það eru örugglega til meiri rósasmjörkremssnillingar þarna úti en ég, en þetta þarf nú ekki að vera fullkomið. Ég get allavega lofað að bragðið er dásamlegt sama hvernig útlitið er
Nanna
En hvað þær eru fallegar hjá þér! Ég legg afskaplega sjaldan í að skreyta kökur, aðeins of mikið þolinmæðisverk 😉
helenagunnarsd
Takk fyrir það. Þetta eru með einfaldari skreytingum sem hægt er að gera á kökur ef maður á það til gerðan stút. ”Vá” faktorinn samt sem áður mjög hár, sem er kannski smá svindl.. Hentar mjög vel fyrir bráðláta wannabe kökuskreytingarmeistara 🙂
Nafnlaust
mjög góð uppskrift!