Það er stórsniðugt að geyma eggjahvítur sem falla til í frysti. Ég set oftast 3-4 eggjahvítur saman í plastpoka og sting í frystinn. Einhverra hluta vegna höfðu þónokkrir svona pokar safnast fyrir í frystinum í vetur (bernaise-sósu veturinn mikli?) og kominn tími til að nota þær. Úr varð þessi stórkostlega, hættulega góða marengsterta þar sem enginn afsláttur var gefinn í gúmmelaðiheitum. Ég veit ekki með ykkur en mér þykir einstaklega sumarlegt að bera fram jarðarberjaskreytta rjómatertu, í hátíðlegu sunnudagskaffiboði eða sem eftirrétt í grillveislu. Það verða allir glaðir þegar þið komið askvaðandi með svona tertu í fanginu. Passið ykkur bara að detta ekki.. það getur gerst á bestu bæjum!
- 6 eggjahvítur
- 300 gr sykur
- 1/2 tsk cream of tartar eða vínsteinslyftiduft
Aðferð: Hitið ofn í 120 gráður með blæstri. Þeytið eggjahvíturnar þar til froðukenndar. Bætið sykrinum smám saman út í. Þeytið í´1-2 mínútur. Bætið þá vínsteinslyftiduftinu út í. Dreifið jafnt úr marengsinum á tvær smjörpappírsklæddar bökunarplötur þannig að hann myndi tvo um það vil jafn stóra hringi. Bakið í 90 mínútur. Slökkvið þá á ofninum, opnið hann og leyfið að kólna í um 1 klst.
Fylling:
- 5 dl rjómi
- 4 kókosbollur
- Jarðarber
Aðferð: Þeytið rjómann, brjótið kókosbollurnar saman við. Dreifið yfir annan marengsbotninn. Skerið jarðarber í sneiðar og leggið ofan á rjómann, setjið svo hinn marengsbotninn ofan á.
Ofaná:
- 1 poki Dumle karamellur (120 gr)
- 1 dl rjómi
- Jarðarber
Aðferð: Bræðið saman í potti við vægan hita. Kælið og hellið yfir tertuna. Skreytið með jarðarberjum. Ég mæli með að setja tertuna saman í fyrsta lagi 4-6 tímum áður en hún er borin fram og geyma í ísskáp. Marengsinn þolir ekki að standa mikið lengur með rjómanum á. Ef þið viljið gera tertuna daginn áður mæli ég með að þið frystið hana.
Nafnlaust
Sæl. Eru þetta súkkulaðihúðuðu Dumle karamellurnar gömlu, góðu
helenagunnarsd
Já passar 🙂