Sumir geta ekki borðað fisk nema hann sé í einhverskonar dulbúningi. Ég er reyndar ekki ein af þeim og nýt þess að borða ferskan fisk nánast í hvaða útgáfu sem er. Soðinn og allsberan þess vegna, svo lengi sem hann er nýr. Það á nú reyndar líka við um fisk í dulbúningi. Fiskur verður bara að vera nýr, helst spriklandi ferskur. Áður fyrr var ég þó heldur meira gefin fyrir dulbúna fiskrétti og fannst fiskur eiginlega ekkert svo spes svona almennt. En tímarnir breytast. Nú elda ég allskonar fisk, dulbúinn eða ekki og nýt þess að borða þetta ljúffenga og létta hráefni. Ég neita því samt ekki að hér mætti gjarnan vera fiskur oftar á borðum og sannarlega eitthvað sem ég er statt og stöðugt að reyna að breyta.
Þessi fiskur er svona fyrir ”fiskihatara” og auðvitað hina líka. Myndirnar eru nú reyndar ekki til að hrópa húrra fyrir, en það verður bara að hafa það. Þetta er bragðmikill og sérstaklega ljúffengur réttur sem er tilbúinn á mettíma. Einn af þessum réttum sem ég er svo fegin að hafa upp í erminni og hlakka alltaf til að elda.
Fiskur með sólþurrkuðum tómötum og ólífum:
- 600 grömm nýr fiskur, ég notaði ýsu
- Sólþurrkað tómatamauk, líka hægt að nota rautt pestó
- 1 lítil krukka svartar ólífur
- 1 kúla ferskur mozarella ostur
- 1 askja kirsuberjatómatar
- 1 dl rifinn parmesan ostur
- Ólífuolía og gott krydd t.d Heitt pizzakrydd frá Pottagöldrum
Aðferð: Hitið ofn í 200 gráður og smyrjið eldfast mót með ólífuolíu. Skerið fiskinn í passlega bita, kryddið og leggið í mótið. Smyrjið um það bil einni teskeið af sólþurrkaða tómatmaukinu ofan á hvern fiskbita. Skerið tómata og ólífur í tvennt og dreifið yfir. Leggið sneið af mozarella ofan á hvern fiskbita. Dreifið parmesan osti yfir allt saman og kryddið yfir með heitu pizzakryddi. Bakið í 20 mínútur eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn og osturinn bakaður. Berið fram t.d með góðu brauði eða hrísgrjónum og salati. Hér var rétturinn borinn fram með linguine að ósk þess fimm ára á heimilinu.
Sigga Atla
Í hvað notar þú mozzarella ostinn?
helenagunnarsd
Sæl Sigga
Ég legg eina sneið af mozarella osti ofan á hvern fiskbita. Stundum nota ég líka bara rifinn ost og sleppi mozarellaostinum.
Kær kveðja, Helena