Já ég var víst búin að lofa uppskrift að gulrótartertu. Engar áhyggjur, hún kemur. En fyrst skulum við búa til ferska salsa því veðrið bara kallar á svoleiðis gleði! Ég er afar hrifin af salsa sósum og gæti sennilega borðað þær með öllum mat. Salsa dýrðin nær auðvitað nýjum hæðum og það aukaefnalausum þegar sósan er heimatilbúin. Uppáhaldið mitt að gera við salsa sósu er til dæmis ofan á kotasælu á hrökkbrauði, ofan á avocado á hrökkbrauði, með grilluðu öllu, helst þá kjúklingi, fiski eða hamborgurum og svo auðvitað sem ídýfa með tortillaflögum. Ég vil hafa mína salsa frekar sterka en bragðið fer auðvitað bara eftir smekk. Ef þið notið chilli pipar mæli ég með því að þið smakkið smá bita af piparnum áður en þið setjið hann út í sósuna þar sem chilli getur verið afar mismunandi. Þar sem notaðir eru ferskir tómatar í sósuna verður hún frekar vökvamikil, það er því um að gera að sigta aðeins af vökvanum frá áður en maður ber hana fram. Hvet ykkur til að prófa þessa, hún er svo góð og sumarleg!
- 6 vel þroskaðir eldrauðir tómatar
- 1 lítill rauðlaukur, skorinn smátt
- 1 hvítlauksrif, rifið eða smátt saxað
- 1 lítill grænn chillipipar (meira eða minna eftir smekk)
- Góð handfylli ferskt kóríander
- Safi úr einni límónu
- 1/2 tsk kummin
- 1 tsk sjávarsalt
Aðferð: Allt sett í matvinnsluvél eða blandara og blandað/púlsað þannig að útkoman verði frekar gróf salsa sósa. Ekki mauka of lengi. Smakkið til með salti og sigtið aðeins af vökvanum frá áður en salsa sósan er borin fram. Geymist í ísskáp í 2-3 daga.
p.s.. Ef þið eigið ekki matvinnsluvél eða blandara er líka hægt að skera allt hráefnið frekar smátt með hníf og blanda saman, geri það stundum þegar ég nenni ekki vélaveseninu. Það er alveg jafn gott!
Skildu eftir svar