Það er varla haldin veisla eða mannfögnuður – að ég tali nú ekki um barnaafmæli í minni fjölskyldu, öðruvísi en boðið sé upp á hinar sívinsælu, gömlu og góðu Rice Krispies kökur. Það eru nú til ótal útgáfur af þessum dásamlegu molum en mér þykir þessi uppskrift mjög góð. Hún er einföld, passlega klístruð þannig að kökurnar loða vel saman og virkilega bragðgóð. Þetta er uppskrift sem þarf að mínu mati að vera til á öllum heimilum og svo er alveg upplagt að leyfa litlum fingrum að aðstoða við að hræra og setja molana í form með tveimur teskeiðum.
Sígildar Rice Krisipies kökur (20-25 stk):
- 75 gr ósaltað smjör
- 150 gr suðusúkkulaði
- 6 msk sýróp
- 1/4 tsk gott sjávarsalt
- 5 bollar Rice Krispies
Aðferð: Setjið allt í pott nema Rice krispies. Bræðið saman við vægan hita. Takið af hitanum, bætið korninu saman við hrærið vel þannig að súkkulaðiblandan þekji allt kornið vel. Setjið í lítil form og kælið. Þessa uppskrift má líka nota til að gera t.d kökubotn, þá er blandan sett í kökumót eða fat, svo er hægt að þekja hana með banasneiðum, þeyttum rjóma og karamellusósu.
Nafnlaust
Er ekki í lagi að frysta kökurnar? ef svo er, hvað þarf maður að taka þær út löngu fyrir veislu? 🙂
helenagunnarsd
Já allt í góðu að frysta kökurnar, kemur bara vel út. Gott að taka þær út a.m.k klukkustund áður en þú ætlar að bera þær fram. Gættu þess bara að hafa þær í plastpoka eða vel lokaðar í frystinum 🙂
Gangi þér vel!
Kær kveðja, Helena
Embla
Geggjað gott💕
Nafnlaust
vel gert
Nafnlaust
Flott! Mjög góðar kökur
Nafnlaust
Þarf að nota suðusúkkulaði, getur maður notað hvaða súkkulaði sem er?
helenagunnarsd
Alveg hægt að nota hvaða súkkulaði sem er 🙂 Ég nota suðusúkkulaði af því mér finnst það gott og ekki of sætt. Stundum nota ég dekkra súkkulaði en aldrei ljósara.
Jóna
Takk fyrir góðar uppskriftir. Ég er reyndar í smá vandræðum með þessa hér, búin að prófa þrisvar í þessari viku og þetta vill aldrei límast almennilega saman, svo maður þarf helst að borða þetta með skeið… ég gerði þetta oft á árum áður og man ekki til þess að það hafi nokkurn tímann misheppnast svo ég er alveg ráðalaus. Búin að prófa bæði Nóa og Lindu suðusúkkulaði, alltaf notað Lyle’s Golden Syrup. Bæði búin að prófa að hita smjörið, sírópið og súkkulaðið samtímis á lágum hita og að hita smjörið og sírópið fyrst og láta það þykkna aðeins áður en ég bæti súkkulaðinu við. En allt kemur fyrir ekki 🙁 Það vantar ekki að þetta er bragðgott, en mig dreymir um svona glansandi, þéttar rice crispies kökur eins og á myndinni, hvert er eiginlega trikkið?
helenagunnarsd
Æjæj en leitt að heyra! ..sko, það sem mér dettur helst í hug að þú sért að setja of mikið Rice krispies korn? Það er best að bæta því ekki alveg öllu saman við í upphafi heldur hræra saman, skilja smá eftir og sjá hvernig þetta tekir við sér. – Annað, kökurnar eru mjög lausar í sér þar til þær hafa kólnað alveg í ísskáp, og ég geymi þær í ísskáp 🙂 Ég nota alltaf þessa uppskrift með góðum árangri.. Ég bræði bara allt saman í stórum potti við vægan hita þar til smjörið og súkkulaðið er alveg bráðnað, læt ekkert sjóða eða malla 🙂 Tek svo af hitanum og bæti korninu saman við. Vona að þetta gangi upp hjá þér! ❤️
Kær Kv. Helena
Auður Jons
Sæl Helena ertu með þetta í minni eða stærri muffins formunum?