Ég tek eftir því þegar ég renni gegnum uppskriftirnar hér inni að oftar en ekki innihalda þær tómata, í einhverskonar formi. Þetta fer næstum því að vera vandræðalegt hversu mikið ég nota þá, bæði ferska og eins niðursoðna. En vitið þið ekki hvað tómatar eru hollir? (þetta er samt ekki neitt sérstakt heilsumatarblogg, höfum það alveg á hreinu) Fyrir utan það hvað þeir eru góðir. Eða það finnst mér að minnsta kosti og fjölskyldunni greinilega líka. Ég á alltaf til tómata, það er eitt af því sem ég verð alltaf að eiga. Ég ætla þó að reyna að koma líka einhverntímann inn með uppskriftir sem innihalda ekki tómata.. sjáum hvernig það tekst til.
Þessi uppskrift inniheldur líka tómata. Jú jú, og það eina krukku af góðum niðursoðnum lífrænum tómötum. Það er líka hægt að nota dósatómata í staðin og hefur mér reynst vel að kaupa niðursoðnu Euroshopper tómatana, finnast þeir oftast mjög rauðir og góðir enda koma þeir beint frá Ítalíu og innihalda fremur lítið af aukaefnum eins og sykri og salti. En ef ég er að bruðla vel ég alltaf þessa lífrænu í glerkrukkunum. Þeir eru voða góðir. Kjúklingarétturinn bragðaðist afar vel og var vel af honum látið af öllum fjölskyldumeðlimum. Sósan er bragðmikil og hráskinkan og capersið gefa réttinum einstaklega gott bragð.
Rómverskur kjúklingur (fyrir 4):
- 4 Kjúklingabringur
- 1 rauð paprika
- 1 gul paprika
- 1 bréf hráskinka (5-6 sneiðar)
- 2 dl hvítvín (má sleppa og nota vatn í staðin)
- 1 krukka hakkaðir tómatar, eða 1 dós + 2 dl vatn
- 1/2 kjúklingateningur
- 2-3 msk capers
- Ólífuolía, salt og pipar og smávegis söxuð steinselja eða basil
Aðferð:
Ofn hitaður í 180 gráður. Byrjið á að kljúfa kjúklingabringurnar í tvennt á þykktina þannig að úr einni bringu verða tvö frekar þunn stykki. Saltið og piprið bringurnar vel og brúnið á vel heitri pönnu á báðum hliðum. Takið bringurnar af og raðið í eldfast mót. Skerið paprikurnar í þunna strimla og hráskinkuna sömuleiðis. Steikið við frekar háan hita þar til skinkan verður stökk. Þá er víninu (eða vatni) hellt yfir og pannan skröpuð með spaða eða sleifinni svo allt losni af botninum. Soðið niður í um 1 mínútu.
Þá er tómötunum hellt yfir og krukkan svo skoluð að innan með ca. 2 dl af vatni og hellt yfir. Kryddað með pipar og kjúklingakraftinum og leyft að sjóða í 2-3 mínútur, passið að setja ekki of mikið salt þar sem skinkan er ansi sölt. Þá er sósunni hellt yfir bringurnar í eldfasta mótinu og capers að lokum stráð yfir. Bakað í 15-20 mínútur eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Stráið svo saxaðri steinselju yfir réttinn og berið fram með nýbökuðu brauði og sítrónubátum. Það væri sennilega líka gott að hafa hrísgrjón með réttinum þar sem sósan er bragðmikil og góð. Mér finnst hins vegar brauð oft passa betur með svona ítölskum sósum.
Skildu eftir svar