Það er svo sannarlega oftar við hæfi en bara á jólum að baka smákökur. Svo verð ég að viðurkenna að súkkulaði er minn veikleiki þegar kemur að bakstri. Dásamlegra hráefni er varla hægt að finna. Þessar ljúffengu kökur fá að fylgja okkur fjölskyldunni í bústað um helgina, sitja núna þægar og góðar ofan í boxi og bíða eftir fari í sveitina. Það er einmitt svo upplagt að baka smákökur fyrir ferðalög, útilegur eða lautarferðir (eru ekki einmitt allir á fullu að plana lautarferðir núna??..) – Njótið helgarinnar kæru vinir. Dálítið súkkulaði gerir allt betra.
Himneskar Brownie smákökur (um 14 frekar stórar kökur)
- 250 gr súkkulaði (dökkt eða suðusúkkulaði) + 100 gr saxað súkkulaði (má líka sleppa)
- 60 gr íslenskt smjör
- 2 egg
- 100 gr púðursykur
- 1 tsk vanilludropar
- 50 gr hveiti
- 1/2 tsk lyftiduft (ég nota alltaf vínsteins)
- 1/4 tsk salt
Aðferð: Byrjið á að bræða saman smjör og 250 gr súkkulaði við vægan hita. Setjið egg, sykur og vanillu í skál og pískið aðeins saman. Hellið súkkulaðiblöndunni saman við og blandið vel saman. Hrærið þurrefnunum að síðustu saman við ásamt söxuðu súkkulaði ef þið notið það. Setjið skálina inn í ísskáp í 20-30 mínútur þannig að deigið stífni aðeins. Hitið ofninn í 180 gráður á meðan. Setjið um 1 msk af deiginu á bökunarpappírsklædda plötu og bakið í um 9-10 mínútur eða þar til kökurnar eru bakaðar í köntunum og enn blautar í miðjunni. Látið kökurnar kólna alveg á plötunni og takið þær svo af. Geymast vel í loftþéttu boxi í ísskáp, má líka frysta.
Nafnlaust
Ég bakaði þessar í dag. Hjálpi mér hamingjan hvað þær eru góðar.
helenagunnarsd
En skemmtilegt að vita!… Hver svo sem þú ert..? 🙂
Kær kveðja, Helena