• Skip to primary navigation
  • Skip to main content
  • Skip to primary sidebar
  • Skip to footer

Eldhúsperlur logo

  • Uppskriftir
    • Allar færslur
  • Innblástur
  • Um síðuna
  • Navigation Menu: Social Icons

    • Facebook
    • Instagram
    • Pinterest
    • RSS
    • Snapchat
    • Twitter

Archives for ágúst 2014

Toscana súpa

ágúst 28, 2014 by helenagunnarsd 1 Comment

min_IMG_6480Mikið var nú gott að komast í eldhúsið aftur í rólegheitum, elda góðan mat og taka myndir. Ég verð hálf eirðarlaus ef það líður langur tími á milli svoleiðis dúllerís viðburða en tíminn hefur ekki verið mikill til slíks dundurs undanfarið. Ég var alsæl með útkomuna á þessari ljúffengu súpu. Súpan er (miðað við það sem ég hef lesið á öðrum bloggsíðum) upprunalega frá veitingastaðnum Olive Garden – ítalskri veitingastaðakeðju sem rekur nokkur hundruð veitingastaði víða um Bandaríkin. Hversu ítölsk veitingastaða keðjan er má nú deila um þar sem þar gætir vissulega bandarískra áhrifa. Veitingastaðirnir eru þó afar vinsælir og þessi súpa hefur um árabil verið einn af vinsælli réttum staðarins. min_IMG_6472Þessi útgáfa er þó aðeins breytt og aðlöguð að íslenskum aðstæðum þar sem eitt af aðal hráefnunum í upprunalegu uppskriftinni er ítölsk pylsa eða ”sausage”.. svoleiðis fíneri fékkst ekki hér síðast þegar ég gáði svo ég notaði einstaklega bragðgóðar grískar pylsur frá Kjarnafæði í staðinn sem kom vel út. Ég mæli með að þið skoðið úrvalið á pylsum í matvörubúð og prófið einhverjar nýjar og spennandi í þessa súpu. Eins er alltaf gaman að heimsækja Pylsumeistarann á Hrísateigi og prófa einhverja af gæðapylsunum þaðan. Þó ég leggi það nú ekki í vana minn að elda pylsur eða unnar kjötvörur reglulega má nú alveg gera einstaka undantekningar á því, það gerir regluna líka bara skemmtilegri. Þetta er algjör sparisúpa kæru vinir, og kannski ekki súpa sem maður myndi elda einu sinni í viku. En ég get næstum lofað að hún mun vekja lukku þar sem hún er borin á borð.

min_IMG_6474Toscana súpa (fyrir 6):

  • 150 gr beikon, smátt skorið
  • 1 laukur, smátt saxaður
  • 4 hvítlauksrif, smátt söxuð
  • 350-400 gr góðar pylsur, t.d. grískar pylsur frá Kjarnafæði eða aðrar bragðmiklar pylsur, smátt skornar (tilvalið að kíkja t.d í Pylsumeistarann)
  • 500 gr kartöflur, skornar í tvennt og svo í sneiðar
  • 1 askja (ca. 15-18 stk) kirsjuberjatómatar, skornir í tvennt
  • 1 líter kjúklingasoð
  • 3 dl rjómi
  • 3-4 góðar lúkur af fersku spínati
  • Sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar
  • Smávegis af fersku basil til að strá yfir að lokum

min_IMG_6461Aðferð: Byrjið á að hita stóran pott við meðalhita. Steikið beikonið þar til það er vel stökkt og færið þá upp á eldhúspappír. Steikið laukinn og hvítlaukinn í beikonfitunni (ef ykkur þykir of mikil fita af beikoninu hellið þá aðeins af henni). Bætið pylsunum út í og steikið þar til þær brúnast aðeins. Bætið þá kartöflusneiðunum og tómötunum út á og steikið aðeins áfram. Hellið soðinu og rjómanum yfir og hleypið suðunni upp. Smakkið til með salti og pipar og e.t.v kjúklingakrafti ef ykkur finnst þurfa. Sjóðið í um 10 mínútur eða þar til kartöflurnar hafa eldast í gegn. Bætið þá spínatinu út í og látið það sjóða með í um 2-3 mínútur. Berið fram strax með fersku basil og stráið stökku beikoninu yfir hverja skál.min_IMG_6483min_IMG_6470….Það meiddust engar risaeðlur við gerð þessarar súpu – þær voru bara staddar alveg óvart þarna í horninu.. 🙂

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Besta súpan, Besta súpuuppskriftin, Góð súpa, Góð súpa fyrir veislu, Góðar súpur, Rjómalöguð súpa, Súpur uppskriftir, Veislusúpa

Amerísk gulrótarterta

ágúst 14, 2014 by helenagunnarsd 9 Comments

min_IMG_6345Á ferðalagi okkur um Norðurlandið fyrr í sumar vorum við svo heppin að fá oftast framúrskarandi góðan og ferskan mat. Það er virkilega gaman að sjá hvað metnaður í matreiðslu virðist vera að aukast og ég held að kröfur um góðan mat séu sífellt að verða meiri. Það er nokkuð ljóst að ef veitingastaðir eiga að ganga þarf maturinn þar að vera það góður að maður vilji koma aftur og aftur. Ekki miklar líkur á að staðir gangi vel sem fá hvern gest aðeins einu sinni í mat og síðan ekki söguna meir. Stundum þegar ég fæ svona allt í lagi góðan mat á veitingastað þarf oft ekki nema eitthvað eitt frábært til að sannfæra mig um að koma aftur. Frábæran eftirrétt eða forrétt, fullkomlega eldað kjöt eða fisk og ég verð sannfærð um að þarna sé eitthvað gott á ferðinni. En að sama skapi get ég orðið frekar sár þegar pantaður er réttur sem svo auðveldlega getur verið frábær en er það svo ekki. min_IMG_6364Eitt af því besta í bakkelsismálum sem maðurinn minn veit er gulrótarkaka. Hann pantaði sér einmitt eina slíka í eftirrétt á frekar fínum veitingastað á Norðurlandinu í fríinu okkar góða. Þvílík vonbriðgði. Kakan var næstum því jafn þurr og tvíbaka og bragðið óspennandi eftir því. Glötuð gulrótarkaka sumsé. Lífið er sannarlega of stutt fyrir vont bakkelsi, svona ef maður ætlar á annað borð að leyfa sér það. Ég ákvað því í tilefni brúðkaupsafmælis okkar á dögunum að baka bestu gulrótartertu hingað til.. því svoleiðis gerir maður ef maður ætlar á annað borð að baka gulrótartertu. Það varð enginn fyrir vonbrigðum í þetta skiptið enda um einstaklega ljúffenga tertu að ræða. Uppskriftin er gömul og amerísk og af þeim matarbloggum að dæma sem hafa tekið tertuna fyrir, er þetta besta gulrótarterta sem um ræðir. Held ég sé bara sammála því svei mér þá. Kremið sem ég nota er ekki með rjómaosti, mér þykir svoleiðis krem oftast allt of væmið og bara ekki nógu gott. Ég bjó því til frekar klassískt hvítt vanillusmjörkrem með smá sítrónusafa. Ég mæli eindregið með að þið prófið þessa.

min_IMG_6376min_IMG_6387Amerísk gulrótarterta (Örlítið tilfærð uppskrift frá www.momontimeout.com):

Ath: Bollamálið sem ég nota er 2.5 dl.

  • 1 1/4 bolli bragðlítil olía
  • 1 1/2 bolli sykur
  • 3 egg
  • ————————
  • 2 bollar hveiti eða fínmalað spelt
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 1/2 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • 1 tsk kanill
  • ————————
  • 2 bollar rifnar gulrætur
  • 1 bolli kókosmjöl
  • 1 bolli hakkaðar valhnetur eða pekanhnetur (má sleppa)
  • 2 tsk vanilluextract
  • 1 bolli hakkaður ananas úr dós með safanum

Aðferð: Hitið ofn í 170 gráður með blæstri annars 190 gráður. Smyrjið tvö 24 cm kökuform og leggið smjörpappír í botninn. Byrjið á að þeyta saman olíu, sykri og eggjum þar til blandan lýsist aðeins og verður örlítið loftkenndari. Blandið saman í annari skál: hveiti, matarsóda, lyftidufti, salti og kanil. Í þriðju skálinni blandið saman rifnum gulrótum, kókosmjöli, hnetum (ef þið notið þær), vanillu og ananas (með safanum). Hellið hveitiblöndunni og gulrótarblöndunni saman við eggjablönduna og hrærið þar til þetta er komið vel saman án þess þó að hræra of lengi. Skiptið deiginu jafnt í formin og bakið í 30-35 mínútur eða þar til bakað í gegn. Fylgist með kökunum þar sem ofnar geta verið misjafnir. Takið kökurnar út og látið kólna alveg áður en kremið er sett á.min_IMG_6337

Krem:

  • 250 gr mjúkt smjör
  • 500 gr flórsykur
  • 2 msk ferskur sítrónusafi (ekki úr plastflösku)
  • 2 tsk vanilluextract
  • 2-3 msk mjólk til að þynna kremið ef þarf

Aðferð: Þeytið smjörið í 2-3 mínútur eða þar til það hvítnar og verður létt. Bætið flórsykrinum út í og þeytið áfram í 2-3 mínútur. Bætið sítrónusafanum og vanilllunni saman við. Setjið mjólk saman við ef ykkur finnst kremið of þykkt. Dreifið um 1/3 af kreminu á neðri botninn. Leggið þá hinn ofan á og dreifið restinni af kreminu jafnt yfir alla kökuna. Skreytið e.t.v með hökkuðum pekanhnetum eða kókosmjöli.min_IMG_6357min_IMG_6378

Filed Under: Eldhúsperlur

Uppáhalds ferska salsa sósan – góð með öllu!

ágúst 11, 2014 by helenagunnarsd Leave a Comment

min_IMG_6391Já ég var víst búin að lofa uppskrift að gulrótartertu. Engar áhyggjur, hún kemur. En fyrst skulum við búa til ferska salsa því veðrið bara kallar á svoleiðis gleði! Ég er afar hrifin af salsa sósum og gæti sennilega borðað þær með öllum mat. Salsa dýrðin nær auðvitað nýjum hæðum og það aukaefnalausum þegar sósan er heimatilbúin. Uppáhaldið mitt að gera við salsa sósu er til dæmis ofan á kotasælu á hrökkbrauði, ofan á avocado á hrökkbrauði, með grilluðu öllu, helst þá kjúklingi, fiski eða hamborgurum og svo auðvitað sem ídýfa með tortillaflögum. Ég vil hafa mína salsa frekar sterka en bragðið fer auðvitað bara eftir smekk. Ef þið notið chilli pipar mæli ég með því að þið smakkið smá bita af piparnum áður en þið setjið hann út í sósuna þar sem chilli getur verið afar mismunandi. Þar sem notaðir eru ferskir tómatar í sósuna verður hún frekar vökvamikil, það er því um að gera að sigta aðeins af vökvanum frá áður en maður ber hana fram. Hvet ykkur til að prófa þessa, hún er svo góð og sumarleg!

min_IMG_6392Fersk salsa sósa:

  • 6 vel þroskaðir eldrauðir tómatar
  • 1 lítill rauðlaukur, skorinn smátt
  • 1 hvítlauksrif, rifið eða smátt saxað
  • 1 lítill grænn chillipipar (meira eða minna eftir smekk)
  • Góð handfylli ferskt kóríander
  • Safi úr einni límónu
  • 1/2 tsk kummin
  • 1 tsk sjávarsalt

Aðferð: Allt sett í matvinnsluvél eða blandara og blandað/púlsað þannig að útkoman verði frekar gróf salsa sósa. Ekki mauka of lengi. Smakkið til með salti og sigtið aðeins af vökvanum frá áður en salsa sósan er borin fram. Geymist í ísskáp í 2-3 daga.

p.s.. Ef þið eigið ekki matvinnsluvél eða blandara er líka hægt að skera allt hráefnið frekar smátt með hníf og blanda saman, geri það stundum þegar ég nenni ekki vélaveseninu. Það er alveg jafn gott!

min_IMG_6400

Filed Under: Eldhúsperlur

Dásamlegir bláberjabitar

ágúst 7, 2014 by helenagunnarsd 5 Comments

min_IMG_6100

Þessir bláberjabitar eru jafn einfaldir og þeir eru ljúffengir. Ég hef ef til vill sett óþarflega margar bláberja uppskriftir hingað inn en það er nú bara vegna þess að ég nota bláber mikið. Á enn aðalbláberin góðu síðan í fyrra haust og var svo heppin að fá meira að segja smá áfyllingu á þau á dögunum. Þvílíkur lúxus að hafa aðgang að þessu frábæra hráefni. Sannfærðist endanlega um lúxusinn sem ég bý við þegar ég rakst á litla dós, varla meira en bolla, af ferskum íslenskum aðalbáberjum á 800 krónur í matvörubúð í gær..! Ég hvet ykkur til að kíkja á berjamó á næstunni og næla ykkur í nokkrar góðar lúkur af þessu góðgæti. Það er svo ótrúlega upplífgandi að draga íslensk ber úr frystinum að vetri til og nota í sjeika, bökur eða hvað sem er.

min_IMG_6096Bláberja bitar – lítillega breytt uppskrift frá Smitten Kitchen (1 bolli: 2,5 dl)

  • 3 bollar hveiti eða fínmalað spelt
  • 1 bolli sykur
  • 1 tsk lyftiduft
  • 225 gr kalt smjör skorið í bita
  • 1 egg
  • 1/4 tsk salt
  • Fínrifinn börkur og safinni úr einni sítrónu
  • 4 bollar bláber (ég notaði frosin)
  • 1/4 bolli sykur (meira ef berin eru mjög súr)
  • 3 tsk maíssterkja eða kartöflumjöl

Hitið ofn í 160 gráður með blæstri annars 180. Smyrjið form. Skúffukökuform passar t.d. vel fyrir þessa uppskrift.

Hrærið saman 1 bolla af sykri, 3 bollum af hveiti, lyftidufti, salti og sítrónuberki. Blandið köldu smjörinu og egginu saman við þar til blandan líkist blautum sandi. Hellið helmingnum af deiginu í formið og þrýstið niður með fingrunum.min_IMG_6080

Blandið þá saman berjunum,sykrinum, sterkjunni og sítrónusafanum. Hellið berjablöndunni yfir botninn.min_IMG_6084 Myljið restina af deiginu yfir berin. Bakið í  um 40-45 mínútur eða þar til bakað í gegn og gullinbrúnt (tók aðeins lengri tíma eða um 50 mínútur hjá mér þar sem ég notaði frosin bláber). min_IMG_6086Kælið alveg og skerið svo í litla bita.min_IMG_6089min_IMG_6094

Filed Under: Eldhúsperlur Tagged With: Baka úr bláberjum, Bláber uppskriftir, Bláberjabaka, Bláberjakaka

Primary Sidebar

Instagram

Fylgdu mér!

Hafðu samband

Sendu mér tölvupóst!

Nýlegar færslur

  • Dökk og dúnmjúk skúffukaka með smjörkremi
  • Peruterta
  • Hægeldaðir lambaleggir í rauðvínssósu
  • Möndluterta með vanillukremi og jarðarberjum
  • Vatnsdeigsbollur 101
sjá allar færslur

Færslusafn

  • september 2023
  • mars 2023
  • maí 2022
  • febrúar 2022
  • janúar 2022
  • júní 2021
  • desember 2020
  • maí 2020
  • apríl 2020
  • nóvember 2019
  • mars 2019
  • febrúar 2019
  • desember 2018
  • nóvember 2018
  • júlí 2018
  • maí 2017
  • nóvember 2016
  • ágúst 2016
  • júlí 2016
  • apríl 2016
  • mars 2016
  • janúar 2016
  • desember 2015
  • nóvember 2015
  • september 2015
  • ágúst 2015
  • júlí 2015
  • júní 2015
  • maí 2015
  • mars 2015
  • janúar 2015
  • nóvember 2014
  • október 2014
  • september 2014
  • ágúst 2014
  • júlí 2014
  • júní 2014
  • maí 2014
  • apríl 2014
  • mars 2014
  • febrúar 2014
  • janúar 2014
  • desember 2013
  • nóvember 2013
  • október 2013
  • september 2013
  • ágúst 2013
  • júlí 2013
  • júní 2013
  • maí 2013
  • apríl 2013
  • mars 2013
  • febrúar 2013
  • janúar 2013
  • desember 2012
  • nóvember 2012
save 20% at feastdesignco.com

Footer

Instagram did not return a 200.
sjá allar færslur

Copyright © 2025 Eldhúsperlur on the Foodie Pro Theme