Ostagerð hefur undanfarið heillað mig dálítið. Að geta búið til jafn dásamlega afurð og ost heima hjá sér er töfrandi iðja að mínu mati. Ég lofa því að þetta er einfaldara en þið getið ímyndað ykkur og útkoman er betri en nokkur ricottaostur sem þið getið keypt út í búð því ferskara gerist það varla. Hráefnin eru fá og einföld, mjólk, rjómi, salt og hvítvínsedik. Ég myndi halda að þetta væri einfaldasti ostur sem hægt er að gera heima hjá sér og það þarf engin sérstök hráefni eða útbúnað sem getur verið erfitt að nálgast. Ég er líka viss um að það er mun ódýrara að útbúa ferskan ricotta ost heima hjá sér heldur en að kaupa rándýran innfluttan ricotta ost úr búð, ef hann fæst þá í matvöruverslunum? Ég hef allavega ekki séð ricotta nýlega.Þegar osturinn hefur verið gerður má gera ýmislegt við hann. Til dæmis væri hægt að skera niður ferskar kryddjurtir, graslauk, chilli, dill eða hvítlauk og hræra saman við hann ásamt smá salti og pipar og þá er maður kominn með þennan fína kryddaða ricotta sem hægt er smyrja ofan á kex eða brauð, nota sem ídýfu og svo framvegis. Ricotta er nokkurskonar rjómaostur, upphaflega ítalskur og gjarnan búinn til í geitamjólk, kúamjólk eða jafnvel buffalamjólk. Ég myndi staðsetja hann mitt á milli rjómaosts og kotasælu. Hann er þó mun fituríkari en kotasæla. Ég gef hér uppskrift að grunnostinum, án allra bragðefna. Í kvöld ætla ég svo að nota hann til að fylla grillaðar kúrbítsrúllur sem ég baka í ofni. Meira um það síðar.
Það sem þarf í ostinn (Af þessu verða um 5 dl af osti):
- 1 l nýmjólk
- 5 dl rjómi
- 1 tsk salt
- 3 msk hvítvínsedik
- Pottur úr ryðfríu stáli eða húðaður að innan eins og t.d le creuset. (Ekki álpottur)
- Stór skál
- Minni skál
- Sigti
- Nýr bleyjuklútur eða grisjuklútur (fæst í öllum matvöruverslunum)
Aðferð:
Setjið sigtið yfir stóra skál. Vindið klútinn upp úr köldu vatni og leggið hann í sigtið þannig að hann þekji það alveg. Ef klúturinn er mjög gisinn er gott að hafa hann tvöfaldan. Setjið mjólk, rjóma og salt í pott og hleypið suðunni upp yfir meðalhita. Hrærið öðru hverju. Þegar suðan er komin upp slökkvið þá undir og hrærið edikinu saman við. Látið standa í eina mínútu. Þá skilur mjólkurblandan sig og verður kekkjótt. Hellið blöndunni í sigtið og látið standa í um 30 mínútur þannig að leki af ostablöndunni. Takið þá úr sigtinu og færi í skál. Notið strax eða setjið plastfilmu yfir skálina og geymið í ísskáp, geymist í 4-5 daga.
Kristín Gróa
Þetta lítur út fyrir að vera svo einfalt að ég skammast mín nánast fyrir að hafa ekki prófað þetta! Ég hef einmitt ekki tímt að kaupa rándýra innflutta ostinn þá sjaldan að hann er til en nú hef ég enga afsökun fyrir að gera hann ekki sjálf 🙂
Brynhildur
Af hverju má ekki nota álpott?
helenagunnarsd
Sæl Brynhildur. Ástæðan er sú að þeir innihalda málma sem geta leyst upp undir ákveðnum kringumstæðum, sérstaklega þegar einhverskonar sýra er sett í þá, t.d. edik eða sítrónusafi. Þá getur komið vont bragð í matinn og sennilega ekki mjög heilsusamlegt heldur 😉 Álpottar eru nú frekar lítið notaðir nú til dags (held ég allavega) og lang flestir nýir/nýlegir pottar eru úr stáli.
Kv. Helena
Anna Karen
Ef maður vill krydda hann eitthvað, hrærir maður því þá út í eftir að edikið fer út í eða hvernig gerir maður það?
helenagunnarsd
Sæl Anna Karen
Maður kryddar hann bara þegar hann er alveg tilbúinn. Semsagt eftir að hann hefur verið sigtaður og kældur.
Kær kveðja, Helena
Anna Karen
Æði, takk kærlega fyrir!
Hlakka til að prófa 🙂
Sigurbjörg Þórðardóttir
Sæl þessi uppskrift er nokkuð sem ég hef verið að bíða eftir að fá.Hlakka til að prófa. Takk fyrir þetta
Kveðja Sigurbjörg
Katrín Waagfjörð
Er að profa þetta. Má eitthvað nýta það sem rennur af ostinum?
helenagunnarsd
Nú er ég ekki viss.. Google örugglega með einhver svör? Hef ekki athugað það sjálf 🙂
Gangi þér vel með ostinn.
Kv. Helena