Það er alveg með ólíkindum hvað fólk almennt virðist hafa gaman að því að lesa um mat. Ég verð allavega pínulítið feimin þegar ég átta mig á því hversu margir lesa þessa litlu uppskriftasíðu mína sem í byrjun átti aðeins að vera fyrir mig og mína og til að hafa uppskriftirnar allar á einum stað. Mér þykir svo ótrúlega vænt um að þið viljið líta hingað inn og ég tala nú ekki um þegar þið skiljið eftir ykkur spor eða sendið mér línu. Ég hefði aldrei getað ímyndað mér hvað það er gaman að halda úti svona síðu og hvað það gefur mér mikið að geta veitt öðrum innblástur þegar kemur að bakstri og matargerð. Það er svo stutt síðan ég sat hinum megin við borðið, þræddi matarblogg (sem ég geri sannarlega ennþá) og uppskriftasíður og hugsaði um að kannski ætti maður bara að skella saman einu svona bloggi til að koma skikki á uppskriftasafnið.
Í dag, 21. nóvember er heilt ár liðið síðan fyrsta uppskriftin birtist á Eldhúsperlum, gestum hefur jafnt og þétt fjölgað og uppskriftirnar eru orðnar vel á annað hundrað. Undanfarnar vikur hefur heimsóknateljarinn á síðunni hvað eftir annað slegið eigið met og greinilegt að mataráhugi fólks fer ekki dvínandi. í febrúar ákvað ég að stofna Facebook síðu utan um bloggið. Ég setti mér það markmið að ef sú síða myndi ná 1000 ”like-um” fyrir árslok 2013 ætlaði ég halda áfram með hana. Mér fannst einfaldlega eitthvað svo sorgleg tilhugsun að vera með síðu sem næði ekki inn sterkum lesendahópi. Síðan er núna komin yfir 2600 ”like” svo markmiðinu er náð og gott betur. Eins og er get ég ekki hugsað mér að hætta að skrifa um mat eða að bæta nýjum færslum inn á Eldhúsperlur, þetta er svo gaman! Við ykkur langar mig einfaldlega að segja TAKK. Takk fyrir að lesa og takk fyrir að vera svona skemmtileg. Ég hlakka mikið til næsta Eldhúsperluárs með nýjum uppskriftum og tryggum lesendum.
Í tilefni dagsins læt ég hér fylgja með einhverja einföldustu en bestu smákökuuppskrift sem ég hef prófað. Uppskriftin birtist í Vikunni fyrr í mánuðinum svo það er kominn tími til að hún birtist hér. Ég mæli með að þið prófið þessar og vona að þið njótið vel!
Nutella smákökur með sjávarsalti:
- 200 gr nutella
- 2 msk hrásykur
- 1 egg
- 1 tsk vanilluextract
- 1 tsk instant kaffiduft (ég mala það í morteli)
- 1,5 dl fínmalað spelt eða hveiti
- 1 dl (eða meira) dökkir eða ljósir súkkulaðidropar eða saxað súkkulaði
- Gott sjávarsalt í flögum t.d Maldon eða Saltverk
Aðferð: Hitið ofn í 170 gráður með blæstri, annars 180. Hrærið nutella, egg, vanillu, sykur og kaffiduft saman með sleif þannig að það blandist vel saman. Bætið hveitinu út í ásamt súkkulaðidropunum og hrærið þar til það hefur rétt svo samlagast deiginu. Kælið í 15-30 mínútur. Setjið deigið með tveimur teskeiðum á bökunarplötu, stráið örlitlu sjávarsalti ofan á hverja köku og bakið í 7-9 mínútur. Mér finnst betra að baka þær aðeins of lítið og leyfa þeim svo að kólna. Þá verða þær mjúkar í miðjunni og dásamlegar. Athugið að kökurnar eiga að vera mjúkar í miðjunni. Kælið á grind.
[…] í kramið hjá mér og eru eiginlega alveg að slá í gegn núna á aðventunni, má ég minna á Nutella kökurnar?? Ef þið eruð hrifin af hnetusmjöri mæli ég með því að þið prófið þessar kökur hið […]