Það var ekki mikið spjallað við matarborðið um kvöldið þegar þessi réttur var á borðum. Sem annað hvort er vísbending um að við séum svona leiðinleg eða að maturinn hafi verið það góður að það mátti enginn vera að því að tala. Ég vona allavega að það hafi verið það síðarnefnda og grunar það sterklega miðað við hljóðin sem fjölskyldumeðlimir gáfu frá sér við matarborðið. Gunnar átti hugmyndina að matnum og aðstoðaði af áhuga við kjötbollugerðina. Útkoman var einhverjar bestu ítölsku kjötbollur og sósa sem við höfum smakkað.
Ég er búin að vera að prófa mig aðeins áfram með kjötbollur og er svona eiginlega komin á að lykillinn að mjúkum kjötbollum er að bleyta brauðmylsnu eða góðan brauðrasp í mjólk áður en því er svo blandað saman við kjötið. Þetta gerir algjörlega gæfumuninn! Svo mæli ég líka með því að þið sleppið því að steikja bollurnar áður en þær eru settar út í sósuna, mér þykir mikið betra að láta þær detta beint út í sjóðandi sósuna og leyfa þeim að malla þar í rólegheitum. Þá verða þær jafnvel enn safaríkari og mýkri og sósan og bollurnar eiginlega fullkomna hvort annað. Þið verðið að prófa.
- 2.5 dl brauðmylsna (ég notaði Panko í þetta skiptið)
- 1.5 dl mjólk
- 600 gr hreint ungnautahakk
- 75 gr rifinn parmesan
- 1 msk þurrkuð steinselja
- 2 msk smátt söxuð fersk steinselja
- 2 pressuð hvítlauksrif
- 2 tsk sjávarsalt
- 1 tsk svartur nýmalaður pipar
- 1 egg
Aðferð: Mjólkinni hellt yfir brauðmolanna og látið standa í 5 mínútur. Öllu blandað vel saman, ég set allt í hrærivél og blanda þannig saman. Litlar bollur mótaðar úr hakkinu og geymdar í kæli á meðan sósan er gerð.
Sósa
- 3 msk ólífuolía
- 1 smátt saxaður rauðlaukur
- 2 pressuð hvítlauksrif
- 1/2 tsk sjávarsalt og smá nýmalaður pipar
- 500 ml tómata passata eða maukaðir tómatar
- 1 dl vatn
- 3 msk tómatpúrra
- 2 tsk hunang eða önnur sæta
- 2 greinar ferskt timían eða 1 tsk þurrkað
- 1.5 dl þurrt hvítvín eða rauðvín
- 1 dl rjómi
- Góð lúka ferskt basil, gróft saxað
Aðferð: Olía hituð í potti við meðalhita. Laukur og hvítlaukur steikt þar til mýkist, kryddað með salti og pipar. Tómatmauki, vatni, tómatpúrru, hunangi, hvítvíni, timíani og rjóma bætt út í og suðunni hleypt upp. Leyft að malla í 5 mínútur og smakkað til með salti og pipar. Athugið þó að bollurnar eru bragðmiklar og munu gefa frá sér bragð þegar þær koma út í sósuna. Kjötbollur settar útí ásamt basil og leyft að malla við vægan hita með lokið að hálfu yfir, þannig að gufi upp af sósunni og hún þykkni aðeins í u.þ.b 20 mínútur. Borið fram með spaghetti eða tagliatelle og nýrifnum parmesan osti.
Nafnlaust
Hvar fæ ég Pako-rasp?
helenagunnarsd
Ég hef venjulega keypt Panko í Kosti. Það getur verið að það fáist hjá austurlensku vörunum í öðrum verslunum, hef bara ekki athugað það. Þú getur líka notað venjulegt brauð, ristað það og rifið niður eða notað t.d baguette. Allt hægt, gangi þér vel 🙂 Kær kveðja, Helena
Nanna Gunnarsdóttir
Svo er líka hrein snilld að raða bollununm á olíuborna plötu og inn í ofn við 200-210 gráður í smástund, svolítið svona eftir eyranu, velta þeim við og aftur í smástund. Þær verða dásamlega stökkar að utan, og mjúkar að innan og mminni steikingarlykt í húsinu. Þetta er sérstaklega gott ef maður ætlar að bera þær fram í veislum sem munnbitamat með dýfusósum.