Það viðrar einkar vel til bananagrillunar núna. Þegar þetta er skrifað sit ég við kertaljós og raflýsingu í eldhúsinu mínu, klukkan tólf á hádegi og rigningin lemur gluggana. En það er aldrei ástæða til að örvænta því eins og maðurinn sagði, þá rignir aldrei það mikið að það stytti ekki upp aftur. Það er orðið ansi langt síðan ég grillaði þessa banana í eftirrétt hér heima einhvern góðviðrisdaginn snemma í vor, full eftirvæntingar eftir alvöru sumri, sól og tveggja stafa hitatölum. En svo fór sem fór. Grillaðir bananar standa samt alltaf fyrir sínu og það setur þá algjörlega á annað plan að fylla þá með After Eight súkkulaði og bera þá fram með örlitlum þeyttum rjóma, loka svo augunum og ímynda sér að maður sé í útilegu í blíðviðri.
Grillaðir bananar (fyrir þrjá):
- 3 bananar
- 9 After Eight súkkulaðiþynnur
- 1,5 dl rjómi
- Álpappír
Aðferð: Byrjið á að skera hýðið ofan af banananum og skerið svo djúpa rauf í bananann. Leggið bananann í álpappírshreiður þannig að hann geti staðið sjálfur án þess að detta. Brjótið After Eight súkkulaðið í tvennt og setjið þrjú stykki í hvern banana. Grillið við meðalháan hita í 10-15 mínútur eða þar til súkkulaðið er bráðnað og bananinn hefur aðeins mýkst. Berið fram með þeyttum rjóma.
[…] hana mætti útbúa í útilegunum í sumar.Einhverjum finnst ég sennilega fara yfir strikið með grilluðum bönunum svona á sumardaginn fyrsta. En þeir standa alltaf fyrir sínu og minna mig bara á útilegur um […]