Þetta mikla gúmmelaði þykir mér alveg kjörinn föstudags- eða helgarmatur. Ég eldaði réttinn á dögunum og stóð sennilega ekki lengur en 15 mínútur við eldavélina og lét ofninn sjá um restina. Svoleiðis réttir finnst mér svo frábærir, þetta er bæði auðveldara og fljótlegra (og betra) en að panta pizzu! Sósan er bragðmikil svo ef þið eða börnin ykkar eruð mjög viðkvæm fyrir sterku bragði er um að gera að nota milda salsa sósu og jafnvel hægt að skipta Mexíkó ostinum út og nota papriku eða pepperoni ost í staðin. Okkur þótti þetta hins vegar alveg mátulega bragðmikið, meira að segja þeim fimm ára.
Salsa kjúklingur með Mexíkó osti (fyrir 6):
- 6 kjúklingabringur
- 1-2 msk olía eða smjör
- Krydd, t.d chilli explosion eða önnur góð kryddblanda
- 1 stór krukka (350 gr) salsa sósa
- 1 askja Philadelphia light rjómaostur
- 1 Mexíkó ostur, smátt skorinn
- 1/2 kjúklingateningur
- Nokkrar tortillaflögur
- 1 dl rifinn ostur
- Smátt saxað ferskt kóríander (má alveg sleppa)
Aðferð: Hitið ofn í 180 gráður og kveikið undir pönnu á meðal-háum hita. Skerið bringurnar í tvennt, kryddið og steikið upp úr smjöri eða olíu þar til bringurnar hafa brúnast. Leggið kjúklinginn í eldfast mót. Hellið salsa sósunni á pönnuna ásamt smátt skornum Mexíkó ostinum og rjómaostinum og hálfum kjúklingateningi. Setjið 1 dl af vatni í salsakrukkuna, lokið á og hristið og hellið á pönnuna. Hitið sósuna þar til allt bráðnar en það er allt í lagi að hafa smá Mexíkó osta bita í henni, bara betra. Hellið yfir kjúklingabringurnar. Stráið yfir rifna ostinum og nokkrum lúkum af muldum tortillaflögum. Bakið í 20 mínutur. Stráið smátt söxuðum kóríander yfir og berið fram með tortillaflögum, gróft skornum tómötum og avocado. Það má líka gjarnan bera þetta fram með hrísgrjónum, brauði eða salati.
Nafnlaust
Var að prófa þessa, mjög gott, ég bætti við lauk, papriku og maískorni í sósuna. Geri þetta pottþétt aftur.
Kata Jonsd
Blessud Helena!
Vinkona min sem byr herna i Gautaborg fann thessa lika finu uppskrift a facebook sem hana langadi svo til ad prufa og vid hittumst sjö Islendingar i gaer og eldudum saman. Mer fannst mjög snidugt ad thad hefdi verid thessi uppskrift… Greinilegt ad sidan thin er ordin umtölud 😉
Geggjad gott! Maeli svo sannarlega med thessu, snilldar stemningsmatur a spilakvöldi!
Kvedja fra Gautaborg,
Kata Jons
helenagunnarsd
Blessuð Kata mín!
En gaman að vita, takk fyrir að deila þessu með mér! Alltaf svo skemmtilegt þegar fólk getur nýtt sér það sem er hérna inni 🙂 Bestu kveðjur til ykkar úr snjónum í Kópavogi, Helena
Arna
Gerði þennan um helgina, mjög góður 🙂
Ingvar
Nú ætla ég ekkert að efast um að höfundur þessarar síðu hafi búið þessa uppskrift til en ég bjó sjálfur til uppskrift sem er ansi svipuð þessari fyrir c.a. 2 árum og er ansi vinsæl á mínu heimili og hjá nokkrum heimilisgestum sem sumir hafa heimtað “kjúklingarétt eins og Ingvar gerir” á sitt heimili. Ég set reyndar ekki kóríander og ekki rjómaost né kjúklingatening en allt hitt er bara nánast eins. Sérstaklega finnst mér fyndið að í uppskriftinni standi að það standi “Setjið 1 dl af vatni í salsakrukkuna, lokið á og hristið og..” í uppskriftinni þó ég noti meira af salsa og vatni (enda rjómaostur í þessari)
helenagunnarsd
Sæll Ingvar og takk fyrir innlitið!
Já, svona er þetta nú skemmtilegt með matargerðina. Þessi réttur hefur lengi verið vinsæll á mínu heimili og ég hef lesið um og smakkað ýmsar útgáfur af honum í gegnum tíðina. Einföld hráefni sem geta ekki klikkað. Hugmyndin að réttinum kviknaði upphaflega hjá mér fyrir nokkrum árum þegar ég var í afmæli þar sem boðið var upp á heita salsa og rjómaosta ídýfu með tortillaflögum, svo óskaplega (syndsamlega) góð samsetning sem hefur svo smám saman þróast og breytist sennilega jafn oft og ég elda réttinn. Ég myndi þó seint eigna mér heiðurinn af því að hafa búið uppskriftina til 🙂 Eingöngu góð og einföld uppskrift sem mér þótti vert að deila með lesendum síðunnar.
Kær kveðja, Helena
Fanney
þessi fer á listan að gera sem fyrst það eru til alls konar útgáfur sbr ein hér undir bætt í mais.papriku út í sína ..ég hef gert þessa sem oft sést hér á netinu með kjúlla papriku lauk .sósan þar piparostur mexico svo rjómi og snakk svo efst og ostur ..en gaman að fá nýjar útgáfur og hugmyndir ..takk að deila pS notaðir.þú salsa sósuna frá Tortilla eða kveðja F
Nafnlaust
ommnommnomm….. var með þennan í kvöld og algjört jummelaði 😀 takk fyrir þetta og skiptir ekki hvaðan gott kemur ;D
bm
Ommnommnomm góður er hann, var með hann í kvöld og allir brosandi eyrnanna á milli, takk fyrir þetta kærlega
Gunnar
Prófaði þetta í kvöld. Algjör snilld! Ég bætti að vísu aðeins af frosnu grænmeti ofan á kjúklingabringurnar og eins dós af kjúklingabaunum í sósuna.
Guðbjörg Soffía
Hæ, ég er að fara prenta þessa út er þegar búin að gera hana nokkrum sinnum síðan ég sá hana fyrst fyrir nokkrum vikum – ég fer að kunna hana utan að !