• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

Archives for júní 2013

Stingum af og grillum banana með After Eight súkkulaði

júní 26, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_2722Það viðrar einkar vel til bananagrillunar núna. Þegar þetta er skrifað sit ég við kertaljós og raflýsingu í eldhúsinu mínu, klukkan tólf á hádegi og rigningin lemur gluggana. En það er aldrei ástæða til að örvænta því eins og maðurinn sagði, þá rignir aldrei það mikið að það stytti ekki upp aftur. Það er orðið ansi langt síðan ég grillaði þessa banana í eftirrétt hér heima einhvern góðviðrisdaginn snemma í vor, full eftirvæntingar eftir alvöru sumri, sól og tveggja stafa hitatölum. En svo fór sem fór. Grillaðir bananar standa samt alltaf fyrir sínu og það setur þá algjörlega á annað plan að fylla þá með After Eight súkkulaði og bera þá fram með örlitlum þeyttum rjóma, loka svo augunum og ímynda sér að maður sé í útilegu í blíðviðri.

min_IMG_2721Grillaðir bananar (fyrir þrjá):

  • 3 bananar
  • 9 After Eight súkkulaðiþynnur
  • 1,5 dl rjómi
  • Álpappír

min_IMG_2716Aðferð: Byrjið á að skera hýðið ofan af banananum og skerið svo djúpa rauf í bananann. Leggið bananann í álpappírshreiður þannig að hann geti staðið sjálfur án þess að detta. Brjótið After Eight súkkulaðið í tvennt og setjið þrjú stykki í hvern banana. Grillið við meðalháan hita í 10-15 mínútur eða þar til súkkulaðið er bráðnað og bananinn hefur aðeins mýkst. Berið fram með þeyttum rjóma. min_IMG_2731

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: After Eight, Bananar og súkkulaði, Fljótlegur eftirréttur, Grillaðir bananar, Grillaðir eftirréttir

Fljótleg satay kjúklingaspjót

júní 24, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_3033Það er ýmislegt í minni eldamennsku sem ég á alls ekki erfitt með að viðurkenna og það kinnroðalaust. Til dæmis nota ég oft grænmetis- eða kjöt kraft í formi teninga eða dufts sem ég veit að sumir fá svima af. Og mér þykir það bara allt í lagi, ekki sviminn sko heldur að nota teningana. Ég reyni oftast að kaupa góða teninga eða kraft sem inniheldur ekki MSG og fjárfesti stundum í lífrænum krafti. En ef ég finn það ekki notast ég við gamaldags Knorr kraft og það með góðum árangri. Ég veit að það hljómar æðislega rómantískt að búa til sitt eigið soð, leyfa kjöti eða grænmeti að malla við hæga suðu þar til það sýður niður og eitthvað töfrandi gómsætt gerist. Það er jú vissulega stundum staður og stund fyrir það. En eldamennska af þessum toga er kannski ekki eitthvað sem maður er að malla heima hjá sér svona dags daglega.

Fleira sem ég skammast mín ekki fyrir að nota tilbúið er t.d satay sósa, pestó, hummus og curry paste tilbúið úr krukku. Þar gildir hið gamalkunna að reyna að finna góða tegund sem manni líkar vel og svo er sjálfsagt að hressa aðeins upp á innihaldið með nokkrum leynivopnum úr ísskápnum. Allt þetta má þó vel útbúa heima hjá sér frá grunni sem er virkilega gaman svona inn á milli. Satay kjúklingaspjótin sem ég gerði í gær eru einmitt marineruð úr tilbúinni satay sósu sem ég hressti aðeins upp á. Flljótlegur matur sem er tilvalinn á grillið og virkilega ljúffengur.

min_IMG_3028Satay kjúklingaspjót (fyrir 3):

  • 2-3 vænar kjúklingabringur
  • 1 krukka satay sósa (Ég nota Blue Dragon satay sósu úr glerkrukku)
  • 1 msk sojasósa
  • 1 hvítlauksrif, smátt saxað eða rifið
  • Sítróna, skorin í tvennt
  • 1/2 kjúklingateningur
  • Krydd t.d Pasta Rossa eða Chilli explosion (Ég notaði bæði)

Aðferð: Byrjið á að skera kjúklingabringurnar í litla bita. Ég sker bringuna í tvennt á langveginn og sker hana svo í átta jafna bita. Setjið kjúklingabitana í skál. Hellið helmingnum af satay sósunni yfir kjúklinginn ásamt sojasósunni, hvítlauknum og safanum úr hálfri sítrónu. Blandið þessu vel saman og þræðið upp á teina og kryddið svo.min_IMG_3024 Grillið á vel heitu grilli í 10-15 mínútur og snúið nokkuð oft. Afganginn af satay sósunni hita ég rólega upp í potti ásamt 1 dl af vatni, 1/2 kjúklingatening og safanum úr hálfri sítrónu og ber fram með kjúklingaspjótunum. min_IMG_3031Ég bar spjótin fram með kúskús og salati ásamt satay sósunni sem ég hitaði upp. min_IMG_3030

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Grillaðar kjúklingabringur, Kjúklingabringur grillaðar, Kjúklingabringur uppskrift, Satay kjúklingaspjót, Satay kjúklingur, Satay kjúklingur á spjóti

Fylltar ofnbakaðar tortillarúllur

júní 20, 2013 by helenagunnarsd 9 Comments

min_IMG_2901Svei mér þá ef sumarið er ekki bara komið. Ég ætla að leyfa mér að segja það. Sonur minn spyr mig nánast daglega hvenær sumarið komi og skilur illa útskýringar mínar um að stundum rigni á sumrin. ”Getum við þá ekki farið í útilegu?”.. Fyrir honum er sumarið sól, ís á palli, stuttbuxur, gras, grillaðar pylsur og frisbídiskur. Ég sit allavega úti á palli í þessum skrifuðu orðum í smá hádegishléi frá lestri fræðibóka og almennum lokaritgerðarhugleiðingum, sólin skín í heiði og það er pottur á pallinum. Mig langar að deila með ykkur mikilli uppáhaldsuppskrift sem er í senn einföld og sérstaklega góð. Þessar rúllur hafa fylgt mér lengi og þróast aðeins með árunum þó að vissulega séu nú engin geimvísindi á bakvið þær. Mér þykir þetta upplagður föstudags- eða laugardagsmatur þegar alla langar í eitthvað gott að borða og vilja gera vel við sig án mikillar fyrirhafnar.

min_IMG_2908Fylltar ofnbakaðar tortillarúllur (fyrir 4):

  • 500-600 gr hreint ungnautahakk (einn góður bakki)
  • 1 krukka salsa sósa (ég nota milda)
  • 1-2 dl vatn
  • Krydd t.d reykt paprika, cumin, hvítlauksduft og Krydd lífsins
  • Ferskt kóríander (má sleppa)
  • 1 dós 18% sýrður rjómi
  • 1 lítil dós hreinn rjómaostur
  • 6 heilhveiti tortilla kökur (minni gerðin)
  • 1 poki rifinn ostur (t.d pizzaostur)
  • 1 box piccolo tómatar skornir í fernt
  • 5 vorlaukar saxaðir smátt
  • 1 rauð paprika smátt söxuð
  • 2 avocado skorin í sneiðar

Aðferð: Hitið ofninn í 200 gráður. Byrjið á að saxa niður grænmetið. min_IMG_2879Steikið kjötið svo vel og kryddið það eftir smekk.min_IMG_2868Þegar kjötið er brúnað hellið salsasósunni yfir ásamt vatni og leyfið þessu að sjóða í ca. 5 mínútur. min_IMG_2875Takið þá af hitanum og bætið smá söxuðu kóríander saman við. min_IMG_2884Leggið tortillaköku fyrir framan ykkur. Smyrjið á hana 1 msk af rjómaosti. min_IMG_2886Setjið því næst 1/6 af hakkinu ofaná ásamt ca. matskeið af rifnum osti. min_IMG_2888Rúllið kökunni upp og leggið í eldfast mót.min_IMG_2890Endurtakið þar til allar kökurnar eru fylltar. min_IMG_2894Setjið sýrðan rjóma hér og þar yfir kökurnar.min_IMG_2895 Stráið því næst söxuðu grænmetinu yfir og restinni af rifna ostinum. min_IMG_2896Bakið við 200 gráður í 15 mínútur. Berið fram með avocadosneiðum og brosi á vör 🙂min_IMG_2915

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einfaldur matur, Fljótlegur matur, Fylltar tortillur, Hakkréttir, Mexíkóskt lasagna, Mexíkóskur matur, Piccolo tómatar, Tortilla uppskrift, Tortillur

Hvít súkkulaðibaka með ferskum berjum

júní 14, 2013 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_2832Ég hef beðið dálítið lengi með að deila þessari uppskrift. Ástæðan er eiginlega bara sú að mér þykir þessi baka svo sparileg, dásamlega góð og sumarleg að ég hugsaði með mér að það væri fátt meira við hæfi en að deila uppskriftinni að henni í aðdraganda 17. júní. Hún er nú einu sinni í fánalitunum. Eða svona því sem næst. Bakan er alls ekki flókin en það tekur smá tíma og þolinmæði að gera hana. Þolinmæðin felst þó aðallega í biðinni eftir því að geta smakkað hana.

min_IMG_2834Uppskriftin sem ég studdist við er komin frá Andy nokkrum Bates sem hefur í nokkuð langan tíma verið með þætti á Food Network sem bera heitið ”Street Kitchen”. Virkilega skemmtilegir þættir þar sem Andy heimsækir ýmsa staði á Bretlandi og í Bandaríkjunum þar sem borinn er fram skyndibiti með þvílíkum metnaði úr úrvals hráefnum. Andy endar svo oftast þættina á því að elda sjálfur eitthvað ómótstæðilega girnilegt. Eins og þessa fallegu böku. Í upprunalegu uppskriftinni notar Andy eingöngu hindber ofan á bökuna, það er þó alveg hægt að nota þau ber sem hendi eru næst. Íslensku hindberin sem fást nú eru til dæmis alveg tilvalin ofan á og vel þess virði að fjárfesta í því góðgæti. Þau eru ólýsanlega góð! Ég mæli sterklega með því að þið prófið þessa himnesku sumarböku sem allra fyrst. Þó ekki væri nema bara til að fagna 17. júní með stæl!

min_IMG_2828Hvít súkkulaðibaka með ferskum berjum (lítillega breytt uppskrift frá Andy Bates):

  • Bökuskel:

  • 260 g hveiti eða fínmalað spelt
  • 85 gr flórsykur
  • Örlítið salt
  • 150 gr kalt smjör
  • 1 egg
  • 1 eggjarauða
  • Fylling:

  • 300 gr hvítt súkkulaði
  • 300 ml rjómi
  • 60 ml mjólk
  • 1 vanillustöng
  • 2 egg
  • 2 bakkar hindber og 1 bakki bláber (ca. 500 gr af berjum)
  • Flórsykur til að sigta yfir

– Ég nota lausbotna 30 cm bökuform.

– Hægt er að útbúa bökuskelina með góðum fyrirvara t.d daginn áður og geyma óbakaða í ísskáp.

Aðferð: Hitið ofn í 180 gráður með blæstri. Vinnið allt innihaldið í bökuskelina nema eggið og eggjarauðuna saman með höndunum eða í hrærivél þannig að deigið líkist rökum sandi. Setjið eggið og eggjarauðuna saman við og hrærið létt þar til deigið rétt loðir saman. Ekki vinna deigið of lengi. Búið til flatan disk úr deiginu og pakkið því inn í plastfilmu og geymið í ísskáp í 30 mínútur. (Ég lét deigið ekki vera nógu lengi í ísskápnum svo það var dálítið lint, ekki gera eins og ég). Page_1Takið deigið þá út og fletjið út milli tveggja smjörpappírsarka eða á hveitistráðu borði. Leggið deigið því næst í bökumótið og þrýstið því vel út í kantana. min_IMG_2801Snyrtið auka deig í burtu t.d með því að rúlla kökukefli yfir bökumótið.min_IMG_2802 Leggið smjörpappír á deigið og hellið hrísgrjónum eða baunum yfir. Þetta er gert til þess að bökuskelin lyfti sér ekki þegar hún er bökuð. min_IMG_2805Bakið deigskelina í 15 mínútur. Á meðan deigskelin er að bakast saxið súkkulaðið frekar smátt.min_IMG_2789 Hellið þá rjómanum og mjólkinni ásamt kornunum úr einni vanillustöng í pott og hitið upp að suðu. min_IMG_2808Þegar froða byrjar að myndast hliðunum og mjólkin er alveg að fara að sjóða slökkvið undir. min_IMG_2811Hellið rjómanum svo yfir saxað súkkulaðið í gegnum sigti og hrærið saman þar til súkkulaðið er alveg bráðnað. min_IMG_2812Leyfið þessu að kólna í fimm mínútur. min_IMG_2813Hrærið eggin saman og hellið þeim svo út í súkkulaði blönduna og blandið vel saman. min_IMG_2814Takið bökuskelina úr ofninum og lækkið hitann í 160 gráður.min_IMG_2806 Hellið fyllingunni varlega í bökuna. Það er gott að hafa bökuformið á ofnplötu svo auðveldara sé að flytja bökuna inn í ofn án þess að sulla upp úr. min_IMG_2815min_IMG_2816min_IMG_2818Setjið inn í ofn og bakið í 45 mínútur. min_IMG_2824Takið úr ofninum og leyfið að kólna í a.m.k klukkustund við stofuhita eða lengur í ísskáp. min_IMG_2838Takið bökuna úr forminu, skreytið með bláberjum og hindberjum og sigtið örlítinn flórsykur yfir. min_IMG_2864min_IMG_2856min_IMG_2866

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Baka, Berjabaka, eftirréttur, góður eftirréttur, Hvít súkkulaði tart, Hvít súkkulaðibaka, Kaka með hindberjum

Mjúk Marmarakaka

júní 10, 2013 by helenagunnarsd 4 Comments

min_IMG_2744Ég hef það fyrir óskrifaða reglu hér á heimilinu að baka ekki nema einhvert tilefni sé til baksturs. Það felur í sér von á gestum eða einhverskonar fögnuði, sprell eða spé þar sem fleiri en tveir koma saman. Það gengur nú víst ekki að vera sífellt bakandi. Ef ég ”neyðist” til að baka og fáir eru um afraksturinn reyni ég eftir fremsta megni að koma afrakstrinum út úr húsi til vina eða ættingja sem þurfa þá stundum að bera þá þungu byrði að smakka herlegheitin sem eru þá gjarnan skilin eftir í þeirra húsum. Ég veit bara fátt betra en að dunda mér í eldhúsinu þegar veðrið er ekki upp á sitt besta og ég get staðið í eldhúsinu og eldað eða bakað í rólegheitum. Jafnast á við bestu íhugun eða jógatíma.

min_IMG_2737Ég ætla að deila með ykkur uppskrift að mjög góðri marmaraköku sem er frekar langt síðan ég bakaði en átti alltaf eftir að setja hingað inn því ég var nokkuð ánægð með hana. Kakan er virkilega mjúk og góð með miklu súkkulaðibragði. Mér finnst mjög gott að finna greinilegan mun á hvíta og brúna hlutanum í marmarakökum. Rigningardagar að sumri eru eiginlega alveg upplagðir til baksturs til að færa smá bros á andlit fjölskyldu og vina sem bíða ofurspennt eftir að sólin láti sjá sig.

min_IMG_2742Marmarakaka:

  • 125 grömm mjúkt ósaltað smjör
  • 2 dl hrásykur
  • 2 tsk vanilluextract
  • 3 egg
  • 4 dl fínmalað spelt (eða hveiti, ég nota alltaf lífrænt spelt því mér finnst það betra en hveiti)
  • 2 tsk vínsteinslyftiduft (eða venjulegt lyftiduft)
  • 1/2 tsk salt
  • 1 dós sýrður rjómi (2,5 dl)
  • 3 msk mjólk
  • 1/2 dl hreint kakó + 3 msk heitt vatn

Aðferð:

Hitið ofn í 160 gráður með blæstri. Hrærið saman smjör og sykur þar til létt og ljóst. Bætið eggjunum út í einu í einu og hrærið vel á milli ásamt vanilluextractinu. Sigtið saman speltið, saltið og lyftiduftið og bætið því smám saman út í ásamt sýrða rjómanum og mjólkinni. Hrærið þar til þetta er vel samlagað en varist að hræra of lengi. Takið ca. 1/3 af deiginu og færir yfir í aðra skál. Hrærið kakóið saman við heitt vatnið og bætið þessu út í deigið sem þið tókuð frá og blandið vel saman við. Smyrjið langt form og setjið deigið í formið. Fyrst ljóst, svo dökkt og svo aftur ljóst. Um að gera að vera svolítið listrænn þegar kemur að því að setja deigið í formið, þeim mun flottari verður kakan. Dragið svo í gegnum deigið með hníf þannig að það blandist aðeins saman og bakið við 170 gráður í 40-45 mínútur.min_IMG_2750

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Einföld kaka, Formkaka, Kaffimeðlæti, Marmarakaka, Marmarakaka uppskrift

Buffaló kjúklingasalat með gráðostasósu

júní 6, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_2768

Þegar ég var á Flórída fyrir nokkrum árum með foreldrum mínum og manninum mínum (þá kærasta) voru buffaló vængir ósjaldan pantaðir á veitingastöðum. Pabbi og maðurinn minn helltu sér þá gjarnan yfir djúpsteikta vængjastaflana sem voru borðaðir með bestu lyst í miklum hita og raka við klúbbhúsið á golfvellinum og buffaló sósan svo sterk að logarnir stóðu út úr þeim. Okkur mömmu þótti nú stundum alveg nóg um og þrátt fyrir að líka afar vel sterka buffaló bragðið þá þótti okkur þessi villimennska yfir beinunum aðeins of mikið af því góða. Með vængjunum var svo auðvitað borið fram hefðbundið meðlæti, sellerístangir og gráðostasósa.

Þrátt fyrir að vera ekki mikil beinanögunarmanneskja sjálf finnst mér þessi samsetning, þ.e. buffaló kjúklingur og gráðostur alveg dásamlega góð. Það var svo einu sinni að ég fékk á veitingastað hér heima alveg frábært buffaló kjúklingasalat með gráðostasósu. Salatið hitti beint í mark hjá mínum bragðlaukum og ég gat notið buffaló stemmningarinnar án þess að vera með kjúklingabein í andltinu og klístruð á puttunum. (Það er þó alveg staður og stund fyrir svoleiðis.. stundum ekki misskilja mig). En nú er veitingastaðurinn hættur og buffaló salatið sömuleiðis. Ég hef því endurvakið þetta frábæra salat heima við og útkoman var alveg hreint ljómandi gómsæt. Það er sko ekkert leiðinlegt eða bragðlaust við þetta kjúklingasalat og ég gæti sennilega borðað það oft í viku án þess að fá leið á því.

min_IMG_2764Buffaló kjúklingasalat með gráðosti (fyrir 2):

  • 2 eldaðar kjúklingabringur, t.d grillaðar
  • 4 msk Buffalo Hot sauce (Mér þykir þessi best)
  • 2 msk smjör
  • Gott salat, t.d Lambhagasalat
  • 3 vorlaukar
  • 3 tómatar
  • Gráðostur eftir smekk

Aðferð: Byrjið á að elda kjúklingabringurnar í gegn. Rífið eða saxið salatið og leggið á fat eða stóran disk. Saxið tómatana og vorlaukinn frekar smátt og dreifið yfir salatið. Bræðið smjörið í litlum potti og hellið buffaló sósunni yfir og pískið vel saman við smjörið. Hellið sósunni svo yfir eldaðar kjúklingabringurnar og veltið þeim vel upp úr sósunni. Skerið bringurnar svo í þunnar sneiðar og leggið ofan á salatið. Myljið gráðostinn að lokum yfir.min_IMG_2766

Gráðostasósa:

  • 2 msk gráðostur
  • 2 msk majones
  • 1 msk hvítvínsedik
  • Mjólk eða rjómi til að þynna sósuna, ca. 2-3 msk
  • Örlítið sjávarsalt og svartur pipar

Aðferð: Stappið gráðostinn í skál með gaffli og blandið majónesi, ediki, salt og pipar saman við. Þynnið með mjólk þar til sósan er eins og þið viljið hafa hana. Ég miða við að sósan sé ca. á þykkt við súrmjólk. Hellið svolitlu af sósunni yfir salatið og berið restina fram með því. Svo er gott að fá sér smá auka buffaló hot sauce yfir ef maður vill hafa salatið vel sterkt. min_IMG_2781

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Buffaló kjúklingasalat, Gott kjúklingasalat, Gráðostasósa, Kjúklingasalat uppskrift, Salat með kjúkling

Lauflétt agúrkuhrásalat

júní 5, 2013 by helenagunnarsd Leave a Comment

IMG_2756Ég held áfram leit minni að einföldu, hollu og góðu meðlæti sem ég get gert tilbúið áður en ég tek við að grilla eða elda þann mat sem á að vera á borðum eins og ég talaði um hér um daginn. Ég er kannski dálítið nýjungagjörn þegar kemur að salötum og meðlæti en mér finnst alltaf gaman að prófa nýja hluti og setja eitthvað nýtt og spennandi á matarborðið sem helst tekur ekki of langan tíma að útbúa. Þetta agúrkusalat er alveg ljómandi gott og passar alveg einstaklega vel t.d með grilluðum kjúklingabringum eða fiski sem létt og sumarleg máltíð. Syni mínum fannst alveg ótrúlega gaman að sjá hvernig agúrkan og gulræturnar breyttust í langa þunna strimla og fannst þar af leiðandi voða gaman að borða salatið.

IMG_2759Lauflétt agúrkuhrásalat (fyrir 2):

  • 1 agúrka
  • 3 meðalstórar gulrætur
  • 1/2 hvítur laukur
  • 1/2 hnúðkálshöfuð

Dressing:

  • 2 msk hvítvínsedik
  • 2 msk repjuolía eða ólífuolía
  • 1 msk vatn
  • 1 tsk grófkornasinnep
  • 1 tsk hunang
  • 1 tsk majónes
  • Salt og pipar
  • Örlítið af smátt saxaðri ferskri steinselju ef þið eigið hana til (má sleppa)

Aðferð: Setjið allt innihaldið í dressinguna í skál og þeytið vel saman með písk. Sneiðið agúrkuna og gulræturnar niður með flysjara þannig að þið fáið þunnar, langar sneiðar úr grænmetinu. Sneiðið laukinn og hnúðkálið í mjög þunnar sneiðar (með hníf ekki flysjararanum). Setjið allt grænmetið í skál og hellið dressingunni yfir og blandið saman.IMG_2762

 

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Agúrkusalat, Einfalt meðlæti, Einfalt salat, Hrásalat uppskrift, Meðlæti, Salat uppskrift

Jambalaya – Hrísgrjónaréttur

júní 3, 2013 by helenagunnarsd 2 Comments

min_IMG_2712Jambalaya er náfrændi hinnar spænsku paellu sem svo margir kannast við. Þetta er réttur sem á uppruna sinn að rekja til karabísku eyjanna og er undir áhrifum frá franski og spænskri matarhefð en er oftast kenndur við svokallaða kreóla matargerðarlist. Ef þið hafið horft á Seinfeld þættina munið þið kannski eftir því þegar Newman keypti sér Jambalaya hjá The Soup Nazi. Ef ekki þá er það allt í lagi, það hafa ekki allir horft á Seinfeld fjórtán sinnum eins og ég. En það eru til nokkur afbrigði af þessum skemmtilega rétti. Eins og með svo margar uppskriftir sem eiga sér langa sögu þá er það hráefni notað sem hendi er næst eða það sem til er hverju sinni. Segja sumir að orðið Jambalaya þýði ”taktu til í eldhússkápunum”. Þetta er ofboðslega bragðgóður og skemmtilegur matur og mikið fannst mér gaman að elda hann. Það tekur smá tíma að skera allt niður en útkoman er sannarlega þess virði.

Ég sá uppskriftina að þessu jambalaya hjá henni Inu Garten fyrir nokkuð löngu síðan og hefur mig lengi langað til að prófa hann. Ég gerði mér ferð í Pylsumeistarann við Laugalæk þar sem ég fjárfesti í afar gómsætum chorizo grillpylsum ásamt smá lúxus skinkubita til að nota í réttinn. Fyrst ég var nú komin á Laugalækinn valhoppaði ég yfir götuna til hennar Frú Laugu þar sem ég keypti það grænmeti sem mig vantaði upp á, tómata, paprikur og steinselju. Allt íslenskt, nýupptekið og dásamlegt. Ég hellti mér því rauðvíni í glas í rigningunni síðastliðinn laugardagsseinnipart, kveikti á kertum, setti á mig svuntu og naut þess að dunda mér í eldhúsinu við þessa ilmandi matargerð.

min_IMG_2708Jambalaya (breytt uppskrift frá Ina Garten):

  • 2-3 chorizo grillpylsur eða aðrar bragðmiklar pylsur
  • 150 gr góð skinka skorin í teninga (líka hægt að nota t.d kjúkling í staðinn)
  • 2 gulrætur
  • 1 rauð og 1 græn paprika
  • 1 stór rauðlaukur
  • 4-5 hvítlauksrif
  • 5 sveppir
  • 1 stór rauður chillipipar (fræhreinsið ef þið viljið ekki hafa þetta mjög sterkt)
  • 4 tómatar
  • 2 msk tómatpaste
  • 1 tsk þurrkað timian og 2 tsk þurrkuð steinselja
  • 1 kjúklingateningur og 1 grænmetisteningur
  • 2 1/2 bolli hrísgrjón og tæplega 5 bollar vatn (Ég notaði Tilda Basmati)
  • 3 lárviðarlauf
  • Dass af tabasco sósu (6-8 dropar)
  • Fersk steinselja
  • Sítróna
  • 2-3 vorlaukar
  • Ólífuolía, smjör, salt og pipar

Aðferð: Byrjið á að skera niður skinkuna og pylsuna í fremur litla bita. min_IMG_2692Skerið því næst allt grænmetið niður í svipað stóra bita og saxið hvítlaukinn smátt. min_IMG_2696Hitið 2 msk af ólífuolíu í stórum potti og steikið kjötið þar til það er vel brúnað og færið það svo yfir á disk. Setjið svo 1 msk af smjöri í pottinn og steikið allt grænmetið nema tómatana og hvítlaukinn þar til mjúkt. min_IMG_2699Kryddið með ca. 1/2 tsk af sjávarsalti og svörtum pipar. Bætið tómötunum, kjötinu og hvítlauknum út í ásamt tómatpaste, timían og steinselju. steikið aðeins áfram. Hellið þá hrísgrjónunum út í ásamt vatninu, teningunum og lárviðarlaufunum. min_IMG_2702Hleypið suðunni upp, lækkið svo undir, setjið lokið á pottinn og leyfið þessu að sjóða í 20 mínútur. Takið þá lokið af.min_IMG_2706 Saxið steinselju og vorlauk og stráið yfir og kreistið safa úr hálfri sítrónu yfir. Smakkið til með salt og pipar er þurfa þykir og berið fram með sítrónubátum.min_IMG_2709

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Hrísgrjónaréttur, Jambalaya uppskrift, Kreóla matur, Kreóla uppskriftir, Kreólsk matargerð

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram did not return a 200.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme